Steina Vasulka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
„Steina“ vísar hingað. Fyrir nafnið, sjá Steina (nafn).
Steina ásamt Woody Vasulka

Steina Vasulka (fædd Steinunn Bjarnadóttir 30. janúar 1940) er íslenskur vídeólistamaður. Hún ólst upp í Reykjavík og byrjaði ung að læra á fiðlu. Árið 1959 fékk hún námstyrk til að fara í framhaldsnám í tónlist í Prag . Þar kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum Woody Vasulka (fæddur Bohuslav Vasulka árið 1939), sem lærði vélfræði og kvikmyndagerð. Steina og Woody fluttu til Íslands árið 1964 þar sem Steina starfði um tíma sem fiðluleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Árið 1965 fluttu þau til Bandaríkjanna og settust að í New York borg árið 1965. Steina starfaði fyrstu árin sem sjálfstætt starfandi fiðluleikari, en árið 1969 sneri hún sér að vídeói. Í upphafi fengust hún og Woody við heimildamyndagerð, en síðan breyttust viðfangsefni þeirra. Þau héldu fyrstu opinberu sýningu sína á vídeólist árið 1971 hjá Max Kansas City í New York. Sama ár stofnuðu þau sýningar- og tónleikastaðinn The Kitchen sem þau ráku í tvö ár. Árið 1973 var þeim boðið að taka þátt í stofnun deildar í miðlafræðum við SUNY- Ríkisháskólann í Buffalo í New York ríki. Frá árinu 1980 hefur Steina búið ásamt Woody í Santa Fe í Nýju Mexíkó.

Steina sýndi verk sín í fyrsta skipti á Íslandi árið 1984 þegar henni var boðið að taka þátt í sýningunni 10 gestir á Listahátíð í Reykjavík.[1] Sýningarstjóri var Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur. Steina kom aftur til Íslands til að taka þátt í sýningu norræna tvíæringsins Borealis 6 árið 1993 og sýndi þá verkið Borealis í Listasafni Íslands.[2] Sama ár áttu Steina og Woody verk á gjörninga- og vídeólistahátíð sem haldin var í Nýlistasafninu. Steina átti einnig verk á sýningunni Kvenna-vídeó sem var haldin á á Kjarvalsstöðum árið 1995.[3] Ári síðar var fyrsta yfirlitssýningin á verkum Steinu á Íslandi sett upp á Kjarvalsstöðum.[4] Steina var fyrsta konan til að vera fulltrúi Íslands á tvíæringnum í Feneyjum árið 1997 þar sem hún sýndi innsetninguna Orka.[5] Frá því á tíunda áratugnum hafa verk Steinu verið sýnd reglulega á Íslandi, og eru nú aðgengileg í Vasulka stofu sem var opnuð þann 16. október 2014 í Listasafni Íslands.[6]

Vasulka stofa varðveitir verka- og heimildasafn Steinu og Woodys Vasulka. Deildarstjóri Vasulka stofu er Kristín Scheving.[7]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Listasafn Reykjavíkur, http://listasafnreykjavikur.is/syningar/10-gestir-listahatidar-84-ad-kjarvalsstodum
  2. Þórunn Þórsdóttir, "Frumkraftar", Menning og listir, Morgunblaðið, 8 maí 1993, B2-B3, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1784955
  3. Listasafn Reykjavíkur, http://listasafnreykjavikur.is/syningar/kvenna-video
  4. Listasafn Reykjavíkur, http://listasafnreykjavikur.is/syningar/steina-vasulka
  5. Einar Falur Ingólfsson, "Listin er að miðla einhverjum guðdómi", Lesbók Morgunblaðsins, 28 júní 1997, 8-9, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3312670
  6. Friðrika Benónýsdóttir, "Átak í söfnun og varðveislu vídeóverka", Fréttablaðið, 16. október 2014, 54, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=6164084
  7. 700IS Hreindýralandi lokið í Sláturhúsinu, Austurland, 13 nóvember 2014, 4, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=6167511