Sjintóismi

Sjintóismi (japanska: Shintō (神道)) er trúarbrögð sem eru upprunnin í Japan. Sjintóismi er flokkaður með öðrum austurasískum trúarbrögðum. Hann er oft skilgreindur sem þjóðartrú Japans. Í sjintóisma er engin miðlæg yfirstjórn eða kennivald, svo trúarsetningar og helgisiðir eru mjög fjölbreytt meðal iðkenda.[1][2]
Sjintóismi er fjölgyðistrú og andatrú sem snýst um yfirnáttúrulegar verur kallaðar kami (神), þýtt sem andar, goð eða vættir.[3] Í sjintóisma er talið að kami búi í öllum hlutum, meðal annars í landslagi og náttúruöflum. Kami eru dýrkaðar við helgidóma (kamidana) á heimilum og í opinberum sjintóhofum (jinja).[4][5][6][7] Í hofunum starfa sjintóprestar (kannushi) sem hafa umsjón með fórnargjöfum þar sem kami hofsins er færður matur og drykkur. Tilgangur fórnargjafanna er að styrkja samkomulag kami og manna og óska blessunar goðmagnsins. Aðrar helgiathafnir eru kagura-dansar, vígsluathafnir og matsuri-hátíðir. Hofin selja gjarnan spádóma á blöðum (omikuji) og verndargripi (omamori) til iðkenda. Hreinlæti og hreinsunarathafnir eru mikilvægar í sjintóisma, sérstaklega fyrir helgiathafnir. Lítil áhersla er hins vegar á tiltekinn siðaboðskap eða líf eftir dauðann, þótt talið sé að sumt fólk geti breyst í kami eftir dauða sinn. Sjintóismi hefur enga miðlæga upprunasögn eða kennisetningu og hefur mikinn fjölda staðbundinna afbrigða.
Fræðimenn deila um það hvenær hægt sé að tala um sjintóisma sem trúarbrögð, fremur en þjóðtrú, en dýrkun kami er rakin allt til Yayoi-tímabilsins milli 300 f.o.t. og 300 e.o.t.[8][9] Undir lok Kofun-tímabilsins 300 til 538 e.o.t. barst búddatrú til Japans og rann saman við kami-dýrkunina, þannig að kami urðu hluti af heimsmynd búddismans.[10] Kami urðu í kjölfarið í vaxandi mæli manngervingar.[11][12] Elstu rit sem fjalla um kami eru Kojiki og Nihon Shoki frá 8. öld.[13] Næstu aldir tók keisarafjölskyldan upp þessa samrunatrú.[14] Á Meiji-tímabilinu var hins vegar tekið að líta á sjintóisma sem sérstök þjóðleg trúarbrögð í anda þjóðernishyggju og reynt var að þurrka út búddísk áhrif.[15] Japönskum borgurum var uppálagt að dýrka keisarann sem kami.[16] Sumir fræðimenn telja að í raun hafi sjintóismi sem sérstök trúarbrögð verið búinn til á þessum tíma.[17] Eftir ósigur Japana í síðari heimsstyrjöld var sjintóismi formlega skilinn frá ríkinu.[18][19][20][21]
Sjintóismi finnst aðallega í Japan, þar sem um 100.000 sjintóhof er að finna.[22] Sjintóismi er fjölmennustu trúarbrögð landsins, en búddatrú er í öðru sæti. Flestir landsmenn taka þátt jöfnum höndum í athöfnum sem tengjast báðum trúarbrögðum, sérstaklega hátíðum, sem endurspeglar útbreitt viðhorf í Japan að ein trú útiloki ekki aðra. Japanskar nýtrúarhreyfingar hafa líka tekið upp þætti úr sjintóisma.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Bocking 1997, bls. viii.
- ↑ Rots 2015, bls. 211.
- ↑ Cali & Dougill 2013, bls. 13.
- ↑ Picken 1994, bls. xviii.
- ↑ Bocking 1997, bls. 72.
- ↑ Earhart 2004, bls. 36.
- ↑ Cali & Dougill 2013, bls. 7.
- ↑ Littleton 2002, bls. 14.
- ↑ Hardacre 2017, bls. 18.
- ↑ Hardacre 2017, bls. 24.
- ↑ Bocking 1997, bls. 180.
- ↑ Hardacre 2017, bls. 1.
- ↑ Hardacre 2017, bls. 69.
- ↑ Cali & Dougill 2013, bls. 8.
- ↑ Breen & Teeuwen 2010, bls. 8.
- ↑ Breen & Teeuwen 2010, bls. 10.
- ↑ Breen & Teeuwen 2010, bls. 7.
- ↑ Ueda 1979, bls. 304.
- ↑ Kitagawa 1987, bls. 171.
- ↑ Bocking 1997, bls. 18.
- ↑ Earhart 2004, bls. 207.
- ↑ Breen & Teeuwen 2010, bls. 1.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Bocking, Brian (1997). A Popular Dictionary of Shinto (revised. útgáfa). Richmond: Curzon. ISBN 978-0-7007-1051-5.
- Breen, John; Teeuwen, Mark (2010). A New History of Shinto. Chichester: Wiley-Blackwell. ISBN 978-1-4051-5515-1.
- Cali, Joseph; Dougill, John (2013). Shinto Shrines: A Guide to the Sacred Sites of Japan's Ancient Religion. Honolulu: University of Hawai'i Press. ISBN 978-0-8248-3713-6.
- Earhart, H. Byron (2004). Japanese Religion: Unity and Diversity (fourth. útgáfa). Belmont, CA: Wadsworth. ISBN 978-0-534-17694-5.
- Hardacre, Helen (2017). Shinto: A History. Oxford: Oxford University Press. ISBN 978-0-19-062171-1.
- Kitagawa, Joseph M. (1987). On Understanding Japanese Religion. Princeton, New Jersey: Princeton University Press. ISBN 978-0-691-10229-0.
- Littleton, C. Scott (2002). Shinto: Origins, Rituals, Festivals, Spirits, Sacred Places. Oxford, NY: Oxford University Press. ISBN 978-0-19-521886-2. OCLC 49664424.
- Picken, Stuart D. B. (1994). Essentials of Shinto: An Analytical Guide to Principal Teachings. Westport and London: Greenwood. ISBN 978-0-313-26431-3.
- Rots, Aike P. (2015). „Sacred Forests, Sacred Nation: The Shinto Environmentalist Paradigm and the Rediscovery of Chinju no Mori“. Japanese Journal of Religious Studies. 42 (2): 205–233. doi:10.18874/jjrs.42.2.2015.205-233.
- Ueda, Kenji (1979). „Contemporary Social Change and Shinto Tradition“. Japanese Journal of Religious Studies. 6 (1–2): 303–327. doi:10.18874/jjrs.6.1-2.1979.303-327.