Stórhertogadæmið Toskana

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ítalía árið 1796: Stórhertogadæmið er litað appelsínugult

Stórhertogadæmið Toskana var stórhertogadæmi sem varð til þegar Píus 5. páfi lýsti Cosimo hertoga af Flórens, stórhertoga árið 1569. Cosimo hafði áður stækkað ríki sitt mikið með því að kaupa eyna Elbu og leggja borgina Siena undir sig. Stórhertogadæmið heyrði að nafninu til undir Heilaga rómverska ríkið. Medici-fjölskyldan ríkti yfir stórhertogadæminu þar til aðalgrein ættarinnar dó út árið 1737 og Frans af Habsburg-Lothringen tók við völdum ásamt konu sinni Maríu Teresu sem fékk titilinn stórhertogaynja. Yngri sonur þeirra, Leópold, fékk stórhertogadæmið í sinn hlut við lát föður síns en þegar hann varð keisari fékk yngri sonur hans, Ferdinand, stórhertogadæmið.

Í frönsku byltingarstríðunum 1799 var landið hernumið af Napoléon Bonaparte sem breytti ríkinu árið 1801 í Konungsríkið Etrúríu sem Ferdinand af Parma fékk í sárabætur fyrir hertogadæmið Parma. Árið 1807 var þetta ríki svo innlimað í Frakkaveldi. Napoléon gerði systur sína, Elisu Bonaparte að stórhertogaynju.

Eftir Vínarþingið var Ferdinand endurreistur. Sonur hans Leópold tók við eftir lát hans en þegar annað ítalska sjálfstæðisstríðið braust út lagði Viktor Emmanúel 2., Sardiníukonungur ríkið undir sig. Í desember 1859 var stórhertogadæmið lagt niður og varð hluti af Sameinuðum héruðum Mið-Ítalíu sem urðu hluti af Sardiníu nokkrum mánuðum síðar.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.