Fara í innihald

Steinmóður Bárðarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Steinmóður Bárðarson (d. 1481) var prestur í Hólabiskupsdæmi og síðar ábóti í Viðeyjarklaustri í hátt í fjörutíu ár á 15. öld og er talinn í hópi merkustu ábóta klaustursins.

Steinmóður hefur verið talinn sonur Bárðar Njálssonar prests á Kálfafelli Bárðarsonar. Hann kemur við heimildir sem djákn og síðan prestur í þjónustu Jóns Vilhjálmssonar Craxton, biskups á Hólum og síðar í Skálholtsbiskupsdæmi. Hann var orðinn ábóti í Viðeyjarklaustri 1444 en þá hafði verið ábótalaust þar allt frá því að Bjarni Andrésson lést 1428. Í ábótatíð sinni var hann oft officialis, enda var biskupslaust í Skálholti langtímum saman og Marcellus, sem þar var biskup í meira en áratug, kom aldrei til landsins. Einnig mun hann hafa verið officialis í Hólabiskupsdæmi eftir Gottskálk Keniksson.

Steinmóður kemur oftsinnis við skjöl á 15. öld og meðal annars er til páfabréf sem Nikulás V skrifaði honum 3. febrúar 1451 og gefur honum þar fyrirmælium að setja Jón Þorkelsson ábóta í Helgafellsklaustri. Hann var umsvifamikill í fjármálum klaustursins og er talinn hafa átt í deilum og jafnvel vopnuðum átökum við Englendinga í Hafnarfirði.

Sonur Steinmóðs var líklega Þorvarður Steinmóðsson lögréttumaður í Reykjavík en fleiri hafa verið nefndir, þar á meðal Snjólfur, sem féll í bardaga við Englendinga í Hafnarfirði.

Snjólfur lést 1481. Jón Árnason var orðinn ábóti 1490 og hefur líklega tekið við af honum.

  • „Viðeyjarklaustur. Sunnudagsblað Tímans, 23. júlí 1967“.
  • „Um klaustrin á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.