Rökvilla

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rökvilla er það þegar rök fela í sér villu og ganga af þeim sökum ekki upp eða leiða til mótsagnar. Formlegar rökvillur eru villur þar sem niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum. Í víðari skilningi ná rökvillur einnig yfir svonefndar óformlegar rökvillur en slík rök teljast rökvillur af öðrum ástæðum en vegna formlegs galla, til dæmis þess að þau eru ómálefnaleg.

Dæmi um formlega rökvillu[breyta | breyta frumkóða]

  1. Allir skvoppar eru skvampar.
  2. Flestir skvampar ganga í nærbuxum.
  3. Þess vegna ganga sumir skvoppar í nærbuxum.

Röksemdafærsla af því tagi sem dæmi er um hér að ofan er ógild vegna þess að í henni er formleg rökvilla; það er að segja niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum. Villan veldur ruglingi vegna þess að hún er við fyrstu sýn sennileg; ef allir skvoppar eru skvampar og flestir skvampar hafa einhvern eiginleika, þá eru líkur á að einhverjir skvoppar séu í hópi þeirra skvampa sem hafa eiginleikann, enda minnihluti skvampa sem hafa hann ekki. En á hinn bóginn er röksemdafærslan ekki líkindarök, heldur ályktar hún af forsendunum (1 og 2) að það séu einhverjir skvoppar sem hafa eiginleikann sem flestir skvampar hafa (þ.e. að ganga í nærbuxum). Með öðrum orðum segir hún að sumir skvoppar gangi í nærbuxum vegna þess sem forsendurnar segja okkur um skvoppa og skvampa. En forsendurnar tryggja alls ekki að niðurstaðan sé rétt; það er alls ekki víst að sumir skvoppar gangi í nærbuxum, þótt það sé ef til vill sennilegt í ljósi þess að flestir skvampar hafi þann eiginleika; það má nefnilega vel vera að skvoppar séu mikill minnihluti allra skvampa og séu einmitt allir í hópi þeirra skvampa sem hafa ekki þann eiginleika að ganga í nærbuxum. Af þessum sökum er röksemdafærslan ógild vegna forms síns og skiptir engu máli hverjar breyturnar eru (þ.e. hvaða orð eru sett inn í stað „skvoppa“, „skvampa“ og „ganga í nærbuxum“); form röksemdafærslunnar gerir að verkum að það er mögulegt að forsendurnar séu sannar en niðurstaðan samt ósönn og af því má ráða að niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum — ekki heldur þegar svo vill til að niðurstaðan er sönn, eins og í eftirfarandi dæmi.

  1. Allir Íslendingar eru mannlegir.
  2. Flestir menn hafa tvö augu.
  3. Þess vegna hafa að minnsta kosti sumir Íslendingar tvö augu.

Í þessari röksemdafærslu eru forsendurnar (1 og 2) báðar sannar: Vissulega eru allir Íslendingar, þ.e. íslenskir ríkisborgarar, mannlegir einstaklingar og flestir menn hafa vissulega tvö augu. Niðurstaðan (3) er líka sönn því að sumir — og raunar vel flestir — Íslendingar hafa tvö augu. Vandinn er hins vegar sá að niðurstöðuna leiðir ekki af forsendunum sem gefnar eru og því er röksemdafærslan ógild.

Ýmsar tegundir af rökvillum[breyta | breyta frumkóða]

Eftirfarandi er listi yfir rökvillur. Vinna þarf nánar úr honum til að hann samræmist stöðlum á Wikipediu. Heimildir eru aðallega af Vantrú.is og ensku Wikipediu.

Formlegar rökvillur[breyta | breyta frumkóða]

Post hoc rökvillan (lat. post hoc ergo propter hoc)[breyta | breyta frumkóða]

Það að halda að A komi á eftir B sanni að A orsakist af B. Dæmi: Ég varð kvefuð og tók sólhatt. Tveimur vikum seinna var mér batnað af kvefinu. Þar af leiðandi hlýtur sólhatturinn að hafa læknað mig. Post hoc rökvillan er í raun dæmi um að fylgnisamband sé ekki endilega orsakasamband (correlation is not causation).

Klasavillan (e. cluster illusion)[breyta | breyta frumkóða]

Að halda að tilviljanakenndir atburðir sem gerast aftur og aftur séu í raun ekki tilviljanakenndir. Dæmi: Ég fékk sexu fimm sinnum í röð í spilinu. Ég hlýt að kasta teningnum svona frábærlega vel.

Heildarskekkja og deildarskekkja[breyta | breyta frumkóða]

Heildarskekkja er þegar heildin er talin hafa sömu einkenni og hlutar hennar (t.d. „úr Háskóla Íslands komu menn sem ollu efnahagshruninu; því olli Háskólinn efnahagshruninu“). Deildarskekkja er þegar hlutar heildarinnar eru taldir hafa sömu einkenni og heildin (t.d. „Háskóli Íslands er trúlaus stofnun, því eru starfsmenn Háskólans trúlausir“).

Að gleyma undantekningunni (e. accident, destroying the exception)[breyta | breyta frumkóða]

Rökvilla þar sem aðeins er dregin ályktun út frá almennri reglu en undantekningarnar gleymast. Dæmi: Allir sem aka of hratt eru ökuníðingar. Lögreglan ekur yfir hraðamörkum. Þar af leiðandi hljóta lögreglumenn að vera ökuníðingar (lögreglubílar eru undanþegnir reglunni um hámarkshraða).

