Fara í innihald

Skúfey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Skúfey
Skúvoy

Skúfey (færeyska: Skúvoy) er eyja í Færeyjum sunnan og vestan við Sandey. Eyjan er 10 km² að stærð og þar er aðeins eitt þorp, samnefnt eynni. Þann 1. janúar 2011 voru íbúar þar 37 og hefur fækkað jafnt og þétt frá aldamótum en árið 2000 voru íbúar eyarinnar 78.

Skúfeyjarþorp er austan til á eynni og þar er ferjubryggja og smábátahöfn en bátarnir eru dregnir á land að vetrarlagi. Brimasamt er við eyna og þar var áður erfið lending. Í eynni er kirkja og lítill skóli en hann er ekki starfræktur eins og er því engin börn á skólaaldri búa í eynni að staðaldri. Sagt er að á 14. öld hafi Svarti dauði drepið alla íbúa eyjarinnar nema eina konu að nafni Rannvá. Húsið sem hún á að hafa búið í stendur enn. Á 17. öld er sagt að allir Skúfeyingar hafi dáið í farsótt og enginn lifað eftir.

Vestast á eynni er 392 m lóðrétt standberg sem heitir Knúkur. Þar suður af er annað fjall, aðeins einum metra lægra, sem heitir Heyggjurinn mikli. Á þessum fjöllum eru þó engir tindar, heldur er Skúfey hæst vestast og hallar jafnt niður til austurs.

Mikil langvíubyggð var á eynni vestanverðri og árið 1954 var talið að þar verptu um 2 milljónir para en nú eru aðeins nokkur þúsund fuglar eftir og á ofveiði stóran þátt í því. Austan og suðaustan á eynni er mikið um lunda og inni á eynni er mikið kríuvarp. Á eynni er líka mikið um skúm og af honum tekur hún nafn.

Þótt Skúfey sé lítil og fámenn er hennar oft getið í heimildum og ekki síst í Færeyinga sögu því þar bjuggu bræðurnir Beinir og Brestir og síðan Sigmundur Brestisson, sem sagt er að hafi kristnað Færeyjar og látið reisa fyrstu kirkjuna í eynni. Þegar óvinir Sigmundar réðust að honum á Skúfey og reyndu að brenna hann inni steypti hann sér í sjóinn ásamt tveimur öðrum og freistaði þess að synda til Sandeyjar. Sigmundur einn komst aðra leið en var drepinn í fjörunni á Sandey af svikulum bónda. Minnisvarði um Sigmund er í Skúfey.