Fara í innihald

Snið:Gátt:Heimspeki/Inngangur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hugsuðurinn eftir Auguste Rodin

Heimspeki er glíma við grundvallarspurningar. Þeir sem fást við heimspeki kallast heimspekingar. Þeir reyna m.a. að skýra inntak og tengsl hugtaka og fyrirbæra á borð við sannleika, þekkingu, skoðun, eðli, orsök, dygð, frelsi, list og svo framvegis. Heimspekin er ekki einber opinberun einhverrar skoðunar, heldur er hún öðru fremur rökræða um þessar spurningar.

Það hefur reynst afar erfitt að finna skilgreiningu á heimspeki vegna þess hve margvíslegar hugmyndir hafa verið kallaðar heimspeki. Eigi að síður má reyna að lýsa einkennum hennar að einhverju marki. Penguin Dictionary of Philosophy skilgreinir heimspeki sem rannsókn á „almennustu og mestu grundvallarhugtökum og -lögmálum sem eru fólgin í hugsun, athöfnum og raunveruleikanum“.

Flestir heimspekingar eru sammála um að aðferð heimspekinnar felst í rökrænni orðræðu, enda þótt sumir heimspekingar hafi dregið í efa að maðurinn sé fær um rökhugsun, eins og henni er venjulega lýst.

The Penguin Encyclopedia segir að heimspeki sé frábrugðin vísindunum að því leyti að spurningum heimspekinnar sé ekki hægt að svara með tilraunum og athugunum og frábrugðin trúarbrögðum að því leyti að heimspekin leyfi ekki blinda trú eða opinberun. Um þetta má þó deila. Til dæmis segir í Oxford Dictionary of Philosophy: „Andi greinarinnar á síðari hluta 20. aldar ... kýs fremur að sjá heimspekilegar vangaveltur sem framhald af bestu venjum allra sviða vitsmunalegrar athugunar.“

Markmið heimspekinnar, samkvæmt Penguin Dictionary of Philosophy, er „hlutlaus öflun þekkingar hennar sjálfrar vegna“.

Upphaflega náði hugtakið heimspeki yfir mun víðara svið viðfangsefna en það gerir í dag. Til dæmis veltu forverar Sókratesar fyrir sér spurningum um uppruna og myndun alheimsins, eðli raunveruleikans og uppruna tegundanna. Þessar vangaveltur urðu að endingu að grunni náttúruvísindanna, sem nefndust áður „náttúruheimspeki“ eða „náttúruspeki“.

Með tilkomu háskólanna tók heimspekin á sig mynd fræðigreinar en frá og með 20. öld hefur hún einkum þrifist innan veggja háskólanna.