Að álykta út frá undantekningunni (e. converse accident)[breyta | breyta frumkóða]

Að draga almenna ályktun út frá undantekningu á reglu. Dæmi: Sumir misnota áfengi. Því ætti áfengi að vera bannað.

Óviðkomandi niðurstaða (lat. ignoratio elenchi)[breyta | breyta frumkóða]

Þegar ályktanir leiða ekki af þeim rökum sem gefin voru og eru þeim í raun alveg óviðkomandi. Dæmi: Það er mikið að þessu þjóðfélagi. Þess vegna ættum við öll að fara að hugsa meira um siðferðismál.

Afvegaleiðing, „rauða síldin“, „gulrótin“ (e. red herring)[breyta | breyta frumkóða]

Er sértilfelli af óviðkomandi niðurstöðu, þar sem reynt er að afvegaleiða fólk viljandi, veifa svo að segja gulrót fyrir framan nefið á þeim. Dæmi: Við höfum kannski ekki staðið við loforð um skattalækkanir en sjáiði bara formann hins flokksins! Ég hef staðfestar heimildir um að hann gangi í kvenmannsnærfötum!

Hringavitleysan (lat. petitio principii, e. en:begging the question en:circular reasoning)[breyta | breyta frumkóða]

Þegar einhverju er haldið fram, ályktun er dregin af því og ályktunin svo notuð til að styðja upprunalegu forsenduna. Dæmi: Í Biblíunni stendur að hún sé orð Guðs. Guð er óskeikull samkvæmt Biblíunni. Biblían er því líka óskeikul. Þess vegna hlýtur hún að vera orð Guðs (o.s.frv.)

Valtvennuvillan (e. en:false dilemma)[breyta | breyta frumkóða]

Þegar tveimur valkostum er komið fram sem annað hvort eiga ekkert sameiginlegt eða að til séu fleiri valkostir. Dæmi: Ef þú ert ekki með okkur, ertu með óvinunum. Þetta útilokar að minnsta kosti þriðja möguleikann, hlutleysi.

Óformlegar rökvillur[breyta | breyta frumkóða]

Vísun í kennivald (e. appeal to authority)[breyta | breyta frumkóða]

Þegar því er haldið fram að eitthvað sé satt vegna þess að tiltekin manneskja heldur því fram. Dæmi: Britney Spears notar Colgate tannkrem, því hlýtur Colgate að vera betra en önnur tannkrem. Vísun í kennivald er sérstök tegund af Vísun til uppruna (genetic fallacy) þar sem skoðun er dæmd eftir uppruna hennar. Dæmi: Samkynhneigð er slæm vegna þess að það stendur í Biblíunni.

Fáfræðirökleiðslan (e. argument from ignorance)[breyta | breyta frumkóða]

Þegar haldið er fram að eitthvað geti ekki verið satt því það sé ekki búið að sanna það, eða að eitthvað geti ekki verið ósatt vegna þess að það sé ekki búið að hrekja það. Þetta er rökvilla því skortur á vitnisburði ber ekki vitni um neitt.

Dæmi: Þú getur ekki sannað að Guð sé til. Þess vegna er hann ekki til eða Þú getur ekki afsannað að Guð sé til. Þess vegna hlýtur hann að vera til. Dæmi: Ég hef aldrei heyrt talað um rannsóknir á íslenskum albinóum. Af hverju er verið að vanrækja albinóa? Stjórnvöld stunda mannréttindbrot á albinóum!

Persónuníð (lat. argumentum ad hominem)[breyta | breyta frumkóða]

Þegar reynt er að gera lítið úr fullyrðingu með því að ráðast á persónu þess sem heldur henni fram. Dæmi: Hildur er á móti stríði en það er ekkert hægt að taka mark á henni, hún er bara barn og skilur ekki neitt.

Dæmi: Bróðir R. Kelly var að gefa út lag þar sem hann segist hafa átt að taka á sig glæpinn fyrir greiðslu. Gaurinn er ekki með neina framtönn. pfffff, það er ekki hægt að taka mark á gaur með enga framtönn.

Sök vegna tengsla[breyta | breyta frumkóða]

Að segja að eitthvað sé rangt vegna tengsla við eitthvað slæmt, yfirleitt að slæmur maður hafi haldið því sama fram. Dæmi: Nasistar dýrkuðu skoðanir Friedrichs Nietzsches, þess vegna hljóta þær að vera rangar og ógeðslegar. Coco Chanel svaf hjá þýskum offiserum í stríðinu, þessvegna hljóta fötin hennar að vera hallærisleg.

Rökvilla brunnmígsins[breyta | breyta frumkóða]

Að gera lítið úr skoðunum annars með því að draga fyrirfram úr sannfæringarmætti hans. Er skylt persónuárásarvillunni. Dæmi: Nú tekur til máls ofstækismaðurinn Gunnar í Krossinum.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Aðrar rökvillur[breyta | breyta frumkóða]

Gildar ályktunarreglur[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hverjar eru helstu rökvillurnar og hvernig er best að forðast þær?“. Vísindavefurinn.
  Þessi heimspekigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.