Nikulásarkirkjan í Stralsund

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Nikulásarkirkjan er aðeins með eina turnspíru

Nikulásarkirkjan stendur við gamla markaðstorgið í þýsku borginni Stralsund og er elst af hinum þremur stóru kirkjum borgarinnar og er jafnframt aðalkirkjan. Turnarnir eru tveir, en aðeins einn þeirra er með spíru. Því er ásýnd kirkjunnar svolítið einkennileg. Í kirkjunni eru ýmsir verðmætir munir.

Saga Nikulásarkirkjunnar[breyta | breyta frumkóða]

Borgarstjóraaltarið

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Nikulásarkirkjan var reist, en sennilega var hún reist í kjölfarið af því er floti frá Lübeck eyddi Stralsund 1249. Kirkjan kemur fyrst við skjöl 1270 og var þá enn turnlaus. Um 1300 var hafist handa við að reisa turn við kirkjuna, en 1314 var ákveðið að turnarnir skyldu vera tveir. Kirkjan sjálf var ekki fullreist fyrr en um miðja 14. öld og helguð heilögum Nikulási, sem er verndardýrlingur sæfarenda. Efri hlutar turnanna voru gerðir úr viði. Mikið gekk á í siðaskiptunum í snemma á 16. öld. Fyrstu lútersku predikararnir héldu ræður í kirkjunni 1524 og leysti það siðaskiptin úr læðingi í borginni. Kaþólsku prestarnir sem predikuðu í kirkjunni voru oft úthrópaðir og eitt sitt var einn presturinn togaður niður úr predikunarstólnum og barinn. Stuttu seinna réðist múgur inn í kirkjuna og eyðilagði ölturu, en þau voru hvorki meira né minna en 56 á kaþólska tímanum. Eftir þetta varð kirkjan lútersk og er hún það enn. 1662 brunnu báðir turnarnir. Ári síðar var sett spíra á suðurturninn, en aðeins flatt þak á norðurturninn. Þetta fyrir komulag hélst til dagsins í dag og gefur það kirkjunni sérkennilegt útlit. Kirkjan er 103 metra há. Í loftárásum 1944 skemmdist kirkjan nokkuð, en var lagfærð 1947.

Ölturu[breyta | breyta frumkóða]

Altaristaflan við aðalaltarið er 12 metra há og er skreytt með rúmlega 100 styttum. Þær sýna myndefni úr Nýja testamentinu. Til hliðar eru tvær hreyfanlegar aukatöflur. Talið er að altarið sé frá upphafi 14. aldar. Eitt sinn voru 56 ölturu í kirkjunni, en mörg þeirra skemmdust í siðaskiptunum. Þó eru í kirkjunni nokkur gömul ölturu sem hafa varðveist og eru þau öll úr viði.

Önnulíkneski[breyta | breyta frumkóða]

Önnulíkneskið
Stjörnuúrið í kirkjunni er það elsta við Eystrasalt

Anna selbdritt er heiti á styttu af Önnu, móður Maríu mey. Styttan er 2,24 metra há og er hún elsta myndastyttan í Stralsund. Hún kemur fyrst við skjöl 1307. Anna situr á háu sæti og heldur á barni sínu, Maríu. María sjálf hélt upphaflega á Jesúbarninu, en höfuð barnsins er brotið og týnt. Brjóst Önnu er holt. Þar var áður fyrr geymt helgiskrín, sem var eyðilagt í siðaskiptunum 1525.

Stjörnuúr[breyta | breyta frumkóða]

Bak við altaristöfluna stóru stendur stjörnuúr. Það var smíðað 1394 og er elsta slíka úrið við Eystrasalt. Úrið sjálft er 4 metra hátt og 3,5 metra breitt. Úrið sýnir tímann og dýrahringinn. Það stoppaði 10. apríl 1525, mitt í siðaskiptunum. Borgarráði fannst of dýrt að láta gera við það og þannið hefur úrið staðið allar götur síðan. Í dag er óttast að viðgerð muni eyðileggja gamla hluti í úrverkinu. Í sérhverju horni við úrskífuna eru fígúrur. Þær sýna Ptólemeus, Alfons X konung Kastilíu (Spánar), stjörnufræðinginn Hali og stjörnufræðinginn Albumazar. Á hliðinni er mynd af persónu sem talinn er vera Nicolaus Lillienveld, úrsmiðurinn. Það er þá elsta mynd af úrsmiði í heiminum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „St.-Nikolai-Kirche (Stralsund)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist