Sigríður Hagalín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sjá einnig Sigríður Hagalín Björnsdóttir fréttakona

Sigríður Hagalín (fædd 7. desember 1926, dáin 26. desember 1992) var íslensk leikkona. Foreldrar Sigríðar voru Guðmundur Gíslason Hagalín rithöfundur og fyrri kona hans Kristín Jónsdóttir. Sigríður eignaðist tvær dætur, Kristínu Ólafsdóttur bókasafnsfræðing með fyrri eiginmanni sínum og Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur leikskáld með seinni eignmanni sínum Guðmundi Pálssyni framkvæmdastjóra Leikfélags Reykjavíkur.

Sigríður fæddist í Voss í Noregi en ólst upp á Ísafirði og þaðan lauk hún gagnfræðaprófi árið 1941. Hún stundaði síðar nám við Samvinnuskólann frá 1941-1942, Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar 1945-1946 og Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1951-1953. Sigríður starfaði sem leikkona hjá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur frá 1953-1963 og síðar sem fastráðin leikkona hjá Leikfélagi Reykjavíkur frá 1964.

Sigríður var um árabil ein þekktasta leikkona landsins og lék mörg eftirminnileg hlutverk, einkum á sviði en einnig lék hún í fjölda útvarps- og sjónvarpsleikrita og í kvikmyndum. Eitt þekktasta hlutverk hennar var annað aðalhlutverkið, hlutverk Stellu í kvikmyndinni Börn náttúrunnar árið 1991 en myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda kvikmyndin árið 1992 auk þess sem Sigríður var tilnefnd til evrópsku Felix kvimyndaverðlaunanna sem besta leikkona í aðalhlutverki árið 1991 fyrir hlutverk sitt í myndinni. Sama ár var Sigríður kosin af Alþingi í heiðurslaunaflokk listamanna.

Árið 1970 hlaut Sigríður íslensku leiklistarverðlaunin, Silfurlampann fyrir leik sinn í hlutverki Nell í leikritinu Hitabylgju og þann 1. janúar 1992 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til leiklistar.[1] [2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Mbl.is, „Sigríður Hagalín leikkona látin“, 29. desember 1992. (skoðað 14. maí 2019)
  2. Mbl.is, „Merkir Íslendingar - Sigríður Hagalín“, 7. desember 2003, (skoðað 14. maí 2019)