Al-Khwarizmi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af al-Khwarizmi á sovésku frímerki.

Abu Ja'far Muhammad ibn Musa (persneska أبو عبد الله محمد بن موسى خوارزمي), betur þekktur sem al-Khwarizmi (uppi um 800 e. Kr.) var persneskur stærðfræðingur í Khorasan, Íran, en hann kom frá bænum Kowarzizm (og nafn hans er dregið af því: Al-Khwarizmi þýðir „frá bænum Kowarzizm“) sem nú er þekkt sem Khiva í Úzbekístan. Hann var meðlimur í „Húsi Viskunnar“, nokkurs konar skóla vísindamanna í Baghdad. Hann er höfundur tveggja rita um reikning og algebru.

Orðið „algorithm“ (algóritmi, reiknirit) er dregið af nafni hans (al-Khwarizmi), sem kom fyrir í titli annarrar bókarinnar. Í þeirri bók er meðal annars að finna lýsingu á indversk-arabíska talnakerfinu, sem notað er í dag. Hin bókin hét Kitab al-jabr wa'l muqabalah og af nafni hennar er komið orðið algebra (frá al-jabr). Í því riti er til dæmis lýst aðferð til að leysa annars stigs jöfnur, sem líkist þeirri aðferð, sem nú er kölluð að fylla í ferninginn (enska: completing the square).