Fara í innihald

Palli Hall

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Palli Hall er dægurlag með söngflokknum Hálft í hvoru sem kom út á plötunni Almannarómur árið 1982. Lagið er lausleg þýðing á laginu Casey Jones — the Union Scab, sem aftur var skopstælingu á kunnu bandarísku þjóðlagi, en Ásgeir Ingvarsson gerði íslenska textann.[1]

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Söngurinn um Palla Hall fjallar um samnefndan verkstjóra í vegavinnuflokki í brúargerð. Þegar undirmenn hans fara í verkfall kýs Palli Hall að gerast verkfallsbrjótur, en ekki vill betur til en svo að hann hrapar til bana ofan í ána. Því næst liggur leið Palla til himnaríkis þar sem Lykla-Pétur tekur honum með kostum og kynjum. Palla er falið að stýra hörpuhljómsveit englanna á himnum, sem einnig stendur í harðri kjaradeilu við yfirboðara sína. Palli Hall kemur fram við englana af sömu hörku og undirsáta sína á jörðinni með þeim afleiðingum að hann er sendur í hið neðra þar sem hann blómstrar loks í þjónustu kölska.[2]

Upprunaleg fyrirmynd

[breyta | breyta frumkóða]
Söngvaskáldið Joe Hill

Lagið The Ballad of Casey Jones eða Casey Jones - the Brave Engineer var samið í Bandaríkjunum um 1909 og byggði á raunverulegum atburðum. Casey Jones var lestarstjóri hjá Illinois járnbrautarfélaginu árið 1900, þegar eimreið sem hann stýrði lenti í hörðum árekstri við kyrrstæðan vagn á brautarstöðinni í Waughan í Mississippi. Deilt hefur verið um að hvað miklu leyti Jones sjálfur bar ábyrgð á slysinu með glæfralegum akstri, en óumdeilt er að hann hafi sýnt mikla hugdirfsku og tekist að bjarga lífi fjölda lestarfarþega í árekstrinum, en þar með fórnað eigin lífi. Þrátt fyrir alvarlegt yrkisefni, var textinn allur í léttum dúr og lagið kynnt sem: „eina gamanvísa sögunnar sem fjallar um járnbrautarslys!“

Sænsk/bandaríska söngvaskáldið og verkalýðsforkólfurinn Joe Hill samdi háðsádeiluna Casey Jones - the Union Scab í tilefni af verkfalli járnbrautarstarfsmanna hjá Illinois járnbrautarfélaginu árið 1911. Í þeim texta, sem aftur varð fyrirmyndin að laginu um Palla Hall, er Casey Jones gerður að verkfallsbrjóti sem stýri eimreið sinni út í á til þess að þóknast forstjórunum, fari síðan til himna þar sem englarnir gera byltingu vegna kúgunar hans og fá Jones sendan niður til vítis. Þýðing Ásgeirs Ingvarssonar er því að mestu trú söguþræði kvæðisins en tekur sér mikið skáldlegt frelsi.

Söngurinn um Palla Hall varð þegar eitt af vinsælli lögum Hálfs í hvoru og fékk ágætis dóma gagnrýnenda. Árni Johnsen tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsis gaf því umsögnina: „Palli Hall er öndvegislag með hnyttnum texta og góðum söng þar sem textinn fjallar um verkstjórann í röðum kerfiskallanna sem eru talsmenn þess að ríkisvaldið sé og eigi að vera forsjá í einu og öllu.“[3]

Tilvísanir og heimildir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „DV 17. maí 1982, Vel flutt alþýðutónlist.
  2. „Glatkistan, 3. nóv. 2021, Palli Hall. (Sótt: 10. nóv. 2024)“.
  3. „Morgunblaðið 17 maí 1982, Almannarómur Hálft í hvoru á mannlífsnótum.