Postuli
Postuli – yfirleitt postularnir tólf – (gríska: απόστολος, apóstolos = sendiboði, boðberi) voru tólf lærisveinar Jesú Krists, sem hann sendi út til að kristna heimsbyggðina.
Lærisveinarnir tólf
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt Markúsarguðspjalli (3:16-19) og Matteusarguðspjalli (10:2-4), voru lærisveinar Krists þessir:
- Andrés postuli, bróðir Péturs
- Bartólómeus postuli
- Filippus postuli
- Jakob Alfeusson eða Jakob yngri, postuli
- Jakob Sebedeusson eða Jakob eldri, postuli
- Jóhannes postuli eða Jón postuli, bróðir Jakobs
- Júdas Ískaríot
- Júdas Taddeus, – Júdas Jakobsson skv. Lúkasarguðspjalli (6:13-16)
- Matteus postuli
- Símon Pétur eða Pétur postuli
- Símon vandlætari
- Tómas postuli
Strangt til tekið urðu lærisveinarnir ekki postular fyrr en eftir upprisu Krists (á hvítasunnu), og því er Júdas Ískaríot ekki talinn meðal postulanna.
Tólfti postulinn
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að Júdas Ískaríot sveik Krist og hengdi sig, voru postularnir aðeins ellefu. Samkvæmt Postulasögunni 1:23-26, ákváðu þeir sem eftir voru að útnefna nýjan postula. Þeir vörpuðu hlutkesti um það (fyrir hvítasunnu) og kom upp nafn Matthíasar postula.
Þó að Matthías hafi verið valinn tólfti postulinn, er Páll postuli yfirleitt talinn sá tólfti, skv. gamalli hefð. Hann var ekki einn af lærisveinum Krists. Hann var farísei sem vann gegn Jesú, en varð fyrir vitrun og gerðist einn ötulasti talsmaður kristindómsins. Hann kallar sjálfan sig postula, sjá t.d. Rómverjabréfið 1:1 í Biblíunni.
Aðrir postular
[breyta | breyta frumkóða]Í Hebreabréfinu er Jesús sagður fyrsti postulinn. Í Postulasögunni er Barnabas kallaður postuli.
Margir af fyrstu kristnu trúboðunum eru kallaðir postular. Með því er átt við þá sérstöku þýðingu sem starf þeirra hafði fyrir útbreiðslu kristninnar í ákveðnu landi eða meðal einhverrar þjóðar. Þegar sagt er að Bonifatius sé „postuli Germana“, er átt við að hann var fyrsti kristni trúboðinn meðal þeirra. Meðal slíkra „postula“ eru:
- Aðalbert, postuli Pólverja
- Anastasíus, postuli Ungverjalands
- Ansgar, postuli Norðurlanda
- Bonifatius, postuli Germana
- Kólumkilli eða heilagur Columba, postuli Skota
- Kýrillos og Meþódíos, postular slafneskra þjóða
- Ólafur Tryggvason, postuli Norðmanna
- Patrekur hinn helgi, postuli Írlands
- Úlfíla eða Wulfila, postuli Gota
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Kristendomens apostlar“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 22. desember 2008.