Sagnfræðingafélag Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Merki Sagnfræðingafélags Íslands

Sagnfræðingafélag Íslands er fagfélag sagnfræðinga á Íslandi. Það var stofnað árið 1971 til að efla íslenskar sagnfræðirannsóknir, sögukennslu og miðlun sögu til almennings sem og samstarf sagnfræðinga innanlands og utan[1]. Félagsmenn geta þau orðið sem hafa lokið B.A.-prófi eða sambærilegu prófi með sagnfræði sem aðalgrein frá viðurkenndum háskóla og þau sem uppfylla þær fræðilegu kröfur sem gera verður til háskólamenntaðra sagnfræðinga.[2]

Þetta er annað félagið með þessu nafni. Sagnfræðingafélag Íslands hið eldra starfaði frá 1953 til 1956.

Saga Sagnfræðingafélags Íslands[breyta | breyta frumkóða]

Stofnun félagsins[breyta | breyta frumkóða]

Björn Þorsteinsson, Bergsteinn Jónsson og Loftur Guttormsson boðuðu til undirbúningsfundar að stofnun félags sagnfræðinga 1. september árið 1970 og nefndist félagið þá Félag íslenskra sagnfræðinga. Félagið var þó ekki formlega stofnað fyrr en 30. september 1971. Fyrstu stjórn skipuðu þeir Björn Þorsteinsson formaður, Jón Guðnason varaformaður, Ólafur R. Einarsson ritari, Guðlaugur R. Guðmundsson gjaldkeri og Helgi Þorláksson meðstjórnandi. Nafnið breyttist í Sagnfræðingafélag Íslands.[3]

Guðrún Ása Grímsdóttir varð fyrsta konan til að taka sæti í stjórn Sagnfræðingafélags Íslands árið 1978, sjö árum eftir stofnun félagsins.

Félagið starfaði með margvíslegum hætti strax frá upphafi, bæði að málum sem féllu beint undir sagnfræði eins og með fundi um sögukennslu á hinum ýmsu námstigum og fyrirlestraröð um félagssögu.[4] Félagið kom einnig að deilumálum samtímans og stóð með fjölda annarra félaga að mótmælafundi gegn byggingu húss fyrir Seðlabankann á Arnarhóli og síðar fyrir tveggja daga ráðstefnu um húsafriðun ásamt umhverfisráði Reykjavíkur, Arkitektafélagi Íslands, Torfusamtökunum og Sögufélagi[5].

Meðal þess sem félagið hefur gert er að setja siðareglur Sagnfræðingafélags Íslands. Þar er lögð áhersla á heiðarleika, fagleg vinnubrögð og varðveislu og aðgang heimilda auk þess sem fjallað er um trúnaðarmál og hagsmunaárekstra.[6]

Þættir úr starfseminni[breyta | breyta frumkóða]

Hádegisfyrirlestrar[breyta | breyta frumkóða]

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélags Íslands hafa verið fastur punktur í starfi félagsins frá árinu 1998. Þar hafa sagnfræðingar og aðrir fræðimenn og fyrirlesarar rætt hin ýmsu mál. Á hádegisfyrirlestrum hefur augum verið beint að ákveðnum greinum sagnfræðinnar eða atburðum deilumál samtímans hafa verið rædd í ljósi sögunnar og kynntar nýjar rannsóknir.[7] Oft hafa verið ákveðin þemu í fyrirlestrahaldi. Þau hafa meðal annars verið: Hvað er dómur sögunnar? Saga réttarfars og refsinga, Hörmungar og Hvað er útrás? svo örfá dæmi séu nefnd.

Söguþing[breyta | breyta frumkóða]

Sagnfræðingafélag Íslands er meðal þeirra sem staðið hafa að Söguþingi þar sem sagnfræðingum og öðru áhugafólki um sögu er stefnt saman. Fyrsta söguþingið var haldið árið 1997 og síðan hafa þau verið haldin á nokkurra ára fresti. Fimmta söguþingið verður í maí 2022.

