Fara í innihald

Nútíðarhyggja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nútíðarhyggja í heimspeki er kenning um tímann sem felur í sér að einungis nútíðin sé til en framtíðin og fortíðin séu ekki til í sama skilningi. Andstæð nútíðarhyggju er eilífðarhyggja sem er sú kenning að liðinn tími jafnt sem ókominn tími sé til í sama skilningi og núið. Önnur kenning (sem fáir heimspekingar hafa haldið fram) er svokölluð vaxtarhyggja um tímann. Samkvæmt henni eru fortíðin og nútíðin til en ekki framtíðin. Nútíðarhyggja er samrýmanleg galileiskri afstæðiskenningu, þar sem tíminn er óháður rúminu, en sennilega ósamrýmanleg afstæðiskenningum af því tagi sem Hendrik Lorentz og Albert Einstein settu fram.

Ágústínus kirkjufaðir líkti nútíðinni við hníf sem sker á milli fortíðar og framtíðar og benti á að núið gæti ekki náð yfir tímabil. Þetta virðist liggja í augum uppi, því ef núið næði yfir eitthvert tímabil, þá hlyti það að hafa aðskilda hluta; en hlutarnir yrðu allir að vera til samtímis ef þeir ættu allir að teljast til núsins. Fornir heimspekingar töldu að líðandi stund gæti ekki verið um leið liðinn tími. Þar af leiðandi næði núið ekki yfir neitt tímabil. Sumir heimspekingar leggja til, gegn Ágústínusi, að meðvituð upplifun nái yfir tímabil. William James sagði til dæmis að tíminn væri „sú stutta líðandi stund sem við hefðum beina og ótrúflaða upplifun af“. Ágústínus hélt því fram að guð væri handan tímans og væri til staðar á öllum tímum, í eilífðinni. Hefði James á réttu að standa, þá væri guð í okkur öllum samkvæmt Ágústínusi.

Samkvæmt heimspekingnum J. M. E. McTaggart eru tvær leiðir til að vísa til atburða: „A serían“ og „B serían“. Síðari tíma heimspekingar álíta nútíðarhyggju fela í sér þá trú að einungis „A serían“ sé til, og nútíðarhyggjumenn halda því yfirleitt fram að það sé ekkert vit í öðru en að vísa til atburða með fullyrðingum sem hafa ákveðna tíðarmerkingu.

Samkvæmt nútíma afstæðiskenningum er hugtakalegur athugandi rúmfræðilegur punktur í bæði tíma og rúmi, við oddinn á ljóskeilu sem sér atburði gerast bæði í tíma og rúmi. Athugandi sér mismunandi atburði gerast samtímis miðað við hreyfingu athugunarpunktsins. Kenningin styðst við þá hugmynd að tíminn nái yfir eitthvert bil og hefur verið staðfest með tilraunum. Á hinn bóginn nær hugtakalegi athugandinn ekki yfir neitt bil, hvorki í tíma né rúmi, þar sem hann er rúmfræðilegur punktur við upphaf ljóskeilunnar, enda þótt viðfang athugunarinnar nái yfir tímabil. Þessi greinin felur í sér þverstæðu þar sem hugtakalegi athugandinn inniheldur ekkert, þótt raunverulegur athugandi þurfi að hafa rúmtak og ná yfir tímabil og vera þar með viðfang athugunar til þess að geta verið til. Þverstæðan er að hluta til leyst í afstæðiskenningunni með því að skilgreina tilvísunarramma þannig að hann nái utan um tækin sem athugandinn notar.

„Hvað er tími?“. Vísindavefurinn.