Fara í innihald

Plinius yngri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Plinius minor)

Gaius Plinius Caecilius Secundus (63 - um 113), betur þekktur sem Plinius yngri, var rómverskur lögfræðingur, rithöfundur og heimspekingur.

Plinius fæddist í Comum, á Ítalíu. Hann var sonur landeiganda að nafni Lucius Caecilius og konu hans Pliniu. Plinia var systir Pliniusar eldri.

Faðir Pliniusar lést þegar Plinius var enn ungur að árum. Hann bjó sennilega hjá móður sinni en vitað er að Lucius Verginius Rufus, sem var frægur fyrir að bæla niður uppreisn gegn Neró keisara, var forráðamaður hans. Plinius hlaut í fyrstu menntun heima en var síðar sendur til Rómar þar sem hann nam mælskufræði hjá Quintilianusi og Nicetesi Sacerdos frá Smyrnu. Plinius varð nú nánari móðubróður sínum, Pliniusi eldri, og þegar Plinius eldri lést þegar Vesúvíus gaus árið 79 erfði Plinius allar eigur frænda síns. Í erfðaskránni kom einnig fram að Plinius eldri ættleiddi systurson sinn en slíkt var ekki óalgengt í Róm.

Plinius var álitinn heiðarlegur og hófsamur maður og hlaut hann frama jafnt í hernum og í stjórnmálum (cursus honorum). Hann var vinur sagnaritarans Tacitusar og var vinnuveitandi sagnaritarans Suetoniusar. Plinius þekkti einnig til margra annarra vel kunnra manna síns tíma, m.a. heimspekinganna Artemidorosar og Evfrates sem hann kynntist í Sýrlandi.

Plinius kvæntist þrisvar sinnum, fyrst þegar hann var um átján ára gamall. Næst giftist hann dóttur Pompeiu Celerinu en ekki er vitað hvenær, og í þriðja skiptið kvæntist hann Calpurniu, sonardóttur Calpurnusar Fabatusar frá Comum. Varðveitt eru bréf þar sem Plinius getur þessa síðastnefnda hjónabands, lýsir tilfinningum sínum til Calpurniu og depurðinni þegar ljóst var að þau gátu ekki átt börn.

Plinius lést skyndilega við skyldustörf í Biþyníu um árið 113.

Starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Starfsferill Pliniusar hófst er hann var átján ára gamall og var í meginatriðum hefðbundinn (cursus honorum).

um 81 Dómari í hundrað manna kviðdómi (decemvir litibus iudicandis)
um 81 Gegndi herþjónustu í 3. herdeild (Legio III Gallica) í Sýrlandi, sennilega í sex mánuði
9. áratugurinn Fyrirliði í riddaraliði (sevir equitum Romanorum)
seint á 9. áratugnum Öldungaráðsmaður
88 eða 89 Gjaldkeri (quaestor) við hirð keisarans (quaestor imperatoris)
91 Alþýðuforingi (tribunus plebis)
93 Dómari (praetor)
94-96 Fjárhirslustjóri hersins (nánast hermálaráðherra) (praefectus aerari militaris)
98-100 Fjárhirslustjóri Saturnúsar (praefectus aerari Saturni)
100 Ræðismaður ásamt Cornutusi Tertullusi
103-104 Kosinn spáprestur
104-106 Umsjónarmaður árbakkans við Tíber (curator alvei Tiberis)
104-107 Þrisvar sinnum í dómsmálaráði Trajanusar
110 Sendiherra keisarans (legatus Augusti) í Biþyníu

Plinius starfaði mikið í dómskerfi Rómar, einkum í alþýðudómstólum, sem fjölluðu um erfðamál. Síðar varð hann vel kunnur af því að sækja mál (og verja) í málsóknum á hendur skattlandsstjórum, þ.á m. Baebiusi Massa, landsstjóra Baeticu, Mariusi Priscusi, landstjóra í Afríku, Gaiusi Caeciliusi Classicusi, landstjóra í Baeticu, og Gaiusi Juliusi Bassusi og Varenusi Rufusi, sem voru báðir landstjórar í Biþyníu.

Ferill Pliniusar er almennt talinn fyrirmyndardæmi um rómverska metorðastigann og eru fleiri heimildir fyrir honum en starfsferli flestra annarra frá þessum tíma. Plinius starfaði í raun á flestum sviðum stjórnsýslunnar á sínum tíma.

Plinius hóf að skrifa fjórtán ára gamall er hann samdi harmleik á grísku. Um ævina samdi hann þónokkuð af ljóðum en flest hafa glatast. Hann þótti einnig mikilfenglegur ræðumaður og kvaðst sjálfur fylgja fordæmi Ciceros en hann var þó háfleygari en Cicero og ekki eins beinskeyttur. Eina ræðan sem er varðveitt eftir hann er Panegyricus Trajani. Hún var flutt í öldungaráði Rómar árið 100 og er lýsing á Trajanusi og athöfnum hans í formi lofræðu, þar sem hann er einkum borinn saman við Domitianus. Ræðan er þó heimild um ýmsar athafnir keisarans á ýmsum sviðum stjórnmálanna, tildæmis er varða skatta, aga í hernum og verslun. Plinius skilgreindi ræðuna sem ritgerðum optimus princeps (hinn besta stjórnanda).

