Notandi:Gpalsson/sandbox
Fræðasetur skáta Úlfljótsvatni
[breyta | breyta frumkóða]Félagið „Fræðasetur skáta Úlfljótsvatni“ var stofnað í september 2013. Félagið er öllum opið og eru skátar, áhugafólk, stofnanir og fyrirtæki hvött til þess að ganga til liðs við þetta félag og til að leggja því lið.
Markmið og leiðir
[breyta | breyta frumkóða]Grundvallarhugmyndin að baki félagsins er að skapa nýjar leiðir fyrir skáta til að hasla sér frekari völl á eigin jörð við Úlfljótsvatn og nágrenni með því að byggja upp öflugt samstarf við nágranna og hagsmunaaðila og taka með ábyrgum hætti þátt í uppbyggingu svæðisins í heild sinni. Virk þátttaka skáta sem lögaðila á svæðinu skapar fjölmörg tækifæri og þessari hugmynd er ætlað að styðja við uppbyggingu á sviði fræðslu, ferðaþjónustu og atvinnuuppbyggingar.
Leiðirnar að þessu markmiði eru meðal annars þessar:
- Að byggja upp bókasafn með útgefnu efni um skátastarf hérlendis og erlendis.
- Að safna skátamunum og minjum til varðveislu og sýningar.
- Að byggja upp bókakost og fræðsluefni með staðbundnum fróðleik frá Úlfljótsvatni og nánasta nágrenni. Áhersla verður lögð á sögu og náttúru svæðisins.
- Að byggja upp bókakost og fræðsluefni um orku og umhverfismál.
- Að bjóða rannsóknaraðstöðu fyrir fræðimenn og áhugafólk sem vilja vinna að verkefnum í tengslum við efnisáherslur fræðasetursins.
- Að standa fyrir sýningum, fyrirlestrum og viðburðum.
- Að vinna með skólayfirvöldum á öllum skólastigum að verkefnum sem tengjast námi í þeim greinum sem fræðasetrið sérhæfir sig í.
- Að kynna Úlfljótsvatn og nágrenni þess sem áhugavert útivistarsvæði fyrir almenning.
- Að verða samstarfsvettvangur Útilífsmiðstöðvar skáta, Landsvirkjunar, Grímsness- og Grafningshrepps, aðila í ferðaþjónustu og annarra hagsmunaaðila á svæðinu til góðra verka.
- Að efla atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
Aðdragandi
[breyta | breyta frumkóða]Vorið 2012 tóku félagar úr skátaflokknum Smiðjuhópurinn, fyrir hönd Bandalags íslenskra skáta, að sér að setja upp sýninguna „UNDRALAND – minningar frá Úlfljótsvatni“ en verkefnið var hluti af þeim viðburðum sem skipulagðir voru í tilefni af 100 ára afmæli skátastarfs á Íslandi.
Verkefninu lauk formlega í byrjun árs 2013 en á þeim tímamótum barst ósk frá Landsvirkjun þess efnis að halda samstarfinu áfram. Var þessi beiðni grundvölluð á góðu samstarfi við skáta og vilja Landsvirkjunnar til að treysta enn frekar böndin við góða nágranna Sogsvirkjana.
Í kjölfarið var ráðist í að endurskipuleggja sýningarsvæðið að hluta og var sýning um alþjóðastarf skáta sett upp í öðrum sýningarsalnum. Sýningin var opin alla daga vikunnar í sumarið 2013. Sumarstarfsfólk Landsvirkjunnar stóð vaktina á virkum dögum en félagar úr Smiðjuhópnum önnuðust alla undirbúningsvinnu og tóku vaktirnar allar helgar og annan hvern föstudag frá byrjun júní til loka ágústmánaðar. Á tímabilinu 2012-2013 sóttu um 7.000 gestir sýninguna og var þetta viðamesta sýning um sögu skátastarfs á Íslandi sem sett hefur verið upp. Við framkvæmd sýningarinnar kviknaði sú hugmynd innan hópsins að setja af stað verkefni sem fékk heitið „Fræðasetur skáta Úlfljótsvatni“.
