Póstmannafélag Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Póstmannafélag Íslands er stéttarfélag starfsfólks í póstþjónustu og í hópi aðildarfélaga BSRB. Félagið var stofnað þann 26. mars árið 1919. Staða félagsins er óvenjuleg meðal íslenskra stéttarfélaga að því leyti að nálega allir félagsmenn vinna hjá einum og sama vinnuveitanda.

Sagan[breyta | breyta frumkóða]

Stofnfundur félagsins var í Pósthúsinu í Pósthússtræti þann 26. mars árið 1919. Stofnunin tengdist áformum starfsmanna ríkisins að mynda með sér heildarsamtök. Ellefu félagsmenn sátu stofnfundinn þar sem skipuð var þriggja manna stjorn sem skyldi bæta hag póstmuna og gæta hagsmuna þeirra. Þorleifur Jónsson var fyrsti formaður félagsins.

Þótt póstmenn hefðu sem ríkisstarfsmenn hvorki verkfallsrétt né sjálfstæðan samningsrétt náðust ýmis baráttumál í gegn í fyllingu tímans. Þannig var árið 1923 sett reglugerð sem tryggði póstmönnum greiðslur fyrir yfirvinnu. Blaðaútgáfa á vegum félagsins hófst árið 1932 með Póstmannablaðinu, sem er málgagn stéttarinnar. Þegar BSRB var stofnað árið 1942 var Póstmannafélagið í hópi stofnaðila.

Sérstakt Póstfreyjufélag var stofnað árið 1965, en tæpum áratug síðar sameinaðist það Póstmannafélaginu.

Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, síðar forsetafrú stýrði lengi skrifstofu Póstmannafélagsins.

Tilvísanir og heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ingvar Ingvarsson og Samúel Ingi Þórisson (2004). Með oddi og egg: Stéttarfélög á Íslandi. Útgáfufélagið Frúin.