Pyrrhos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brjóstmynd af Pyrrhosi frá Herculaneum

Pyrrhos 1. (319/318 f.kr. – 272 f.Kr.) var konungur í gríska ríkinu Epírus á 4. og 3. öld f.Kr.. Pyrrhosar er einna helst minnst fyrir að leiða her sinn yfir á Ítalíuskagann og sigra Rómverja í tveimur hörðum orrustum. Þessir tveir sigrar hans reyndust honum þó dýrkeyptir þar sem hann hafði ekki nægan mannafla til þess að fylgja þeim eftir, á meðan Rómverjar gátu kallað til nýja hermenn. Þegar Pyrrhos áttaði sig á þessum aðstæðum á hann að hafa sagt að einn svona sigur í viðbót myndi gera útaf við hann, og varð þá til hugtakið Pyrrhosarsigur.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Pyrrhos var sonur Eakídesar konungs í Epírus og var fæddur 319 eða 318 f.Kr. Pyrrhos og Alexander mikli voru þremenningar í gegnum föður Pyrrhosar og móður Alexanders, Olympias. Einnig rakti Pyrrhos ættir sínar til goðsagnakenndu grísku hetjunnar Akkillesar.

Árið 282 f.Kr. hófust átök milli Rómverja og grísku borgarinnar Tarentum á suður-Ítalíu. Á þessum tíma réðu Rómverjar ekki yfir syðsta hluta Ítalíuskagans heldur voru þar sjálfstæð grísk borgríki og kölluðu rómverjar svæðið Magna Graecia (Stór-Grikkland). Íbúar Tarentum áttuðu sig fljótlega á því að þeir stæðust ekki hernaðarmátt Rómverja og biðluðu því til Pyrrhosar um aðstoð. Pyrrhos sigldi yfir til Ítalíu með stóran her og réðst til atlögu við Rómverja. Hann sigraði her Rómverja í harðri orrustu, við Heracleu árið 280 f.Kr., en þar sem mannfallið í hans eigin her var mikið bauð hann Rómverjum að semja um frið. Rómverjar höfnuðu friðarsamningi og aftur mættust herir þeirra í orrustunni við Asculum árið 279 f.Kr.. Aftur sigraði Pyrrhos Rómverja en þurfti enn að þola mikið mannfall og sá því ekki fram á að geta haldið stríðinu til streitu, enda gátu Rómverjar endurnýjað sinn herafla að einhverju leiti en Pyrrhos ekki. Á Pyrrhos þá að hafa sagt að einn svona sigur í viðbót myndi gera útaf við hann, og varð upp úr þessu til hugtakið Pyrrhosarsigur.

Árið 278 f.Kr. biðluðu grísk borgríki á Sikiley til Pyrrhosar um aðstoð í átökum við Karþagómenn, sem réðu þá yfir hluta eyjunnar. Pyrrhos hélt þangað með megnið af því sem var eftir af herafla hans og leiddi Grikkina á Sikiley til sigurs gegn herjum Karþagó. Í kjölfarið var Pyrrhos hylltur sem konungur Sikileyjar. Karþagómenn héldu þó enn völdum yfir litlu svæði vestast á Sikiley og gerði Pyrrhos árangurslausa tilraun til þess að hrekja þá alfarið burt frá eyjunni. Pyrrhos varð fjótt óvinsæll á meðal Grikkja á Sikiley, þar sem hann beytti þá harðræði, og á sama tíma voru Rómverjar langt komnir með að sigra öll grísku borgríkin á suður-Ítalíu. Pyrrhos ákvað því yfirgefa Sikiley og sigla með her sinn aftur til Ítalíu. Á leiðinni til Ítalíu gerði sjóher Karþagó fyrirsát og sökkti stórum hluta skipanna sem voru að flytja her Pyrrhosar. Árið 275 f.Kr. mætti Pyrrhos Rómverjum í síðasta sinn, í orrustunni við Beneventum. Rómverjar höfðu mun stærri her í orrustunni og þegar Pyrrhos sá fram á ósigur hörfaði hann með það sem eftir var af herafla sínum. Í kjölfarið gafst Pyrrhos upp á því að berjast við Rómverja og sigldi aftur til Epírus.

Eftir heimkomuna hóf Pyrrhos fljótlega hernaðarbrölt á meginlandi Grikklands. Árið 274 f.Kr. sigraði hann konung Makedóníu í orrustu og varð í kjölfarið konungur Makedóníu. Árið 272 f.Kr. virðist hann hafa ætlað sér að ná yfirráðum yfir Pelopsskaganum þegar hann gerði árangurslaust umsátur um Spörtu, þar sem sonur hans, Ptólemaios, lést. Eftir að hafa gefist upp á umsátrinu hélt Pyrrhos til borgarinnar Argos þar sem hann hugðist binda enda á borgaraleg átök í borginni. Þegar þangað var komið tók Pyrrhos þátt í átökum á götum borgarinnar en að sögn féll hann af hesti sínum þegar gömul kona kastaði í hann þakflís af húsþaki og í kjölfarið var hann afhöfðaður af óvinahermanni.