Fara í innihald

Rama 1.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rama 1. Síamskonungur)
Skjaldarmerki Chakri-ætt Konungur Síams
Chakri-ætt
Rama 1.
Rama 1.
Ríkisár 6. apríl 1782 – 7. september 1809
SkírnarnafnThongduang
Fæddur20. mars 1736
 Ayutthaya, Konungsríkinu Ayutthaya
Dáinn7. september 1809 (73 ára)
 Bangkok, Síam
GröfWat Pho, Bangkok, Taílandi
Konungsfjölskyldan
Faðir Thongdi
Móðir Daoreung
DrottningAmarindra
Börn42

Phra Phutthayotfa Chulalok Maharaj (taílenska: พระพุทธยอดฟ้าจุฬาโลกมหาราช), fæddur undir nafninu Thongduang (taílenska: ทองด้วง) og einnig þekktur undir konungsnafninu Rama 1. (20. mars 1736 – 7. september 1809), var fyrsti konungur Síams (nú Taílands) af Chakri-ættinni og stofnandi taílenska Rattanakosin-ríkisins. Fullt nafn hans á taílensku var Phra Bat Somdet Phra Paramoruracha Mahachakkriborommanat Phra Phutthayotfa Chulalok (taílenska: พระบาทสมเด็จพระปรโมรุราชามหาจักรีบรมนารถ พระพุทธยอดฟ้าจุฬาโลก). Hann tók við krúnunni árið 1782 eftir að hann sigraði uppreisn sem hafði kollvarpað stjórn konungsins Taksins af Thonburi. Hann var jafnframt stofnandi borgarinnar Rattanakosin (nú Bangkok) sem höfuðborgar nýja konungsríkisins.

Rama 1. var kominn af Mon-þjóðarbrotinu. Faðir hans varð hirðmaður í Konungsríkinu Ayutthaya og hafði þjónað Taksin konungi í stríðum gegn búrmíska Konbaung-veldinu og hjálpað honum við endursameiningu Síams. Á þeim tíma hafði hann orðið einn voldugasti hernaðarleiðtogi Síams. Thongduang var fyrsti síamski aðalsmaðurinn sem hlaut titilin Somdet Chao Phraya, sem jafnaðist á við titla kóngafólks. Árið 1782 tók hann við stjórn Síams og krýndi sjálfan sig nýjan konung. Frægasti atburðurinn á stjórnartíð hans var stríð Búrma og Síams árið 1785, sem var síðasta meiriháttar búrmíska árásin gegn Síam.

Líkt og margir valdsmenn í Síam skipti Rama 1. margsinnis um nafn á ævi sinni, og jafnvel eftir dauða sinn, eftir stöðu sinni. Fæðingarnafn hans var Thongduang (einnig ritað Thong Duang ทองด้วง). Ættarnöfn höfðu þá enn ekki verið tekin upp í Síam.

Þegar Thongduang var aðstoðarlandstjóri í Ratchaburi-héraðinu á stjórnartíð Ekkathats, konungs Ayutthaya-ríkisins, var hann kallaður Luang Yokkrabat. Eftir hrun Ayutthaya-ríkisins sæmdi Taksin konungur hann titlunum Phra Ratcharin Chao Krom Phra Tamruat (höfuð lögregludeildarinnar), Phraya Aphaironnarit,[1] Phraya Yommarat, Phraya Chakri og Chaophraya Chakri (ráðherra norðurhéraðana). Loks sæmdi Taksin hann nýja titlinum Somdet Chaophraya Maha Kasatsuek, æðstu aðalsnafnbót sem nokkur síamskur embættismaður hafði borið, sem gerði hann í reynd jafntiginn kóngafólki.

Þegar hann tók við krúnunni árið 1782 tók hann sér nafnið Ramathibodi, líkt og stofnandi Ayutthaya-ríkisins. Titill hans í heild sinni var mun lengri (Phra Borommarachathirat Ramathibodi Sisin Borommaha Chakkraphat Rachathibodin o.s.frv.) og átti að sýna fram á tilkall hans til almennra heimsyfirráða líkt og Síamskonunga fyrri tíma.

Eftir dauða konungsins var hann almennt einfaldlega kallaður Phaendin Ton („fyrsta valdatíðin“) og sonur hans var kallaður Phaendin Klang („miðvaldatíðin“). Þar sem sonarsonur hans, Rama 3., vildi ekki láta kalla sig „síðustu valdatíðina“ batt hann enda á þessa nafnahefð með því að láta setja tvær styttur af Búdda sitt hvorum megin við Smaragðsbúddann við Wat Phra Kaeo og tileinkaði þær föður sínum og afa. Hann fyrirskipaði að forverar hans tveir yrðu framvegis kallaðir með nöfnum Búddastyttnanna. Styttan sem tileinkuð var fyrsta Chakri-konungnum var nefnd Phra Phutthayotfa Chulalok („Búddann á tindi himinsins og kóróna heimanna“). Í taílenskum sagnfræðibókum ber konungurinn enn þetta nafn.[2]

Afkomandi konungsins, Vajiravudh (Rama 6.), sem hafði numið við skóla í Englandi, gerði sér grein fyrir að erfitt yrði fyrir Vesturlandabúa að muna nöfn flestra Síamskonunga. Hann fyrirskipaði því afturvirkt að allir konungar Chakri-ættarinnar skyldu bera konungsnafnið Rama ásamt raðtölu hvers um sig. Þess vegna er þessi konungur nefndur Rama 1. í vestrænum bókmenntum. Árið 1982, 200 árum eftir valdatöku hans, ákvað ríkisstjórn Taílands jafnframt að sæma hann heiðursnafnbótinni Maharat, eða mikli.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Klaus Wenk (1968). The restoration of Thailand under Rama I, 1782–1809. The University of Arizona Press. bls. 3.
  2. Sulak Sivaraksa (1985). Siamese Resurgence: A Thai Buddhist Voice on Asia and a World of Change. Asian Cultural Forum on Development. bls. 175.


Fyrirrennari:
Taksin
(af Thonburi)
Konungur Síams
(6. apríl 17827. september 1809)
Eftirmaður:
Phra Phutthaloetla Naphalai
(Rama 2.)


  Þetta æviágrip sem tengist sögu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.