Sérherbergi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sérherbergi er femínisk ritgerð eftir bresku skáldkonuna Virginiu Woolf. Verkið sem á ensku nefnist A Room of One's Own, kom fyrst út árið 1929 og byggir á tveimur fyrirlestrum Woolf sem hún hélt við kvennaháskólana Girton og Newnham í Cambridge í október árið 1928.

Verkið kom út í íslenskri þýðingu Helgu Kress árið 1983.

Titill verksins byggir á þeirri hugmynd Woolf að konur verði að hafa bæði fjárhagslegt sjálfstæði og sérherbergi út af fyrir sig svo þær hafi möguleika á því að loka sig af og öðlast nægilegt næði til að skapa skáldverk. Woolf nefnir að í gegnum aldirnar hafi konum verið haldið frá skrifum bæði af félagslegum og fjárhagslegum ástæðum því samfélagið hafi krafist annars af þeim en að iðka skáldskap. Woolf veltir því upp hvort konur hefðu verið færar um að skapa skáldverk í sama gæðaflokki og verk William Shakespeare og ímyndar sér jafnframt að Shakespere hafi átt systur búna jafnmiklum hæfileikum og hann og veltir því fyrir sér hvað hefði orðið um hana. Woolf fer fram á endurmat á bókmenntum kvenna sem hún segir að hafi alltaf verið metnar út frá forsendum karla og út frá ríkjandi gildismati sem væri byggt á gildum og reynsluheimi karla.[1][2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Arndís Hrönn Egilsdóttir, „Sundrað sjálf Virginu Woolf“, Ruv.is, (skoðað 8. ágúst 2019)
  2. Magdalena Schram, „Sérherbergi“, 19. júní, 1. tbl. 1984.