Eðli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eðli er í heimspeki safn nauðsynlegra eiginleika sem eru saman nægjanlegt skilyrði til þess að eitthvað sé það sem það er. Til dæmis er eðli þríhyrninga það að hafa þrjú horn þannig að ef flötur hefur þrjú horn er hann þríhyrningur; með öðrum orðum er það nægjanlegt skilyrði þess að flötur sé þríhyringur að hann hafi þrjú horn. Ef flötur hefur hins vegar ekki þrjú horn getur hann ekki verið þríhyrningur; með öðrum orðum er það að hafa þrjú horn nauðsynlegt skilyrði þess að flötur sé þríhyrningur.

Í örlítið víðari merkingu er stundum talað um þá eiginleika sem flestir hlutir af ákveðnu tagi hafa eða hafa alla jafnan frá náttúrunnar hendi sem eðli þeirra. Til dæmis mætti segja að það sé eðli hunda að hafa fjóra fætur. Samt sem áður er það að hafa fjóra fætur ekki nauðsynlegt skilyrði þess að vera hundur enda geta hundar misst fót án þess að hætta að vera hundar.

Eðlishugtakið er mikilvægt í heimspeki Aristótelesar og í skólaspeki miðalda. Á 20. öld sætti eðlishugtakið mikilli gagnrýni úr ýmsum áttum í heimspeki, m.a. frá jafn ólíkum heimspekingum og Jean-Paul Sartre og Bertrand Russell.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?“. Vísindavefurinn.