Fara í innihald

Post hoc-rökvilla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Post hoc ergo propter hoc er nafn á rökvillu, sem er stundum nefnd post hoc-rökvillan á íslensku. Nafnið er á latínu og þýðir „á eftir þessu, þess vegna út af þessu.“ Stundum er rökvillan einfaldlega kölluð post hoc.

Post hoc-rökvillan felst í því að gera ráð fyrir að fylgni sé vegna orsakatengsla, þ.e. að ef eitthvað gerist á eftir einhverju öðru, þá hljóti fyrri atburðurinn að hafa valdið þeim síðari. Þessi villa er oft æði freistandi vegna þess að tímaröð er innbyggð í orsakavensl — það er satt að orsökin fer ætíð á undan afleiðingunni. Vandinn liggur í því að draga ályktun einungis á grundvelli fylgninnar, sem er ekki alltaf góð vísbending um orsakatengls. Með öðrum orðum, þá er það ekki satt að undanfarandi atburður sé ávallt orsök atburðar eða atburða sem fylgja í kjölfarið.

Post hoc-rökvillan er dæmi um játun bakliðar. Setja má villuna fram á eftirfarandi hátt:

  • Atburður A gerðist á undan atburði B.
  • Þess vegna hlýtur A að hafa valdið B.

Dæmi:

  1. Haninn galar alltaf fyrir sólarupprás
  2. Þess vegna veldur hanagalið sólarupprásinni

Annað dæmi:

  1. Sala á ís eykst ávallt töluvert í júní
  2. Bílaþjófnaður eykst í júlí
  3. Þess vegna veldur það að fleira fólk borðar ís því að fleiri bílum er stolið

Rök af þessu tagi eru grundvöllur margskonar hjátrúar með því að tengja tvo hluti eða atburði sem tengjast ekki í raun. Til dæmis, ef maður sér pening á götunni og tekur hann upp og fær síðar góðar fregnir, þá gæti viðkomandi farið að halda að peningafundurinn hafi leitt til góðu fregnanna og kannski að peningurinn sé lukkugripur eða eitthvað slíkt, enda þótt aðeins hafi verið um tilviljun að ræða.

Post hoc-villan er nátengd rökvillu sem kallast fylgnivillan en fylgnivillan kveður á um að regluleg fylgni atburða þurfi ekki að segja fyrir um orsakatengsl.