Stálbandalagið
Stálbandalagið (þýska: Stahlpakt, ítalska: Patto d'Acciaio) var hernaðarbandalag Ítalíu og Þýskalands sem Galeazzo Ciano og Joachim von Ribbentrop undirrituðu fyrir hönd ríkjanna 22. maí 1939.
Bandalagið gekk út á gagnkvæma tafarlausa aðstoð ef kæmi til stríðs milli annars hvors ríkisins og einhvers þriðja aðila og að ekki yrði undirritað friðarsamkomulag við þriðja aðila án samþykkis hins ríkisins. Að auki kvað samkomulagið á um samstarf á sviði hergagnaframleiðslu og hernaðar almennt. Samkomulagið átti að gilda til tíu ára.
Stálbandalagið byggði á þeirri hugmynd ríkjanna að heimsstyrjöld myndi bresta á innan þriggja ára. Þegar Þýskaland hóf átökin í september 1939 reyndust ráðamenn Ítalíu óundirbúnir og áttu því í erfiðleikum með að standa við efnisatriði samkomulagsins. Vegna þess hófu Ítalír þátttöku í styrjöldinni með mislukkaðri innrás í Suður-Frakkland í júní 1940. Ýmsir meðlimir ítölsku ríkisstjórnarinnar, þar á meðal Ciano sá sem undirritaði samkomulagið, voru andsnúnir bandalaginu.