Fara í innihald

Rauðúlfs þáttur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rauðúlfs þáttur er stutt táknsaga varðveitt í nokkrum íslenskum miðaldahandritum. Höfundur er óþekktur en virðist hafa verið kirkjunnar maður, uppi á 12. eða 13. öld. Sagan segir frá heimsókn Ólafs helga til Rauðúlfs (einnig nefndur Rauður og Úlfur) bónda í Eystridölum í Noregi, skemmtun þeirra um kvöldið og næturdvöl Ólafs í kringlóttri svefnskemmu sem var fagurlega skreytt og snerist að auki. Einnig segir þátturinn frá sérkennilegum draumi konungs og ráðningu Rauðúlfs á honum. Í sumum handritum er þátturinn felldur inn í Ólafs sögu helga hina meiri [1].

Heimsóknin

[breyta | breyta frumkóða]

Þátturinn segir frá ferð Ólafs helga ásamt fylgdarliði, þ.á m. drottningu og biskupi í Eystridali (nú Österdalen) sem um þær mundir var frekar afskekktur staður í Noregi, nærri landamærum Svíþjóðar. Hann kemur til Rauðúlfs og fjölskyldu hans sem höfðu verið sökuð um nautgripaþjófnað. Rauðúlfur og synir hans tveir, Dagur og Sigurður, reynast spakir að viti og vel að sér í stjörnufræði, tímatali, fýsíógnómíu og fleiru. Í veislu um kvöldið skemmta menn sér við að lýsa hæfileikum sínum og metast um þá. Að því loknu er konungi og fylgdarliði hans vísað til nýbyggðrar svefnskemmu þar sem þeim er ætlað að sofa um nóttina.

Svefnskemman

[breyta | breyta frumkóða]
Grunnmynd svefnskemmunnar.
Hornstafur rekkjunnar og þrískipt kerti.
Samhengi hússins við draumsýn Ólafs.

Rými og skreytingum svefnskemmunnar er lýst ítarlega. Skemman var kringlótt með fjórum útdyrum og var jafnlangt milli þeirra allra. Hvolfþak var á skemmunni og var því haldið uppi af tuttugu stoðum í hring. Húsinu var skipt í fjórðunga (líklega ber að skilja það svo að gangar hafi legið inn að miðju frá útdyrunum fjórum). Húsinu var einnig skipt í þrennt: Í miðjunni var kringlóttur pallur með þrepum, en rýminu umhverfis hann var skipt í tvennt af girðingu sem lá milli stoðanna tuttugu. Á miðpallinum var stór rekkja sem Ólafi var ætlað að sofa í. Rúmstólparnir voru skreyttir gylltum koparkúlum og út úr stólpunum voru járnslár með þrískiptum kertum. Fylgdarliði konungs var skipað niður svo: Drottning og þjónustumeyjar hennar voru í rýminu á vinstri hönd konungi, biskup og klerkar voru konungi á hægri hönd, þrír lendir menn, nafngreindir, voru við höfðalag konungs og aðrir þrír við fótagafl hans. Tuttugu menn eru sagðir vera samanlagt í hverju hólfi innri hringsins (80 alls) en fjörtíu í ytri hringnum.

Þar sem Ólafur konungur lá í rekkju sinni sá hann að hvolfþakið var skreytt myndum sem sýndu allt sköpunarverkið, með guð í miðju, í veldishring, en út frá honum englasveitirnar, himintungl, ský og vindar, þvínæst gróður og dýr og yst og neðst sjór og sævarbúar. Ytra þakið (utan við súlurnar) var skreytt myndum af afrekum fornkappa. Einnig virtist konungi húsið snúast.

Draumsýn Ólafs helga

[breyta | breyta frumkóða]

Konungur sofnaði í rekkjunni en í draumi bar fyrir hann sýn sem Rauðúlfur réð fyrir hann morguninn eftir (áður en Ólafur lýsti henni fyrir honum). Konungur hafði séð róðu mikla (kross með mannslíkneski hangandi á). Krossinn var grænn sem gras en mannslíkneskið gert úr ýmsum málmum og fleiri efnum með minnkandi verðgildi eftir því sem neðar dró á líkneskinu. Höfuðið var úr rauðu gulli sem glóði sem lýsigull og bar mikið og gullið hár. Hálsinn var úr kopar og lék skoteldur um hann. Bringa og armar voru úr silfri og skreytt með brautum himintunglanna. Efri hluti kviðarins var úr fægðu járni skreyttu með myndum af dáðum fornmanna á borð við Sigurð Fáfnisbana, Harald hilditönn og Harald hárfagra. Miðhluti kviðarins var gerður úr óhreinu (bleiku) gulli og var skreyttur með trjám, jurtum og dýrum. Neðsti hluti kviðarins var gerður af óskreyttu og óhreinu silfri. Lærin höfðu hörundslit og leggirnir neðan við hnén voru úr tré. Rauðúlfur túlkaði drauminn sem sögu Noregs þar sem hver hluti líkneskisins táknaði tiltekinn konung sem lesandi átti greinilega að geta áttað sig á af lýsingu Rauðúlfs. Ólafur helgi var sjálft gullhöfuðið, en höfuðið táknaði einnig að hyggju Rauðúlfs „himinríkis dýrð“. Röð konunga er rakin af Rauðúlfi til um það bil ársins 1155 þegar ríkinu hafði verið skipt í tvennt (fæturnir tveir). Rauðúlfur tengir Noregskonungana og ríki þeirra við líkneskið með ýmsum snjöllum orðaleikjum og táknmyndum. Hann útskýrir fyrir Ólafi að snúningur hússins fylgi sólargangi. Þættinum lýkur með því að Rauðúlfur er sýknaður af þjófnaðarákærunni og synir hans ganga í lið með Ólafi konungi.