Bókakvöld[breyta | breyta frumkóða]

Í gegnum tíðina hafa bókakvöld verið vinsæll viðburður í starfsemi Sagnfræðingafélags Íslands, oft í samvinnu við önnur félög. Hin seinni ár hafa þau einkum falist í því að nokkrar bækur eru teknar fyrir, fyrst segir framsögumaður kost og löst á bókinni og síðan bregst höfundur við.

Umsagnir og ályktanir[breyta | breyta frumkóða]

Félagið hefur sent frá sér ályktanir um hin ýmsu mál sem tengjast sagnfræði. Þar á meðal má nefna gagnrýni félagsins á skýrslu nefndar á vegum forsætisráðherra um ímynd Íslands sem gefin var út vorið 2008. Sagnfræðingafélagið benti þar á hvernig söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar sem mótuð hefði verið í pólitískum tilgangi endurspeglaðist í skýrslunni, söguskoðun sem sagnfræðingar hefðu varið áratugum í að hrekja.[8] Nýlegt dæmi er ákall um að efla sögukennslu í skólum til að sporna við ranghugmyndum og áróðri eins og birtist í sögufölsun rits um helförina sem kom út árið 2020. Jafnframt hefur félagið sent umsagnir til þingnefnda Alþingis vegna ýmissa mála sem hafa verið í meðförum þingsins.

Útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Sagnfræðingafélag Íslands gaf út fréttabréf fyrir félagsmenn frá 1983 til 2012.[9] Félagið stóð fyrir útgáfu ritsins Íslenskir sagnfræðingar sem kom út í tveimur bindum árin 2002 og 2006. Uppistaðan í efni bókanna var sagnfræðingatal og saga Sagnfræðingafélags Íslands auk fjölda greina um sagnfræði. Bókin Borgarbrot kom út árið 2003 með fyrirlestrum úr hádegisfyrirlestraröðinni Hvað er borg? og ráðstefnunni Framtíð borga sem Sagnfræðingafélagið hélt ásamt Borgarfræðasetri. Árið 2007 kom út bókin Hvað er sagnfræði? Rannsóknir og miðlun. Í henni var að finna átján fyrirlestra af hádegisfundum Sagnfræðingafélags Íslands 2006-2007 þar sem sjónum var beint að sagnfræði sem fræðafagi.

Heiðursfélagar[breyta | breyta frumkóða]

Lúðvík Kristjánsson sagnfræðingur (1911-2000) – kjörinn heiðursfélagi árið 1987.

Anna Sigurðardóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands (1908-1996) – kjörin heiðursfélagi árið 1991.

Jakob Benediktsson, forstöðumaður Orðabókar Háskóla Íslands (1907-1999) – kjörinn heiðursfélagi árið 1994.

Haraldur Sigurðsson, bókavörður við Landsbókasafn (1908-1995) – kjörinn heiðursfélagi árið 1995.

Bergsteinn Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands (1926-2006) – kjörinn heiðursfélagi árið 2001.

Jón Guðnason, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands (1927-2002) – kjörinn heiðursfélagi árið 2001.

Ólafía Einarsdóttir, lektor við Kaupmannahafnarháskóla (1924-2017) – kjörin heiðursfélagi árið 2001.

Björk Ingimundardóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands (1943- ) – kjörin heiðursfélagi árið 2011.

Einar Laxness, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands (1931-2016) – kjörinn heiðursfélagi árið 2011.

  1. „Morgunblaðið - Sunnudagsblað Morgunblaðsins (07.11.1971) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 17. júní 2021.
  2. „Sagnfræðingafélag Íslands » Lög“ (enska). Sótt 17. júní 2021.
  3. Íslenskir sagnfræðingar. 2002–2006.
  4. „Tíminn - 245. Tölublað (28.10.1971) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 17. júní 2021.
  5. „Sveitarstjórnarmál - 4. hefti (01.08.1976) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 17. júní 2021.
  6. „Sagnfræðingafélag Íslands » Siðareglur“ (enska). Sótt 17. júní 2021.
  7. „Morgunblaðið - 261. tölublað (16.11.1999) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 17. júní 2021.
  8. „Vond sagnfræði ímyndarskýrslu“. www.mbl.is . Sótt 17. júní 2021.
  9. „Sagnfræðingafélag Íslands » Fréttabréf“ (enska). Sótt 17. júní 2021.