Fara í innihald

Segura

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Segura áin. Nafn árinnar er komið úr arabísku og merkir hvíta áin.

Segura er á í suðausturhluta Spánar. Upptök árinnar eru í Sierra de Segura. Áin rennur um 325 km leið gegnum fjögur héruð Spánar : Jaén , Albacete , Múrsía og Alicante. Segura kemur upp í Santiago Pontones í Jaén héraði, fer gegnum Calasparra, Cieza, , Múrsía, Beniaján, Orihuela, Rojales og rennur til sjávar í Miðjarðarhafið nálægt Guardamar del Segura í Alicantehéraði.

Upptök Segura árinnar.
Kort sem sýnir staðsetningu vatnakerfis Segura á Spáni
Vega Alta del Segura nálægt Calasparra, Múrsía, þekkt fyrir hrísgrjónarækt.
Segura fljótið þar sem það rennur gegnum borgina Múrsía. Í baksýn er elsta brú borgarinnar „Puente de los Peligros“
The Vega Baja del Segura í Orihuela, Alicante.

Vatnasvæði árinnar er kallað Vega del Segura og er mjög frjósamt landbúnaðarsvæði þar sem ýmis konar ávextir, grænmeti og blóm eru ræktuð. Vegas skiptist í þrjú svæði: Alta, Media og Baja (efri, miðju og lægri).

Vatnasvæði Segura er 19,025 km2 og skiptist það í prósentum svona milli fjögurra spænskra sjálfsstjórnarsvæða: 59% eru í Múrsía en það hérað er nánast allt innan vatnasvæðisins,25% í Castilla-La Mancha, 9% í Andalúsíu og 7% í Valenciahéraði. Á vatnasvæði Segura voru íbúar um 2 milljónir árið 2012.[1]

Um 1990 var Segura orðin ein af menguðust ám í Evrópu. Var það vegna niðursuðuiðnaðar og annars iðnaðar og landbúnaðar sem var á vatnasvæði árinnar. Mjög lítið rennsli var sums staðar í ánni, bæði vegna áveitu sem tók vatn úr ánni og sumarþurrka. Almenningur mótmælti ástandi árinnar og árið 2001 mættu 40 þúsund í mótmæli. Það var ráðist í aðgerðir á vegum héraðsstjórnar Múrsía og bæjaryfirvalda á svæðinu. Á árunum 2001 og 2010 voru byggðar 100 vatnshreinsistöðvar og 350 km af skolpleiðslum. Einnig var ráðist í átak þar sem kostnaði af hreinsun árinnar var velt á þá aðila sem menguðu.

Upp úr 2003 urðu vatnsgæði Segura betri. Frá árinu 2010 hefur mengun verið hverfandi og dýra- og jurtalíf aukist. Otrar og álar hafa komið aftur í ánna en áður höfðu þessar tegundir ekki sést þar í marga áratugi. Griðland fugla er nú á tveimur votlendissvæðum þar sem fuglar staldra við á leið sinni milli Evrópu og Afríku. Auk þess er núna 110 milljón rúmmetrar af hreinsuðu vatni endurnotað árlega í landbúnaði á svæðinu.

Otrar og álar hafa komið aftur í ána en áður höfðu þessar tegundir ekki sést þar í marga áratugi.

Segura áin er alla jafna vatnslítil því vatni er veitt úr ánni til áveitu. Það hefur hins vegar orðið meiri hætta á flóðum vegna þess að skógi verið eytt á því svæði sem áin fellur um og verða flóð næstum á hverjum áratug eftir miklar haust- og vetrarrigningar. Seinustu flóð voru haustið 2019. Uppistöðulón hafa ekki komið í veg fyrir flóð. Neðsti hluti árinnar rennur eftir stokki til þess að lámarka það tjón sem verður af völdum flóða.


Fyrirmynd greinarinnar var „Segura“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. september 2019.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Aldaya, Maite M.; Custodio, Emilio; Llamas, Ramón; Fernández, María Feliciana; García, Jesús; Ródenas, Miguel Ángel (20. apríl 2019). „An academic analysis with recommendations for water management and planning at the basin scale: A review of water planning in the Segura River Basin“. Science of The Total Environment. 662: 755–768. doi:10.1016/j.scitotenv.2019.01.266. ISSN 0048-9697.