Fara í innihald

Sköpunarvísindi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sköpun Adams

Sköpunarvísindi kallast hjáfræði (angi sköpunarhyggju), sem hefur það markmið að sýna með vísindalegum hætti að sköpunarsaga Biblíunnar sé sönn. Þetta er gert með því að reyna að hrekja fullyrðingar jarðfræðinnar um jarðsögu, heimsfræðinnar um tilurð heimsins og líffræðinnar um þróun tegunda. Sköpunarvísindi komu fyrst fram á 7. áratug 20. aldarinnar af kristnum bókstafstrúarmönnum í Bandaríkjunum, sem töldu Biblíuna vera óbrigðula og reyndu að grafa undan vísindunum, sem þróunarkenningin byggist á. Vísindasamfélagið hafnar gervivísindum (hjáfræði) og hafnar því aðferðum og niðurstöðum sköpunarvísinda.[1][2][3]

Söguleg þróun[breyta | breyta frumkóða]

Eftir árið 1900 varð sífellt algengara að þróun tegunda væri kennt í framhaldsskólum Bandaríkjanna[4]. Á árunum eftir fyrri heimsstyrjöld fjölgaði hins vegar kristnum bókstafstrúarmönnum sem aðhylltust sköpunarhyggju og lögðust gegn því að þróunarkenningin væri kennt í skólum. Á nokkrum svæðum í Bandaríkjunum gekk það í gegn að banna þróunarkenninguna með lagasetningu, þekktasta dæmið var í Tennesse árið 1925[5]. Áhyggjuraddir um ábótavana vísindakennslu í skólum Bandaríkjanna náðu hámæli árið 1957 eftir að geimáætlun Sovétríkjanna gekk upp og Spútnik varð fyrsta geimfarið sem var sett á sporbaug um jörðu. Þetta varð til þess að vísindakennsla var endurskoðuð í Bandaríkjunum og varð til þess að árið 1963 kenndu um helmingur framhaldsskóla þróunarkenninguna[6].

Sköpunarvísindi (kölluð Sköpunarhyggja á þeim tíma) komu fram sem skipulögð samtök á 7. áratugnum. Samtökin voru undir sterkum áhrifum frá fyrri verkum Kanada mannsins George McCready Price sem hafði gagnrýnt jarðfræðikenningar sem vísindamenn stóðu fyrir. Hugmynd Price leiddu til dæmis til útgáfu bókarinnar Genesis flóðið, eftir Henry M. Morris og John C. Whitcomb. Sú bók varð fljótt vinsæl meðal Kristinna bókstafstrúarmanna og nú reyndu þeir ekki aðeins að hrekja þróunarkenningu Darwins heldur einnig fullyrðingar jarðfræðinnar um jarðsögu, heimsfræðinnar um tilurð heimsins.Auk þess sem sköpunarvísindasinnar vildu láta kenna kenningar sköpunarvísindanna til jafns við þróunarkenninguna, því var hafnað árið 1982 þar sem að sköpunarvísindi fengust ekki viðurkennd sem vísindargrein.[7]

Trúarlegar undirstöður[breyta | breyta frumkóða]

Sköpunarvísindi styðjast að miklu leyti á fyrstu 11 köflum köflum Sköpunarsögunnar, sem lýsir því hvernig Guð skapaði heiminn á sex dögum, fyrsta karlinn og konuna öll dýr og plöntur. Syndaflóðið eyddi síðan öllu lífi ef frá eru talinn Nói og fjölskylda hans auk fulltrúa úr öllum tegundum dýraríkisins. Eftir þessar hamfarir var aðeins talað eitt tungumál í heiminum þar til Guð tvístraði fólkinu við Babelsturn og gaf þeim mismunandi tungumál. Sköpunarvísindin halda sig oftast innan þessa tímaramma.

Sýn á hefðbundin vísindi[breyta | breyta frumkóða]

Sköpunarvísindi hafna þróunarkenningunni og telja að þær aðferðir sem notaðar séu í þróunarkenningunni séu gervivísindi eða jafnvel trúarbrögð.[8] Sköpunarvísindi telja að þær jarðfræðilegu breytingar sem orðið hafa megi rekja til náttúruhamfara sem skrifað er um í Biblíunni líkt og flóðsins mikla og ísaldar sem fylgdi þar á eftir. Þeir hafna sístöðuhyggju en sú kenning segir að nútíðin sé lykill fortíðarinnar, það er að segja að sömu ferli hafi ætíð verið að verki í náttúrunni, og í þvi ljósi beri að skilja og skýra fornar jarðmyndanir.[9]

Vísindasamfélagið telur í grundvallaratriðum að kenningar sköpunarvísindasinna falli ekki inn í kenniramma lögmætra vísinda. Ástæðan er fyrst og fremst sú að kenningar þeirra byggja allar á fullyrðingum úr Biblíunni, sem ekki er hægt að sannreyna með tilraunum. Auk þess sem árás sköpunarvísinda á þróunarkenninguna þykir ekki vera byggð á vísindalegum rökum. Þessar athugasemdir vísindasamfélagsins voru samþykktar með tveimur dómsniðurstöðum á 9. áratugnum þegar sköpunarvísindi fengust ekki viðurkennd sem vísindagrein.[10]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. National Academy of Science (1999). Science and Creationism: A View from the National Academy of Sciences, 2nd edition. National Academy Press. bls. 48.
  2. „Amicus Curiae Brief Of 72 Nobel Laureates, 17 State Academies Of Science, And 7 Other Scientific Organizations“, Edwards v. Aguillard (Skoðað 5. mars 2013).
  3. Larson, Edward J. (2004). Evolution. Modern Library. bls. 258. ISBN 0-679-64288-9. „Virtually no secular scientists accepted the doctrines of creation\ science; but that did not deter creation scientists from advancing scientific arguments for their position.“
  4. Skoog, Gerald (April 1979). "Topic of evolution in secondary school biology textbooks: 1900–1977". Science Education (1979 Wiley Periodicals) 63 (5): 621–640.
  5. Scott, Eugenie (2004-06-30). Evolution vs Creationism. Greenwood Press. pp. 1590–1628 Kindle ed..
  6. Numbers, Ronald (November 30, 2006). The Creationists: From Scientific Creationism to Intelligent Design (Expanded ed.). Harvard University Press. ISBN 0-674-02339-0. http://books.google.com/books?id=GQ3TI5njXfIC
  7. Larson, Edward J. (2004). Evolution: The Remarkable History of a Scientific Theory. Modern Library.
  8. http://www.talkorigins.org/faqs/wright-v-hisd1.html
  9. Science and Creationism: A View from the National Academy of Sciences, 2. útg., Steering Committee on Science and Creationism, National Academy of Sciences, 1999
  10. http://www.nap.edu/openbook.php?record_id=11876

Heimildir og ítarefni[breyta | breyta frumkóða]