Skotfélag Hafnarfjarðar
Skotfélag Hafnarfjarðar var í hópi elstu íþróttafélaga landsins, stofnað árið 1871 eða þar um bil. Félagið starfaði um nokkurra ára skeið. Ekki má rugla því saman við Skotíþróttafélag Hafnarfjarðar frá árinu 1965.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu skipulögðu íþróttafélögin á Íslandi voru stofnuð um æfingar í skotfimi, fyrst og fremst af dönskum kaupmönnum og íslenskum embættismönnum. Skotfélag Reykjavíkur frá árinu 1867 var stærst og öflugast, en einnig er vitað um sambærilegt félag í Keflavík frá 1869.
Gísli Sigurðsson, íþróttaforkólfur í Hafnarfirði, tók saman heimildir um upphaf íþróttastarfs í bænum. Taldi hann sig hafa vitneskju um að stofnað hefði verið skotfélag í Hafnarfirði um árið 1871. Forgöngumaður þess var verslunarmaðurinn Edvard Biering, sem þá var búsettur í Hafnarfirði.
Æfingar fóru fram að Hörðuvöllum, einkum á sumrin. Notast var við gríðarmikinn og ævagamlan framhlaðning, sem sagður var uppruninn úr þrjátíu ára stíðinu. Hlaðið var undir byssuna á Völlunum og skotið á mark við klettinn Einbúa. Þá er vitað um skotkeppni sem fram fór í svokölluðu Knudtzons-pakkhúsi í tengslum við dansleik í bænum, þar sem Biering sjálfur fór með sigur af hólmi.
Botninn mun hafa dottið úr starfsemi félagsins þegar Biering flutti til Borgarness fáeinum árum síðar.[1]
Í grein sinni um sögu Skotfélags Reykjavíkur árið 1951 segir Árni Óla frá skotkeppni Reykvíkinga og Keflvíkinga í byrjun árs 1871. Lætur hann þess getið að hópi manna úr Hafnarfirði hafi verið boðið til leiks, þrátt fyrir að ekkert skotfélag væri þar starfandi. Tíu Hafnfirðingar hafi skráð sig til þátttöku, þar á meðal C. Zimsen (faðir Knud Zimsen sem síðar varð borgarstjóri), H. Linnet og Þorfinnur Jónatansson. Hafa ber í huga að skráning sem þessi jafngilti því ekki að viðkomandi mættu til keppni, þar sem alsiða var að betri borgarar greiddu þátttökugjald en félu öðrum skotmönnum að keppa fyrir sína hönd.[2] Hugsanlegt er þetta framtak Skotfélags Reykjavíkur hafi orðið kveikjan að stofnun félagsins í Hafnarfirði.
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Gísli Sigurðsson (1969). Þættir úr sögu íþrótta í Hafnarfirði, Fjarðarfréttir, 1. des. 1969.
- Árni Óla (1951). Fyrsta íþróttafélag Reykjavíkur, Lesbók Morgunblaðsins, 18. nóv. 1951.