Oddur Eyjólfsson
Oddur Eyjólfsson (um 1632 – 1702) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan prestur í Holti undir Eyjafjöllum frá 1668 til dauðadags og prófastur í Rangárþingi frá 1692.
Oddur var sonur Eyjólfs Narfasonar bónda á Hurðarbaki og Þorláksstöðum í Kjós og konu hans Ragnheiðar Oddsdóttur, dóttur séra Odds Oddssonar á Reynivöllum, og hét Oddur eftir honum. Foreldrar hans voru ekki auðug og áttu mörg börn en synir þeirra komust þó sumir til mennta. Einn þeirra var Jón Eyjólfsson varalögmaður. Brynjólfur Sveinsson biskup lét Odd njóta nafnsins, veitti honum ölmusu í skóla, tók hann í sína þjónustu og kostaði hann til náms við Kaupmannahafnarháskóla í tvo vetur. Þegar Svíar sátu um Kaupmannahöfn 1659-1660 gekk Oddur í herþjónustu og gat sér gott orð. Fékk hann síðan konungsbréf um að hann ætti annaðhvort að fá gott prestsembætti þegar það losnaði eða skólameistaraembættið í Skálholti.
Árið 1661 var skólameistaraembættið í Skálholti laust eftir að Gísli Einarsson var orðinn prestur á Helgafelli. Þrír menn vildu fá embættið, Oddur, Einar Torfason, síðar prestur á Stað í Steingrímsfirði, sem hafði konungsbréf um að hann yrði skipaður skólameistari þegar embættið losnaði og hafði einnig verið í herþjónustu, og Ólafur Jónsson, heyrari við skólann og síðar skólameistari. Hann var heldur yngri en hinir tveir en þó ekki minna lærður og hætti hann við að sækja um embættið. Brynjólfur biskup ákvað að hinir tveir skyldu keppa um hvor þeirra væri lærðari en Einar hætti við, líklega þó frekar af því að hann vissi að Brynjólfur kaus helst að fá Odd í starfið. Varð Oddur því skólameistari og gegndi því starfi til 1667, en þá varð hann prestur í Holti og gegndi því starfi til dauðadags 1702. Hann var mikils metinn prestur, orðlagður lærdómsmaður og vel að sér í stjörnufræði og sönglist. Hann var hraustmenni mikið.
Fyrri kona séra Odds var Hildur þorsteinsdóttir, dóttir séra Þorsteins jónssonar í Holti, sonar séra Jóns píslarvotts í Vestmannaeyjum, sem drepinn var í Tyrkjaráninu 1727. Þrír synir þeirra urðu prestar en önnur börn þeirra dóu í Stórubólu. Seinni kona Odds var Margrét Halldórsdóttir frá Hruna og voru þau barnlaus. Oddur var þriðji maður Margrétar.