Fara í innihald

Brandur Hrafnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Brandur Hrafnsson (um 1470 – um 1557) eða Brandur Rafnsson var íslenskur prestur sem var á Hofi í Vopnafirði frá því um 1494 til 1534 en varð þá síðasti príor á Skriðuklaustri eftir lát Jóns Markússonar og gegndi því starfi þar til klaustrið var lagt niður við siðaskipti. Hann virðist enn hafa verið á lífi í febrúar 1557 en hefur líklega dáið skömmu síðar, enda kominn á níræðisaldur.

Brandur var af miklum höfðingjaættum, sonur Hrafns Brandssonar eldri, lögmanns í Rauðuskriðu og konu hans Margrétar, dóttur Eyjólfs Arnfinnssonar riddara á Urðum. Systir Brands var Solveig, síðasta abbadísin í Reynistaðarklaustri. Hann var prestur á Hofi í Vopnafirði um fjörutíu ára skeið og hefur verið kominn yfir sextugt þegar hann var kjörinn príor.

Ekki er ljóst hvort klausturlifnaður var með reglulegum hætti á Skriðuklaustri eftir að kirkjuskipan Kristjáns 3. var samþykkt í Skálholtsbiskupsdæmi árið 1542 en líklega hafa munkarnir þó verið þar áfram, að minnsta kosti fram yfir 1550. Þá átti klaustrið 25 jarðir, sem má telja mikinn auð miðað við að það hafði aðeins starfað í rúm 50 ár.

Ekki er vitað hver fylgikona Brands var en hann átti þrjá syni, Hrafn yngri Brandsson lögmann, Árna bónda á Burstafelli og ættföður Burstafellsættar og Snjólf.

  • „„Skriðuklaustur". Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „„Skriðuklaustur". Sunnudagsblað Tímans, 20. ágúst 1967“.