Húsnæði
[breyta | breyta frumkóða]Landsvirkjun styður við bakið á Fræðasetrinu meðal annars með þeim hætti að leggja setrinu til húsnæði. Haustið 2013 fékk starfsemin afnot af húsi sem áður þjónaði sem íbúðarhús stöðvarstjóra. Sjálfboðaliðar hafa unnið að endurbótum á húsnæðinu og er áætlað að þeim endurbótum verði lokið í febrúar 2014 og í kjölfarið getið starfsemi hafist.
Áherslur í efnistökum
[breyta | breyta frumkóða]Fræðasetur skáta á Úlfljótsvatni mun leggja áherslu á fjóra megin efnisþætti í starfsemi sinni:
- Orkan & umhverfið
- Náttúran
- Sagan
- Skátarnir
Orkan & umhverfið
[breyta | breyta frumkóða]Sogið fellur úr Þingvallavatni, stærsta stöðuvatni Íslands, 83km2. Afrennsli vatnsins er til suðurs um Efra-Sog í Úlfljótsvatn. Neðan Úlfljótsvatns eru þrír fossar, Ljósifoss, Írafoss og Kistufoss. Sogið er vatnsmesta lindá landsins og kemur vatnið aðallega úr uppsprettum á botni Þingvallavatns. Í Soginu eru þrjár aflstöðvar Landsvirkjunar; Ljósafossstöð (1937), Írafossstöð (1953) og Steingrímsstöð (1959).
Nálægð fræðasetursins við þessar aflstöðvar gefur því einstakt tækifæri til að fræða gesti um orku, orkunýtingu og umhverfismál með áherslu á nýtingu orkulinda með sjálfbærum hætti, með tilliti til áhrifa á efnahag, samfélag og umhverfi.
Náttúran
[breyta | breyta frumkóða][1]Gróðurfar er fjölbreytt og lífríki vatnsins margþætt. Kunnugt er um nærri 70 fuglategundir við vatnið. Úlfljótsvatn er á skrá Alþjóða fuglaverndarsamtakanna (BirdLife International) um „alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði”, sérstaklega vegna fjölbreytts fuglalífs að vetrarlagi. Svæðið er eitt þriggja bestu ferskvatnsfuglasvæða Íslands og er af þeim sökum á Náttúruminjaskrá.
Á Úlfljótsvatni og Sogi dvelja þrjár fuglategundir, sem erlendir fuglaskoðarar sækjast sérstaklega eftir, himbrimi[2], straumönd[3] og húsönd. Þær verpa hvergi í Evrópu nema hérlendis og Sogið er sá staður næst Reykjavík, þar sem hægt er að ganga að þeim öllum vísum á varptíma og eini staðurinn þar sem húsönd heldur til á suð-vesturlandi.
Fræðasetrið mun leggja kapp á að gera þessari fjölbreyttu náttúru góð skil.
Sagan
[breyta | breyta frumkóða]Úlfljótsvatn og nágrenni eru merkilegar söguslóðir og mun fræðasetrið leggja sig fram um að safna og kynna efni sem tengist sögu svæðisins. Jörðin Úlfljótsvatn hefur verið fornleifaskráð [4]og fundist yfir 90 fornleifar á 68 stöðum á jörðinni sjálfri. Má þar nefna kuml í hólmanum Torfnes, rétt sunnan við þann stað þar sem Sogið rennur út í Úlfljótsvatn.
- Af gerð forngripanna sem fundust í kumlinu má fullyrða að það sé síðan snemma á 10. öld. Þarna voru fullorðinn maður og ungur drengur, 6-8 ára, grafnir.
- Enginn fornmaður sem hefur enn verið grafinn upp hér á landi, hefur verið eins ríkmannlega búinn og þessi. Í kumlinu fundust t.d. leðurbelti með bronssilgju, sverð úr silfri og bronsi, tvenn spjót, 6 örvar, bardagaöxi fatapjötlur úr fínu vaðmáli, hönk af silfurvír, fjórir tinnumolar, krókstjaki, tveir skildir, hnífur og svo mætti lengi telja. Af manninum varðveittust lítilfjörlegar beinaleifar og tvær mjólkurtennur fundust úr drengnum. Í kumlinu hafði einnig verið um 3 metra langur bátur og 80 sentimetra breiður.
