Fara í innihald

Skotfélag Keflavíkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skotfélag Keflavíkur (Riffel-Skytte-Forening for Kjeblevig og Omegn) var eitt elsta íþróttafélag landsins, stofnað 21. nóvember árið 1869. Félagið starfaði um nokkurra ára skeið.

Fimmtán menn stóðu að stofnun skotfélagsins, allt kunnir kaupmenn og borgarar í Keflavík. Í fyrstu stjórninni sátu H.P. Duus kaupmaður og faktorarnir P.I. Levinsen og Ólafur Norðfjörð. Fyrirmynd félagsins var að öllum líkindum Skotfélag Reykjavíkur sem tekið hafði til starfa tveimur árum fyrr. Vitað er um a.m.k. eina skotkeppni milli Reykvíkinga og Keflvíkinga.

Árið 1872 tókst félaginu að koma sér upp sérstöku húsi til fundahalda og nefndist það Skothúsið. Mun það vera fyrsta húsið í Keflavík sem sérstaklega var byggt til samkomuhalds og voru dansleikir haldnir í húsinu auk funda félagsins. Í lögum Skotfélagsins var áskilið að halda skyldi ekki færri en þrjú kappmót í skotfimi á ári hverju.

Fundargerðarbók félagsins sem varðveitt er bendir til starfsemi fram til ársins 1873 en óljóst er hvenær það lognaðist endanlega út af.[1]

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Eðvarð T. Jónsson (2009): 164-165.
  • Eðvarð T. Jónsson. (2009). Keflavík íþrótta- og ungmennafélag. 80 ára saga í máli og myndum. Keflavík íþrótta- og ungmennafélag.