Fara í innihald

Snjóþrúgur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nútíma snjóþrúgur
Hefðbundin gerð af snjóþrúgum

Snjóþrúgur eru fótabúnaður til að ganga í snjó. Þær virka þannig að þyngdin dreifist yfir meira svæði og sekkur fóturinn þá ekki í lausamjöll. Snjóþrúgur voru gerðar úr viði og leðurþvengjum en eru núna gerðar úr léttum málmi eða plastefnum og gerviefnum. Til þess að snjóþrúgur safni ekki í sig snjó er í þeim net eða fléttingar eða göt í gegn og á þeim þarf að vara festibúnaður sem festir þær á fæturna.

Snjóþrúgur voru til forna nauðsynlegt verkfæri fyrir veiðimenn, skógarverði og aðra sem þurftu að fara yfir svæði þar sem oft lá yfir djúpur snjór. Núna eru snjóþrúgur fyrst og fremst notaðar af göngufólki og hlaupurum sem vilja komast leiðar sinnar í snjó að vetrarlagi. Auðvelt er að læra að ganga á snjóþrúgum og það er frekar hættulaus og ódýr afþreying. Talið er að snjóþrúgur hafi verið notaðar í 6000 til 8000 ár og merki eru um notkun slíks búnaðar úr Kákasus og Armeníu.

Frumbyggjar Norður-Ameríku notuðu ýmis konar snjóþrúgur, hver ættbálkur hafði sína eigin gerð. Inúítar lengst í norðri bjuggu til einföldustu útgáfurnar, þeir gerðu tvær gerðir, önnur var um 46 sm löng og hin gerðin var næstum hringlaga. Snjóþrúgur urðu æ aflangari eftir því sem sunnar dró og þær lengstu voru gerðar af Krí-indjánum en þær voru 1,8 m langar og uppbrettar að framan. Í snjó í skóglendi þar sem snjólagið var þynnra og blautara skipti floteiginleiki snjóþrúgna ekki eins miklu máli.

Franskir landnemar í Ameríku tóku snjóþrúgur fyrr í notkun en breskir. Orðið eskimói er talið komið úr „sá sem gerir snjóþrúgur“.

Á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Snjóþrúgur þekktust á Íslandi fyrr á öldum en voru aldrei algengar. Í frásögn í Austra 1887 er þeim lýst þannig: „„Þrúgar“ voru sterk gjörð sem beygð var í hring, fitjað ólum innan í og bundnir upp um ristarnar. Á þeim gengu einstakir menn hér á Austurlandi fram á þessa öld, þegar snjór var mikill og djúpur; en mjög var það ólipurt, þar eð þrúgarnir skögðu alla vega eins langt út undan fótunum eins og þeir voru stórir til, en nokkuð héldu þeir uppi þeim sem á þeim gekk. Og ekki hefur víst verið til þeirra tekið nema í mestu fannfergjum.“[1]

Tilvísun[breyta | breyta frumkóða]

  1. Þættir úr sögu Austfirðinga. Austri, 18. tbl. 1887, bls. 72.