Ora (matvælaframleiðandi)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ora)

Ora er íslenskur matvælaframleiðandi. Fyrirtækið var stofnað árið 1952 til þess að selja niðursoðnar fiskafurðir. Nafnið Ora er latína og þýðir strönd en þar er vísað til hafsins og þeirra afurða sem fyrirtækið framleiðir. Ora selur bæði vörur á íslenskum markaði og erlendis.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Kjöt og rengi[breyta | breyta frumkóða]

Arnljótur Guðmundsson lögfræðingur og Tryggvi Jónsson stofnuðu árið 1951 saman fyrirtækið Kjöt og rengi um vinnslu á hvalkjöti og rengi, eins og nafnið bendir til. Tryggvi hafði margháttaða reynslu af lagmetisiðnaði og hafði meðal annars starfað hjá Rækjuverksmiðju Ísafjarðar sem var ein fyrsta slíka verksmiðjan hér á landi.

Hvalkjötið var skorið í hvalstöðinni í Hvalfirði og yngsta og besta kjötið hirt fyrir innanlandsmarkað. Annað var selt til Japan. Auk þess að selja kjötbita voru unnar hvalapylsur, hvalskjötfars og hvalsblóðmör úr afurðunum, auk lifrarkæfu sem m.a. var seld á sovéskan markað. Mikið magn af rengi féll til við verkunina og var það selt um land allt. Sú framleiðsla fyrirtækisins hélt áfram fram á áttunda áratuginn.

ORA[breyta | breyta frumkóða]

Tryggvi Jónsson hafði samhliða hvalkjötsvinnslunni unnið hjá niðursuðuverksmiðju SÍF. Árið 1952 var rekstur hennar seldur og hætti Tryggvi þá störfum. Hann ákváð þá að stofnsetja sína eigin niðursiðuverksmiðju. Hún hlaut nafnið ORA að tillögu Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi. Arnljótur Guðmundsson fylgdi Tryggva inn í hið nýja fyrirtæki ásamt fleirum og nefndist það fullu nafni ORA - kjöt og rengi þótt seinni hluti nafnsins vildi með tíð og tíma gleymast.

ORA hefur frá upphafi verið starfrækt í Kópavogi. Það sinnti bæði innanlandsmarkaði með kjöt- og fiskafurðum og grænmeti og útflutningsmarkaði með ýmsum fiskafurðum.

Ein helsta útflutningsafurð ORA var lengi murta úr Þingvallavatni. Sá fiskur hafði áður verið saltaður, en um 1940 hafði niðursuða hafist á vegum SÍF. ORA tók við þeirri framleiðslu snemma á sjötta áratugnum og fór veiðin allt upp í 80 tonn á einu ári. Var murtan seld sem lúxusvara en fór með tímanum halloka fyrir ódýrari fisktegundum á borð við regnbogasilung.

Annað dæmi um vöruþróun fyrirtækisins eru krabba- og humarsúpurnar sem notið hafa vinsælda. Krabbasúpurnar voru unnar úr kröbbum sem veiddust við Ísland en höfðu lítið sem ekkert verið nýttir og aðalhráefnið í humarsúpunum eru humraklær sem áður var hent í sjóinn.

Tilvísanir og heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Högni Torfason (án ártals). Sama lagmetisiðnaðarins. Sölustofnun lagmetis.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]