- Ýmsar kynjaverur virðast hafa haldið sig í og við Úlfljótsvatn. Í Suðra II[5] er eftirfarandi lýsingu að finna: "Í nóvember árið 1929 sást skrímsli eða vatnakind í Fjósavík sunnan við bæinn á Úlfljótsvatni. Hringsólaði skrímslið í víkinni. Voru þrjú horn eða uggar upp úr bakinu og um 2 metrar á milli þeirra. Var það að hringsóla þarna part úr degi. Hugðust menn fá meiri vitneskju um hvaða skepna þetta væri. Fóru þá tveir menn á báti með net og hugðust leggja það fyrir og króa það inni. Annar maðurinn var unglingur og var hálfhræddur og fór að henda í það. Kom þá styggð að dýrinu, svo það stakk sér niður og hvarf þar með sjónum." Engin skýring hefur fengist á þessu fyrirbæri.
Skátarnir
[breyta | breyta frumkóða]Skátar hófu starfssemi sína á Úlfljótsvatni 1941 og hafa byggt staðinn upp smám saman frá þeim tíma. Þannig hefur Úlfljótsvatn verið um áratuga skeið aðal útivistarbækistöð skáta á Íslandi. Þar hafa skátar m.a. haft aðstöðu fyrir foringjaþjálfun, skátamót og sumarbúðir. Fræðasetrið hefur það að markmiði að tengja saman starfsemi Útilífsmiðstöðvar skáta Úlfljótsvatni og fræðasetursins í því skyni að efla starf miðstöðvarinnar í gegnum sameiginleg verkefni og nýsköpun.
Fræðasetrið hefur einnig að markmiði að byggja upp bókakost með útgefnu efni um skátastarf, bæði innlendu og erlendu efni og er stefnt að því að safnið verði einstakt í sinni röð á heimsvísu. Annars vegar fyrir það að ná saman á einn stað sem mestu af því efni sem gefið hefur verið út hérlendis og gera það aðgengilegt og hins vegar fyrir að verða innan fárra ára eina bókasafnið í heiminum sem hefur að geyma yfirlitssafn útgefins efnis allra starfandi skátabandalaga í heiminum.
Nánari upplýsingar
[breyta | breyta frumkóða]Fræðasetur skáta Úlfljótsvatni Hraunbær 123 IS-110 Reykjavík Kennitala: 6009132120 Sími: 550 9800 Netfang: skatar@skatar.is
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Jóhann Óli Hilmarsson. „Fuglar í landi Úlfljótsvatns II“ (PDF). Sótt 3. febrúar 2014.Náttúra og lífríki Úlfljótsvatns er afar fjölbreytt.
- ↑ https://is.wikipedia.org/wiki/Himbrimi
- ↑ https://is.wikipedia.org/wiki/Straumönd
- ↑ Bjarni F. Einarsson. „Aðalskráning fornleifa vegna aðalskipulags í landi Úlfljótsvatns í Grafningshreppi í Árnessýslu“ (PDF). Sótt 01.02. 2014.
- ↑ Ferlir.is. „Ölfusvatn - Skinnhúfuhellir - Fjárhellir - Fjárborg - Letursteinn“. Sótt 2. febrúar 2014.
Þessi grein byggir á gögnum sem fengin voru frá stjórn Fræðaseturs skáta Úlfljótsvatni og viðtali við Gunnar Atlason, fjármálastjóra fræðasetursins.
Aðrar helstu heimildir:
[breyta | breyta frumkóða]Vefsíðan Ferlir.is Aðalskráning fornleifa vegna aðalskipulags í landi Úlfljótsvatns í Grafningshreppi í Árnessýslu Jóhann Óli Hilmarsson, 2005: Fuglar í landi Úlfljótsvatns II[1]
- ↑ Jóhann Óli Hilmarsson. „Fuglar í landi Úlfljótsvatns II“ (PDF). Sótt 2. febrúar 2014.