Repja
Repja | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Repja (Brassica napus)
| ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Brassica napus L. |
Repja (fræðiheiti: Brassica napus L. var. oleifera) er einær eða vetrareinær planta, notuð til fóðurs og olíuframleiðslu.
Líffræði
[breyta | breyta frumkóða]Repjan hefur litla stólparót og myndar öflugan stöngul. Laufblöðin eru stór, fjaðurstrengjótt og sitja stakstæð á stönglinum. Blómin eru skærgul og mynda klasa. Eftir blómgun breytast þau í skálpa sem geyma og þroska fræin.
Notkun
[breyta | breyta frumkóða]Repja er notuð til að framleiða lífdísil í löndum á borð við Bandaríkin, Indland, Kína, Kanada og í löndum Evrópusambandsins. Jafnframt er hún notuð til gerðar matarolíu, en einnig sem skepnufóður. Hérlendis er hún nánast eingöngu notuð sem fóður fyrir mjólkurkýr og lömb. Er plantan þá beitt í heilu lagi. Einnig hafa verið gerðar tilraunir með framleiðslu lífdísils úr repjuolíu á Íslandi og verið er að gera tilraun með repjuolíu til manneldis í Nesjum í Hornafirði.
Afbrigði
[breyta | breyta frumkóða]Mörg afbrigði repju eru ræktuð í heiminum en á Íslandi eru notuð tvö; sumar- og vetrarrepja. Sumarrepjan sprettur hratt, nær allt að 1,5 m hæð, og fer að blómstra eftir 60 til 70 vaxtardaga. Mikilvægt er að beita hana fyrir þann tíma, því fóðurgildi blómstrandi plantna fellur hratt.
Vetrarrepjan, sem einnig er kölluð fóðurkál, fer ekki í kynvöxt á fyrsta sumri eftir sáningu. Hún sprettur mun hægar og þarf u.þ.b. 120 vaxtardaga til að ná þokkalegri stærð. Þetta afbrigði er einstaklega heppilegt til beitar, vegna þess að það sprettur ekki úr sér. Plantan heldur sér vel fram á haust og því mikið notuð til að bata lömb á haustin eftir að þau hafa komið af fjalli. Að sama skapi er hún vinsæl sem fóður fyrir mjólkurkýr í hárri nyt.