Fara í innihald

Nauteyri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nauteyri er jörð og gamall kirkjustaður á Langadalsströnd í fyrrum Nauteyrarhreppi í Ísafjarðardjúpi. Jörðin er núna í eigu Hraðfrystihússins-Gunnvör hf sem keypti jörðina árið 2014 fyrir 30 milljónir af sveitarfélaginu Strandabyggð. Á jörðinni er laxeldi, þar er seiðaeldisstöð og þar er heitt vatn í jörðu. Seiðaeldisstöðin var upprunalega laxeldisstöð Íslax sem reist var 1984-85. Íslax náði að selja seiði til Noregs á fyrstu 2 árum starfseminar. Offramboð á laxi á mörkuðum og ofjárfesting í uppbyggingu laxeldis í Reykjanesi leiddi til gjaldþrots Íslax. Starfsemi fiskeldis hélt þó áfram til dagsins í dag. Jörðin er talin vera um 5.500 hektarar og á nánast allt land frá fjöruborði milli Þverár og Hafnardalsár allt til vatnaskila á Ófeigsfjarðarheiði. Á jörðinni eru mörg stöðuvötn, meðal annars Skúfnavötn og Mávavötn.

Nauteyrarkirkja eru bárujárnsklædd timburkirkja sem var reist árið 1885 en þá var sóknarkirkjan flutt til Nauteyrar frá Kirkjubóli í Langadal þar sem hún hafði verið í margar aldir. Bárujárnsklæðningin er frá 1985 þegar kirkjan var gerð upp á 100 ára afmæli hennar. Girðing og upphleðsla á kirkjugarði voru gerð árid 1993, einnig var kirkjan máluð þá. Meðal kirkjumuna er kaleikur frá 1750 eftir Sigurð Þorsteinsson silfursmið í Kaupmannahöfn. Ekki er hægt að taka nema grunnar grafir í kirkjugarðinum og er jarðvegur aðfluttur og leiðin óvenjuhá. Nauteyrarkirkja er í Hólmavíkurprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi.

Árið 1683 var Sveinn Árnason dæmdur sekur fyrir galdra á Nauteyri en prófasturinn Sigurður Jónsson mun hafa talið hann valda veikindum prófastfrúarinnar Helgu en hún var dóttir Páls Björnssonar í Selárdal. Sveinn var brenndur á Nauteyri eða í Arngerðareyrarskógi. Það var síðasta galdrabrenna á Íslandi og markar lok brennualdar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.