Fara í innihald

Orator

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Orator er félag laganema við Háskóla Íslands. Félagið heldur uppi einu öflugasta og virkasta félagslífi við Háskólann. Orðið „orator“ þýðir „ræðumaður“ eða "mælskumaður" og kemur úr latínu. Félagið hefur verið starfrækt frá árinu 1928.

Saga Orators[breyta | breyta frumkóða]

Orator var stofnað haustið 1928, upphaflega til þess að þjálfa félagsmenn í ræðumennsku, auk þess sem það átti að vera skemmtifélag. Síðara markmiðið hefur félagið jafnan staðið vel við með skemmtikvöldum, dansleikjahaldi, árshátíðum o.fl. Í upphafi var haldið fast við markmiðið um þjálfun í ræðumennsku, því margir fundir voru haldnir þar sem félagsmenn tóku þátt í umræðum um hin ýmsu mál. Fljótlega dró þó úr fundahöldum og hafði þessi þáttur í starfseminni nánast lagst af á tímabili. Nokkur kippur kom í fundahöld upp úr 1960 og hafa fundahöld verið nokkur drjúgur þáttur í starfseminni síðan. Sú breyting varð á fundum félagsins er fram liður stundur að fengnir voru utanfélagsmenn til þess að flytja erindi, en áður höfðu einungis félagsmenn tekið til máls á fundum. Við þetta varð sú breyting að færri félagsmenn tóku þátt í umræðum á fundum, þannig að lítið varð úr upphaflegu markmiðinu um ræðuþjálfun. Á seinni tímum hefur aðalvettvangur fyrir þjálfun í ræðumennsku verið hinn árlegi aðalfundur félagsins. Einnig hafa félagsmenn fengið nokkra þjálfun í ræðumennsku við málflutningsæfingar.

Fljótlega færði félagið út kvíarnar og fleiri þættir komu inn í starfsemina. Þegar á öðru starfsári félagsins var farið að sýslu við ritlistina með því að byrjað var að gefa út blaðið Auctor. Tæpur tveimur áratugum síðar var byrjað að gefa út lögfræðitímaritið Úlfljót, og hefur það verið gefið út því sem næst óslitið síðan. Má telja það til afreka að félagið hafi getað haldið úti útgáfustarfsemi svo lengi. Ýmis önnur útgáfustarfsemi hefur farið fram á vegum félagsins. Margar lögfræðibækur hafa veirð gefnar út, svo og ýmis önnur kennslugögn. Einnig hefur félagið átt hlut að málum við útgáfu ýmissa bóka á vegum háskólans. Á síðari árum hefur félagið enn fremur gefið út fréttabréf, fyrst Fréttabréf Orators, síðan Grím Geitskó.

Annar þáttur sem hefur verið mjög áberandi í starfseminni lengi, eru vísindaferðirnar (nefndar „kokkteilar“). Fyrsti kokkteillinn var farin að vinnuhælinu á Litla-Hrauni. Fyrsta áratugina var einungis farið í einn kokkteil á hverju ári og þá var öllum laganemum heimiluð þátt taka í honum. Upp úr 1967 varð nokkur breyting á þessu því kokkteilum fjölgaði mjög og voru sumar ferðirnar takmarkaðar við tiltekna námsárganga. Í fyrstu var yfirleitt farið í kokkteila á Litla-Hrauni. Seinna urðu Þingvellir og Laugarvatn vinsælir staðir í þessum ferðum. Síðan var farið að heimsækja sýslumenn og bæjarfógeta um allt land. Eftir fjölgun kokkteila upp úr 1976 var farið í þá mun víðar bæði innanlands sem utan. Nú til dags er farið í kokkteila á hverjum föstudegi á meðan skólaárið stendur yfir og lögmannsstofur, ríkisstofnanir, fyrirtæki o.fl. sótt heim.

Samskipti Orators við erlenda lagastúdenta hafa verið mikil Fyrstu samskipti íslenskra laganema við norræna kollega, svo kunnugt sé, varð ferð á norrænt laganemamót í Finnlandi 1933. Þessi ferð var þó ekki farin á vegum Orators. Erlend samskipti hjá Orator hófust ekki fyrr en 1947. Hafa þau farið vaxandi síðan og eru nú mjög fjölbreytileg. Í byrjun voru erlendu samskipti félagsins einskorðuð við þátttöku í norrænum laganemamótum og heimsóknum á hátíðir norrænna laganemafélaga. Auk þess voru tekin upp stúdentaskipti við háskólann í Osló, sem stóðu í tæp tvö ár. Á árunum eftir 1955 voru tekin upp stúdentaskipti við háskóla í Bandaríkjunum og við stúdentasambandið í Þýskalandi. Aðeins var um eina heimsókn af hálfu hvors aðila að ræða í þessum stúdentaskiptum. Jafnfram þessu jukust samskipti félagsins við önnur laganemafélög á Norðurlöndum. Félagið gerðist m.a. aðili að Norræna laganemaráðinu, sem stofnað var 1964. Árið 1967 hófust stúdentaskipti milli Orators og háskólans í Glasgow; stóðu þau yfir í nokkur ár. Nokkru seinna voru tekin upp föst stúdentaskipti við Ohio Northern-háskóla í Bandaríkjunum og hafa þessi skipti haldið áfram síðan. Auk þess sem félagsmenn Orators hafa jafn og þétt sótt hátíðir laganemafélaga á hinum Norðurlöndunum. Síðasta nýbreytnin í erlendum samskiptum félagsins er aðild Orators að European Law Student Association. Nú er sérstök Íslandsdeild ELSA sem sér um þessi samskipti, óháð Orator.