Rannsóknir á Rauðúlfs þætti

[breyta | breyta frumkóða]

Snemma var bent á að Rauðúlfs þáttur byggði að nokkru leyti á draumi Nebúkadnezars í Gamla Testamentinu. Hann dreymdi stórt líkneski gert úr ýmsum efnum svo sem gulli, kopar, járni og svo framvegis. Daníel spámaður túlkaði drauminn sem ris og fall heimsvelda. Ýmislegt er líkt með atburðum í veislu Rauðúlfs og mjög ýkjukenndri veislu Karlamagnúsar í Miklagarði í franska söguljóðinu Jórsalaferð Karlamagnúsar Voyage de Charlemagne à Jérusalem et à Constantinople.[2][3][4] Franska söguljóðið segir einnig frá kringlóttu húsi sem snýst. Það hús hefur aftur á móti verið borið saman við bústað Sólar í grískum miðaldarómönsum.[5][6] Síðari rannsóknir benda til þess að Rauðúlfs þáttur sé allegórískur og saminn til þess að festa heilagleika Ólafs í sessi. Þessi áhrif nást með kosmólógískum táknum sem úir og grúir af í skemmunni, en allegóríur sem byggjast á slíkum táknmyndum þekkjast vel frá miðöldum.[7][8][9] Líta megi á hina hringlaga svefnskemmu sem forboða kirkjunnar [10] og jafnframt sem líkan af alheiminum. Róðan er, samkvæmt þessum rannsóknum, spegilmynd hússins, á sama hátt og á miðöldum var litið á manninn sem örmynd eða spegilmynd alheims (mikrokosmos).[11][12] Miðpallur hússins samsvarar mannshöfði og skreytingar innan á hvolfþakinu samsvara neðri hlutum líkamans. Höfundur þáttarins lætur Ólaf liggja í húsinu miðju, í rekkju sem var umkringd táknum sem tengja hana við hina Nýju Jerúsalem (4x3 kerti), sem var táknrænn staður Krists í Opinberunarbókinni.[13] Áhrif þessara táknmynda á klerklærðan lesanda eru þau að upphefja Ólaf og staðfesta heilagleika hans. Húsið í heild er táknmynd alheimsins (sköpunarverksins) en það er jafnframt táknmynd mannsins, sem hafði jarðneskan og fjórskiptan líkama (gerðan af fjórum höfuðskepnum, vatni, eldi, lofti og jörð) og himneska, miðlæga og óskipta sál (miðpallurinn). Með þetta í huga gætu miðaldaklerkar hafa haft gagn að sögunni til andlegrar iðkunar. Táknmál Rauðúlfs þáttar líkist því sem Hildegard frá Bingen beitti í guðfræðilegum ritum sínum (sem einnig byggðust á kosmólógískum sýnum) og kemur einnig víða fram í Íslensku hómilíubókinni og samsvarandi riti norsku,[14] en þessi verk öll endurspegla táknmál sem útbreitt var innan miðaldakirkjunnar og kemur fram á ýmsum öðrum vettvangi, s.s. byggingarlist [15][16], helli ástarinnar í Tristan og Ísold eftir Gottfried von Strassburg[17], og í Enchiridion, riti eftir Bretann Byrhtferth[18] svo dæmi séu nefnd.

