Ofurhetjusaga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa tímaritsins Captain Marvel frá 1942.

Ofurhetjusaga er skáldskapargrein sem fæst við sögur um grímuklæddar ofurhetjur sem oft búa yfir ofurkröftum og glíma við ofurillmenni. Ofurhetjusögur eru sérstök grein spáskáldskapar og sækja fyrirmyndir sínar til goðsagna. Fyrirrennarar ofurhetjusagna nútímans eru þannig sögur um Gilgames, Herkúles, Davíð konung og Hanúman. Eldri söguhetjur sem notast við grímubúninga og búa yfir nánast ofurmannlegum kröftum eru til dæmis Skuggi, Tarsan, Flash Gordon og Zorró. Fyrsta dæmið um orðið „ofurhetja“ er að finna í myndasögum Jerry Siegel og Joe Shuster um Ofurmennið (upphaflega þýtt sem „Kjarnorkumaðurinn“ á íslensku) árið 1938. Ofurmennið kom fyrst fram með margt af því sem síðan hefur einkennt ofurhetjur, eins og leynilegt hliðarsjálf, ofurkrafta og litríkan búning með skikkju. Í kjölfar vinsælda Ofurmennisins gáfu DC Comics út fjölda myndasagna um ólíkar ofurhetjur næstu árin. Fjöldi annarra fyrirtækja stökk á sama vagn, þar á meðal Timely Comics sem síðar varð Marvel. Ofurhetjusögur nutu mikilla vinsælda í Síðari heimsstyrjöld. Á 6. áratugnum tóku ofurhetjusögur breytingum, meðal annars undir áhrifum frá vísindaskáldskap á tímum Kalda stríðsins og á 8. áratugnum urðu andhetjur vinsælar og meiri áhersla var lögð á tilfinningalega dýpt.

Þekktustu ofurhetjurnar koma frá Bandaríkjunum, en nokkrar vinsælar ofurhetjusögur hafa orðið til annars staðar, meðal annars í Bretlandi, Indlandi og Japan. Þótt ofurhetjusögur séu aðallega tengdar myndasögum og myndasögutímaritum, hafa þær verið lagaðar að alls konar miðlum, sem kvikmyndir, sjónvarpsþættir, útvarpsþættir og skáldsögur. Dæmi um frægar ofurhetjur eru Ofurmennið, Leðurblökumaðurinn, Kóngulóarmaðurinn, Ofurkonan, Hulk og Kattarkonan. Árið 1960 tók DC Comics upp á þeirri nýjung að setja nokkrar ofurhetjur saman í hópinn Justice League. Síðan þá hefur fjöldinn allur af ofurhetjuteymum komið fram, eins og Avengers, X-men og Watchmen.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.