Stilkormar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stilkormar
Barentsa discreta
Barentsa discreta
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Yfirfylking: Lophotrochozoa
Fylking: Stilkormar (Entoprocta)
Ættir

Stilkormar (fræðiheiti: entoprocta) eru fylking dýra sem hefst við í vatni, langflestar tegundur í hafinu.[1] Stilkormar eru 0,1 til 7 mm langir og flestir geta ekki fært sig úr stað. Fullþroska stilkormar eru bikarlaga á tiltölulega löngum stilkum og hafa kórónu af gegnheilum örmum með smáum bifhárum sem sópa vatni að munninum en ormarnir nærast á smáum fæðuögnum sem þeir sía úr vatninu.[2] Bæði munnur og endaþarmur stilkorma er í kórónunni.[2] Mosadýr (ectoprocta) líkjast stilkormum en armar þeirra eru holir að innan og endaþarmurinn utan kórónunnar. Fræðiheiti fylkinganna þýða beinlínis „endaþarmur inn“ (entoprocta) og „endaþarmur út“ (ectoprocta). 150[3] til 180[4] tegundir stilkorma eru þekktar og flestar eru þær sjávardýr utan tvær sem vitað er um sem hafast við í ferskvatni.[3] Flestar tegundir hafast við í þyrpingum en af þeim tegundum sem eru einfarar geta sumar fært sig úr stað, en þó afar hægt.[2]

Stilkormar fjölga sér bæði með kynæxlun og með klónun. Ormarnir eru tvíkynja yfir æviskeið sitt en þó ekki af báðum kynjum samtímis heldur fyrst af öðru og síðar af hinu.[2] Karlkyns stilkormar losa sæði út í vatnið en kvendýrin aðhafast misjafnlega eftir tegundum. Sumar tegundir losa ófrjóvguð egg sín út í vatnið en aðrar halda þeim í útungunarhólfum þar sem þau frjóvgast og eru geymd þar til þau klekjast. Sumar af þeim tegundum hafa líffæri sem svipar til legköku spendýra sem nærir eggin á meðan þau þroskast. Stilkormar klekjast sem lirfur og geta þá synt um í skamman tíma þar til þeir taka sér bólfestu á einhverju föstu yfirborði. Þar gangast lirfunar undir myndbreytingu þar sem aftari hluti meltingarvegarins snýst um 180° þannig að bæði munnur og endaþarmsop vísa í sömu átt. Sumar tegundir stilkorma geta fjölgað sér með klónun. Einfara tegundir geta þá af sér nýja einstaklinga sem vaxa á milli armanna en tegundir sem hafast við í þyrpingum klóna sig út frá stilkunum eða með renglum.[2]

Steingervingar stilkorma eru sjaldgæfir og elstu sýnishornin sem fundist hafa eru frá júratímabilinu. Í flestum rannsóknum frá 1996 og síðar hafa stilkormar verið taldir heyra undir yfirfylkinguna trochozoa sem inniheldur m.a.lindýr en rannsókn frá 2008 benti til þess að stilkormar væru náskyldir mosadýrum.[4]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Í hvaða fylkingar er dýrum skipt?“. Vísindavefurinn.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „The Phylum Entoprocta“. Sótt 20. desember 2012.
  3. 3,0 3,1 Wood, Timothy S.. „Loxosomatoides sirindhornae, new species, a freshwater kamptozoan from Thailand (Entoprocta)“. Hydrobiologica. (544) (2005): 27-31.
  4. 4,0 4,1 „Goblet Worm - Entoprocta“. Sótt 20. desember 2012.