Heittrúarstefna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Píetismi)
Philipp Jakob Spener var upphafsmaður heittrúarstefnunnar.

Heittrúarstefna eða píetismi var trúarhreyfing innan lútherstrúar á 18. öld. Heittrúarstefnan blandaði áherslu kalvínisma og hreintrúarstefnu á trúrækni einstaklingsins við lútherska rétttrúnaðinn. Uppruni hreyfingarinnar er rakinn til kenninga þýska guðfræðingsins Philipp Jakob Spener sem var á þeirri skoðun að ofuráhersla á lútherskan rétttrúnað kæfði kristilegt líferni. 1675 gaf hann út ritið Pia desideria þar sem hann setti fram helstu hugmyndir sínar um endurreisn hinnar lifandi kirkju.[1]

Heittrúarstefnan náði hámarki sínu um miðja 18. öld og átti þátt í því (með áherslu sinni á reynslu einstaklingsins) að skapa grundvöll upplýsingarinnar sem hún var þó í andstöðu við. Heittrúarstefnan hafði áhrif á stofnun Schwarzenau-bræðralagsins og meþódistakirkjunnar á 18. öld.

Áhrifa heittrúarstefnunnar á Íslandi gætti einkum eftir umbætur Harboes um miðja 18. öld, en Vídalínspostilla Jóns Vídalíns biskups sem kom út 1718-20 var undir nokkrum áhrifum frá stefnunni. Tilskipun um ferminguna frá árinu 1741 er einna merkust þeirra umbóta en sú tilskipun kvað á um að ferming yrði almenn skylda og uppfræða ætti börn í trúnni svo þau gætu endurnýjað skírnarheit sitt.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Erik A. Nielsen (2013). H.A. Brorson. Pietisme, meditation, erotik. Gyldendal. bls. 17.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Kristni á Íslandi, III bindi bls. 302-305