Fara í innihald

Sandey (Færeyjum)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Staðsetning í Færeyjum.
Kort af Sandoy
Sandur.
Skarvanes á Sandoy.

Sandey (færeyska: Sandoy) er eyja í Færeyjum, sunnan við Straumey. Eyjan er 125 km² að stærð. Hún er flatlendust stærri eyjanna í Færeyjum og þar hefur hvergi þurft að gera jarðgöng milli byggða. Hún hefur nafn sitt af sandströndum sem þar eru sumstaðar.

Íbúar Sandeyjar voru 1303 þann 1. janúar 2011, litlu færri en um aldamót, en 1985 voru þar tæplega 1700 íbúar. Stærsta þorpið á eynni er Sandur og þar eru tæplega 660 íbúar en aðrar byggðir eru Dalur, Húsavík, Skarvanes, Skálavík og Skopun.

Fiskveiðar eru aðalatvinnuvegur eyjarskeggja en þar er einnig stunduð töluverð sauðfjárrækt. Frystihús í eigu Sandoy Seafood eru bæði á Sandi og í Skopun.

Ferja gengur á milli Sandeyar og Straumeyjar og styttist siglingin verulega þegar ferjuhöfnin Gamlarætt syðst á Straumey var tekin í notkun 1992 en áður sigldi ferjan til Þórshafnar. Einnig gengur ferja frá Sandi til Skúfeyjar. Framkvæmdir hófust við gerð neðansjávargangna milli Sandeyjar og Straumeyjar 21 febrúar 2017 sem gert er ráð fyrir að teknar verði í almenna notkun 2021. Verða göng þessi, Sandeyjargöngin, þau lengstu og stærstu í Færeyjum, alls um 12 kílómetra löng.