Málflutningsæfingar hafa verið stór þáttur í starfsemi félagsins. Þær hófust árið 1933 og hafa síðan verið haldnar reglulega, þó með nokkur hléi eftir að starfsemi félagsins lagðist tímabundið niður árið 1935. Í fyrstu vorur það yfirleitt prófessorar við lagadeildina, sem útbjuggu málsatvikin í þessum æfingum og gagnrýndu meðferð og niðurstöðu málsins. Síðan voru utandeildarmenn einnig fengnir til þessa verks. Árið 1997 var endurvakin málflutningskeppni Orators með dyggum stuðningi prófessora við lagadeild. Keppnin skal haldin annað hvert ár.

Árið 1933 hóf félagið að veita ókeypis lögfræðiaðstoð fyrir efnalítið fólk. Þessi starfsemi hefur líklega lognast út af í kringum 1935. Þráðurinn var þó tekinn upp að nýju árið 1981 og hefur lögfræðiaðstoð Orators starfað síðan.

Eins merks þáttar í starfsemi félagsins er enn ógetið en það er útvarps- og sjónvarpsþáttagerð félagsins. Fyrsti útvarpsþátturinn gerði félagið árið 1958. Í þeim útvarpsþáttum, sem Orator hefur gert hefur félagið ýmist kynnt laganám á Íslandi, tekið fyrir fræg dómsmál eða fjallað um sérstök lögfræðileg viðfangsefni. Sjónvarpsþættir félagsins, sem nefndir hafa verið Réttur er settur, hafa allir verið með svipuðu sniðu. Fyrsti sjónvarpsþátturinn var sýndur árið 1967.

Lögbergsdómur er dómsalur laganema, sem staðsettur er á annarri hæð í Lögbergi. Dómsalurinn var formlega tekinn í notkun hinn 28. mars 2007. Frumkvæði að framkvæmdum við salinn áttu þáverandi framkvæmdastjórar Úlfljóts, Einar Björgvin Sigurbergsson og Jóhannes Eiríksson, en þeir sáu og um öflun styrkja vegna verkefnisins.

Ýmislegt annað hefur verið starfað á vegum félagsins. Félagið hefur haldið fjölbreytileg námskeið, svo sem í ræðumennsku og fundarsköpum, lögmannsstörfum og skattarétti. Einnig hefur félagið gengist fyrir seminörum, þar sem fjallað hefur verið um margvísleg máleni. Þá hafa önnur fundahöld, svo sem fræðslufundir verið þáttur í starfsemi félagsins. Þá hafa félagsmenn starfað nokkuð að kennslumálum, meðal annars með setu fulltrúa félagsins á deildarfundum og í námsnefnd lagadeildar og störfum hagsmunadeildar félagsins. Orator hefur gengist fyrir íþróttaiðkun á meðal félagsmanna sinna með því að halda ýmiss konar íþróttamót.

Úlfljótur[breyta | breyta frumkóða]

Úlfljótur er tímarit laganema og hefur verið gefið út lengst allra tímarita við Háskóla Íslands. Fyrsta tölublað þess leit dagsins ljós í lok febrúarmánaðar árið 1947. Frá þeim tíma hefur tímaritið verið gefið út á hverju ári, að undanskildu árinu 1951, og orðið efnismeira með hverju árinu sem líður.

Í Úlfljóti er að finna vandaðar greinar um íslenska sem og alþjóðlega lögfræði auk þess sem þar er að finna umfjöllun um það sem er efst á baugi í lögfræði hverju sinni. Þar eru m.a. reifaðir nýjustu dómar Hæstaréttar, fjallað um ný fræðirit á sviði lögfræði og greint frá helstu tíðindum sem berast frá Alþingi svo fátt eitt sé nefnt. Í tímaritinu eru og fluttar fregnir af hinu stranga og áhugaverða laganámi sem og hinu viðburðaríka starfi félagsstarfi Orators og Úlfljóts. Flestir höfundar eru lögfræðingar eða laganemar en auk þeirra hafa fjölmargir aðrir, sem láta sig lögvísindi varða, ritað greinar í Úlfljót.

Á hverju ári eru gefin út fjögur tölublöð og er hægt er að gerast áskrifandi að Úlfljóti með því að styðja á þar til gerðan hnapp á vefsíðu Úlfljóts, www.ulfljotur.is.

Lögbergsdómur[breyta | breyta frumkóða]

Lögbergsdómur er staðsettur er á annarri hæð í Lögbergi. Dómsalurinn var formlega tekinn í notkun hinn 28. mars 2007. Frumkvæði að framkvæmdum við salinn áttu þáverandi framkvæmdastjórar Úlfljóts, Einar Björgvin Sigurbergsson og Jóhannes Eiríksson, en þeir sáu og um öflun styrkja vegna verkefnisins. Þau félög sem styrki veittu voru Landsbankinn, ESSÓ, Hollvinafélag lagadeildar og dómsmálaráðuneytið.

Í dómsalnum hefur og aðsetur sérstakur dómstóll laganema við Háskóla Íslands, er ber sama heiti og salurinn sjálfur, þ.e. Lögbergsdómur. Frumkvæði að stofnun dómstólsins var einnig í höndum Einars Björgvins og Jóhannesar, en stofnunin var samþykkt með breytingu á lögum Orators hinn 3. apríl 2007. Hefur verið vísað í dómstólinn sem „þriðja stoðin“ í félagslífi laganema ásamt Úlfljóti, tímariti laganema, og Orator, félag laganema.

Stjórn Orators[breyta | breyta frumkóða]

Stjórn félagsins skipa sjö laganemar við Háskóla Íslands: formaður, varaformaður, ritstjóri Úlfljóts, funda- og menningarmálastjóri, gjaldkeri, alþjóðaritari og skemmtanastjóri.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Orator“.
  • „Úlfljótur“.