Fara í innihald

Spartacus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Spartakus)
Stytta af Spartacusi á Louvre-safni eftir Denis Foyatier (1830).

Spartacus var skylmingaþræll sem var hnepptur í ánauð af Rómverjum. Hann leiddi þrælauppreisn á árunum 73 f.Kr. til 71 f.Kr., þá þriðju og síðustu sinnar tegundar í Rómaveldi. Uppreisnin var jafnframt sú eina sem átti sér stað á Ítalíuskaganum sjálfum.

Spartacus, ásamt um 70 fylgismönnum sínum flúðu frá Pompeii í átt að fjallinu Vesúvíusi. Þeir héldu til nærri þeim stað sem Napólí stendur á nú. Fleiri þrælar héðan og þaðan einkum úr dreifbýlinu gengu til liðs við uppreisnarmennina sem að endingu töldu um 70.000 manna herlið. Hópurinn ríkti yfir svæðinu þar sem þeir héldu til. Þar sem hlutfall þræla á móti borgurum var hátt á þessum tíma var þrælauppreisn grafalvarlegt mál fyrir Róm. Öldungadeildin sendi Claudíus Glaber með 3.000 manna herlið til að ráða niðurlögum þrælanna. Claudíus og menn hans króuðu þrælana af á Vesúvíusi en þrælarnir fylgdu Spartacusi niður aðra hlíð fjallsins og svo kom þrælaherinn aftan að hinni rómversku herdeild og gersigraði hana. Spartacus og menn hans sigruðu tvær rómverskar herdeildir áður en hópurinn hélt suður á bóginn. Fjöldi fólks, gamalmenni, börn og konur höfðu þá gengið til liðs við Spartacus í von um frelsi. Að vori hélt hópurinn fylktu liði til norðurs í átt að Gallíu. Öldungadeildin sendi tvo ræðismenn, þá Gellius Publicola og Gnaeus Cornelíus Lentulus Clodianus, hvorn með tvær herdeildir. Gallar og Germanir sem skildu við Spartacus voru sigraðir. Spartacus sigraði hins vegar ræðismennina og herdeildirnar sem þeim fylgdu við Picenum og við Moden sigraði Spartacus Gaius Cassius Longinus, landstjóra Gallíu Cisalpinu.

Um það leyti sem hópurinn nálgaðist Gallíu sneri mestallur hópurinn við og hélt suður á bóginn og sigraði tvær herdeildir Marcusar Liciniusar Crassusar. Í árslok 72 f.Kr. sló Spartacus upp búðum í Rhegium skammt frá Messina sundinu. Í ársbyrjun króuðu 8 herdeildir Crassusar Spartacus af í Calabria. Spartacus braust úr herkvínni og komst til Brindísum en herir Crassusar náðu Spartacusi í Lucaníu og var hann veginn í bardaga á bökkum Silarusar. 6.000 fylgismenn Spartacusar voru krossfestir með fram Via Appia. Um 5.000 fylgismenn Spartacusar sluppu frá Crassusi en voru gersigraðir af Pompeiusi sem fékk heiðurinn af því að hafa ráðið niðurlögum þrælauppreisnarinnar.

Spartacus tindurinn á syðri Hjaltlandseyjum við Suðurskautslandið var nefndur eftir þrælaforingjanum.

Í kvikmyndum

[breyta | breyta frumkóða]

Ævi Spartacus voru gerð skil í samnefndri kvikmynd frá árinu 1960. Kvikmyndin var í leikstjórn Stanley Kubricks og skartaði stórstjörnum á meðal leikara, þ.á m. Kirk Douglas sem lék Spartacus, Laurence Olivier sem lék Crassus og Peter Ustinov sem fékk Óskarsverðlaun fyrir frammistöðu sína. Myndin hlaut alls 4 Óskarsverðlaun og var auk þess tilnefnd í tveim flokkum til viðbótar.

  Þessi fornfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.