Fara í innihald

Bjarni Andrésson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bjarni Andrésson (d. 1428) var ábóti í Viðeyjarklaustri á fyrsta fjórðungi 15. aldar. Hann var vígður 1405, tveimur árum eftir að Páll kjarni lést í Svarta dauða, og var ábóti í klaustrinu til dauðadags.

Bjarni var sonur Andrésar Gíslasonar úr Mörk, hirðstjóra tvívegis á 7. áratug 14. aldar. Hann hefur trúlega verið í ættartengslum eða vináttu við ýmsa helstu höfðingja landsins. Sama ár og hann vígðist ábóti var haldin mikil brúðkaupsveisla í Viðey, þar sem Björn Einarsson Jórsalafari gifti dóttur sína, Vatnsfjarðar-Kristínu, Þorleifi Árnasyni í Auðbrekku og var þar margt stórmenni.

Bjarni ábóti dó 1428 og eftir lát hans var ábótalaust í Viðey og klaustrið þá undir valdi leikmanna, allt þar til Steinmóður Bárðarson varð ábóti 1444 eða þar um bil. Þó er til páfabréf, gefið út í Flórens af Evgeníusi IV 28. október 1441, þar sem hann staðfestir veitingu ábótadæmis í Viðey til Gerreks Lundikin, sem var þýskættaður prestur frá Björgvin, en hann kom þó að öllum líkindum aldrei til Íslands.

  • „Viðeyjarklaustur. Sunnudagsblað Tímans, 23. júlí 1967“.
  • „Um klaustrin á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.