Megnið af varðveittum verkum Pliniusar eru hins vegar Bréfin (Epistulae), sendi bréf tilvina og vandamanna. Þessi bréf eru einstök heimild um stjórnsýslusögu rómverska keisaradæmisins og daglegt líf í Rómaveldi á 1. öld. Efnistökin eru allt önnur en í Panegyricus og sumir líta svo á að Plinius hafi búið til nýtt form bókmennta: bréf sem er ætlað útgáfu. Bókmenntaformið er frábrugðið hefðbundnari sagnaritun, þar sem hlutlægnin situr á hakanum án þess að heimildagildið rýrni.

Venjulega er Bréfunum skipt í tvennt, bækur 1 til 9, sem Plinius bjó undir útgáfu, og bók 10. Öll bréfin í 10. bók voru skrifuð til Trajanusar keisara eða af honum meðan Plinius gegndi störfum í Biþyníu. Síðastu bókina ætlaði Plinius ekki að gefa út en hún komút að honum látnum.

Í þessum bókum lýsir Plinius m.a. eldgosinu í Vesúvíusi og andláti frænda síns og lærimeistara, Pliniusar eldri (VI.16). Vegna lýsingar Pliniusar er nú talað um plinísk eldgos. Í fyrsta bréfinu (I.1), skrifað til Gaiusar Septiciusar Clarusar, lýsir Plinius ástæðum sínum fyrir því að safna saman bréfunum til útgáfu. Sum bréfanna lýsa lífinu á villum Pliniusar og eru mikilvægar heimildir um sögu landslagsarkitektúrs. Þau eru elstu varðveittu heimildirnar um hönnun og notkun garða í fornöld.

Efni þessa hluta bréfanna þróast með tímanum. Ferli Pliniusar er lýst í smáatriðum í fyrstu bréfunum. Hann gefur vinum ráð og ýmis meðmæli, ræðir stjórnmál og ýmislegt annað í daglegu lífi Rómverja. Þegar kemur að síðustu tveimur bókum þessa hluta (bókum 8 og 9) er efniðorðið ívið heimspekilegra.

Fræðimenn telja að bækur 1 til 3 hafi verið skrifaðar milli 97 og 102, bækur 4 til 7 hafi verið samdar milli 103 og 107 og bækur 8 og 9 hafi verið samdar árin 108 og 109. Þessar bækur voru aðlíkindum gefnar út smám saman milli 99 og 109.

Eins og áður var getið eru bréfin í bók 10 öll skrifuð til Trajanusar keisara eða af honum til Pliniusar. Venjulega er talið að þau séu varðveitt í upprunalegri mynd. Sem slík eru þau einstök heimild um stjórnsýslu í rómversku skattlandi þessa tíma og eins um rómverska menningu út af fyrir sig. Auk þess má sjá greinilega þá spillinu sem varð til á ýmsum stigum stjórnkerfisins í skattlöndunum og skeytingaleysið um hana. Bréf X.96 er ein elsta heimildin um kristni og ástæður fyrir ofsóknum á hendur kristnum mönnum.

Bréfið um kristnina er athyglisvert vegna þess að efni þess varð ríkjandi viðhorf gagnvart kristnum þaðsem eftir lifði af fornöld. Plinius og Trajanus voru umburðarlyndir gagnvart kristnum mönnum. Kristnir voru ekki teknir fyrir en þeim var refsað líkt og öðrum ef þeir brutu gegn valdstjórninni. Ef þeir voru ásakaðir um glæpi (nafnlausar ásakanir voru ekki teknar gildar) þá áttu þeir þess kost að svara fyrir sig. Einhverjar ofsóknir eru til marks frávik frá þessari reglu en þær heyrðu til undantekninga.

Þar sem svör Trajanusar við fyrirspurnum Pliniusar er einnig að finna í bréfasafninu er safnið þeim mun mikilvægari heimild og um leið læsilegra. Bréfin gefa okkur nasasjón persónuleikum Pliniusar og Trajanusar.

Stíllinn í bók 10 er allur einfaldari en í fyrri bókum vegna þess að hún átti ekki að vera gefin út. Bókin var gefin út að Pliniusi látnum og lagt hefur verið til að Suetonius, sem var starfmaður Pliniusar, hafi hugsanlega getað ritstýrt henni.

Fyrirmynd greinarinnar var „Pliny the Younger“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. ágúst 2006. Hornblower, Simon og Spawforth, Anthony (ritstj.) (2003 (3. útg.)). Oxford Classical Dictionary. Oxford University Press. ISBN 0-19-860641-9. Gaius Plinius Caecilius Secundus (1969). The Letters of the Younger Pliny. Penguin Books. ISBN 0-14-044127-1.