Róðan og Noregskonungar, tafla

[breyta | breyta frumkóða]
Líkamshluti Efni Skreyting Ríki
Höfuð Lýsigull (rautt gull) Regnbogalitur veldishringur. Englar og himinríkis dýrð Ólafur Haraldsson (Ólafur helgi) (1015-1028)
Háls Kopar Skoteldur Sveinn Alfífuson (1030-1035)
Brjóst og armar Skírt silfur (brennt silfur) Brautir himintungla (sól, máni og (reiki)stjörnur) Magnús góði Ólafsson (1035-1047)
Neðan bringu Fægt járn Sögur af fornkonungum Haraldur harðráði (1047-1066)
Kviður ofan nafla Bleikt gull (gullblanda) Tré, blóm og ferfætlingar Ólafur kyrri (1066-1093)
Kviður milli nafla og skapa Óskírt silfur Magnús berfættur (1093-1103)
Læri Holdlitt efni Sigurður Jórsalafari (d. 1130) og Eysteinn Magnússon (d. 1123)
Leggir og fætur Viður Valdabarátta milli sona og barnabarna Magnúsar berfætts

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. Johnsen, O.A. and Jón Helgason (eds.) 1941. Saga Óláfs konungs hins helga. Den store saga om Olav den hellige. Efter pergamenthandskrift i Kungliga Biblioteket i Stockholm nr. 2 4to med varianter fra andre handskrifter. Norsk Historisk Kjeldeskrifts-Institutt. Oslo. Vol. II.
 2. Picherit, J.-L. G. (ritstj. og þýð.) 1984. The Journey of Charlemagne to Jerusalem and Constantinople. Summa Publications, Inc. Birmingham, Alabama.
 3. Turville-Petre, Joan E. 1947. The story of Rauð and his sons. Þýð. J.E. Turville-Petre. Viking Society for Northern Research. Payne Memorial Series II.
 4. Faulkes, Anthony. 1966. Rauðúlfs þáttr. A study. Studia Islandica 25. Heimspekideild Háskóla Íslands og Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.
 5. Schlauch, M. 1932. „The palace of Hugon of Constantinopel“. Speculum 7: 500-514
 6. Faulkes, Anthony. 1966. Rauðúlfs þáttr. A study. Studia Islandica 25. Heimspekideild Háskóla Íslands og Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.
 7. Árni Einarsson. 1997. Saint Olaf’s dream house. A medieval cosmological allegory. Skáldskaparmál 4: 179-209, Stafaholt, Reykjavík.
 8. Árni Einarsson. 2001. The symbolic imagery of Hildegard of Bingen as a key to the allegorical Raudulfs thattr in Iceland. Erudiri Sapientia II: 377-400
 9. Árni Einarsson. 2005. Táknrænt hús í Rauðúlfs þætti. Bls. 42-52 í bókinni Á sprekamó, afmælisriti tileinkuðu Helga Hallgrímssyni sjötugum. Ritstj. Sigurður Ægisson. Bókaútgáfan Hólar, Akureyri.
 10. Loescher, G. 1981. „Rauðúlfs þáttr“. Zeitschrift für deutsches Altertum und Deutsche Literatur 110: 253-266.
 11. Kurdzialek, M. 1971. Der Mensch als Abbild des Kosmos. Miscell. Med. 8: 35-75.
 12. Árni Einarsson. 1997. „Saint Olaf’s dream house. A medieval cosmological allegory“. Skáldskaparmál 4: 179-209, Stafaholt, Reykjavík.
 13. Meyer, Ann R. 2003. Medieval Allegory and the Building of the New Jerusalem. D.S.Brewer, Cambridge. 214 pp.
 14. Árni Einarsson. 2001. The symbolic imagery of Hildegard of Bingen as a key to the allegorical Raudulfs thattr in Iceland. Erudiri Sapientia II: 377-400.
 15. Mann, J. 1994. „Allegorical buildings in medieval literature“. Medium Ævum 63: 191-210.
 16. Whitehead, Christinia 2003. Castles of the Mind. A Study of Medieval Architectural Allegory. University of Wales Press, Cardiff. 324 pp.
 17. Finckh, Ruth 1999. Minor Mundus Homo. Studien zur Mikrokosmos-Idee in der mittelalterlichen Literatur. Palaestra 306. Untersuchungen aus der Deutschen und Skandinavischen Philologie. Vandenhoeck & Ruprecht. Göttingen. 475 pp.
 18. Árni Einarsson. 1997. „Saint Olaf’s dream house. A medieval cosmological allegory“. Skáldskaparmál 4: 179-209, Stafaholt, Reykjavík.

Frekari heimildir

[breyta | breyta frumkóða]
 • Hildegard of Bingen. Book of Divine Works, with Letters and Songs. Edited and introduced by Matthew Fox. Bear & Company, Santa Fe, New Mexico. 1987.
 • Hildegard of Bingen. Liber Divinorum Operum. Cura et studio. A. Derolez & P. Dronke (eds.). In: Corpus Christianorum. Continuatio Mediaevalis XCII. Brepols. Turnhout 1996.
 • Peck, R.A. 1980. Number as cosmic language. Pp. 15-64 in C.D. Eckhardt (ed.): Essays in the Numerical Criticism of Medieval Literature. Associated University Press, London.