Solveig Rafnsdóttir
Solveig Rafnsdóttir (um 1470 – um 1562) var síðasta abbadís í nunnuklaustrinu á Reynistað. Hún gerðist nunna þar árið 1493, var vígð abbadís á áttunda degi jóla 1508 og var það þar til klausturlifnaður lagðist af 1551.
Solveig var af miklum höfðingjaættum. Faðir hennar var Rafn „eldri“ Brandsson lögmaður (um 1420-1483) og móðir hennar var Margrét Eyjólfsdóttir, dóttir Eyjólfs Arnfinnssonar riddara á Urðum. Bróðir Solveigar var Brandur prestur á Hofi í Vopnafirði og síðast príor á Skriðuklaustri. Hrafn faðir Solveigar deildi við Ólaf biskup Rögnvaldsson og var í banni þegar hann lést. Kann að vera að það hafi átt þátt í að Solveig gekk í klaustur.
Hún tók við stjórn klaustursins eftir að Agnes Jónsdóttir abbadís dó 1507 og stýrði því af röggsemi, áttí í ýmsum málaferlum og hélt vel á rétti sínum og klaustursins. Í skrá um eignir klaustursins frá 1525 kemur fram að það átti þá 42 jarðir í byggð og sjö eyðijarðir, 114 nautgripi, 520 kindur og 33 hross.
Þegar klausturlifnaður var lagður af við siðaskiptin voru nunnurnar ekki hraktar á brott, heldur fengu þær að vera áfram á Reynistað meðan þeim entist aldur og haga lífi sínu eins og þær voru vanar. Var þeim sem höfðu umboð klaustursins gert að skyldu að sjá nunnunum fyrir framfærslueyri. Solveig stýrði klaustrinu áfram en hafði þó engin ráð yfir eignum þess. Þessari stöðu hélt hún áfram til dauðadags, sem heimildir greinir á um hvort var 1561, 1562 eða 1563.
Á Þjóðminjasafninu er fágætt altarisklæði frá Skarði á Skarðsströnd. Það er nú mjög slitið og í raun og veru ekki nema svipur hjá sjón móti því, sem hefur verið. Allt er það útsaumað með dýrlingamyndum, og eru á þvi: Þorlákur biskup helgi, St. Benedikt ábóti, St. Egidíus, Olafur helgi, Magnús Eyajarl og St. Hallvarður. Áletrun með nafni er saumuð undir hverja mynd, og efst á klæðinu er leturlína, þar sem stendur:
- „abbadis Solve[ig: rafns]dotter i reynenese“.
Er talið fullvíst að það sé Solveig Rafnsdóttir.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „„Reynistaðarklaustur". Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 8. árg. 1887“.
- „„Reynistaðarklaustur". Sunnudagsblað Tímans, 6. ágúst 1967“.
- Sigríður Gunnarsdóttir: Nunnuklaustrið að Reynistað. Smárit Byggðasafns Skagfirðinga.