Fara í innihald

Moskan í Reykjavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Moskan í Reykjavík í Ármúla

Moskan í Reykjavík er íslömsk moska sem er í Reykjavík á Íslandi. Moskan var stofnuð árið 2002 að frumkvæði Félags múslima á Íslandi.

Starfsemi[breyta | breyta frumkóða]

Félag múslima á Íslandi greiðir fyrir rekstur moskunnar í Reykjavík. Í moskunni eru föstudagsbænir eða djúma og líka bænir að nóttu til. Salmann Tamimi frá Palestínu var imam moskunnar og formaður félagsins þar til hann lést árið 2020.[heimild vantar][1]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2000 fór félagið þess á leit við borgarstjórn Reykjavíkur að félaginu yrði úthlutað lóð til byggingar mosku, skv. 5. gr. laga um Kristnisjóð o.fl.[2]. Árið 2006, þegar lóðinni hafði enn ekki verið úthlutað, hafði bandaríska utanríkisráðuneytið uppi efasemdir um að töfin ætti sér lögmætar skýringar.[3] Árið 2007 gerði Evrópuráðið gegn kynþáttamisrétti (ECRI) athugasemd við að lóðinni hefði enn ekki verið úthlutað.[4] Athugasemdirnar voru ítrekaðar í landsskýrslu ráðsins árið 2012.[5] Reykjavíkurborg úthlutaði loks lóð til byggingar moskunnar árið 2013, þegar einnig var gert ráð fyrir henni í nýju aðalskipulagi. Lóðin er við Suðurlandsbraut og árið 2019 var gefið leyfi fyrir tæplega 700 fermetra byggingu. [6]

Deilur[breyta | breyta frumkóða]

Í júní 2012 var bréfi dreift í hús í grennd við fyrirhugaða lóð undir mosku, með yfirskriftinni „Mótmælum mosku á Íslandi“. Samkvæmt lýsingu var í síðuhaus „mynd af mosku með hauskúpu í forgrunni og blóð rennur út um munn hauskúpunnar“.[7]

Í júlí 2013 fjallaði Morgunblaðið um hópinn „Mótmælum mosku á Íslandi“ sem stofnaður hafði verið á Facebook og tæplega 2.000 manns höfðu þá „líkað“ við.[8] Skömmu síðar greindi Vísir frá því að fólk hefði verið hvatt til að „líka“ við síðuna á alþjóðlegu spjallsvæði nýnasista.[9]

Í nóvember árið 2013 var afskornum svínshöfðum dreift um lóðina sem úthlutað hafði verið undir moskubygginguna, ásamt eintaki af Kóraninum sem atað hafði verið blóði.[10] Einn mannanna sem voru að verki, Óskar Bjarnason, lýsti verknaðinum á hendur sér. Rannsókn lögreglu á málinu lauk án kæru.[11]

Kosningar 2014[breyta | breyta frumkóða]

Seinni hluta maí, 2014, sagðist Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, efsti frambjóðandi Framsóknarflokksins í kosningum til borgarráðs í Reykjavík, vilja beita sér fyrir því að úthlutun lóðarinnar yrði afturkölluð.[12] Sagði Sveinbjörg meðal annars: „Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna“.[13] Á facebook-hópnum „Mótmælum mosku á Íslandi“ var í kjölfarið lýst yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn í kosningunum.[14]

Meðal þeirra sem andmæltu málflutningi Sveinbjargar var Samband ungra framsóknarmanna, sem lýsti yfir „fullkomnu vantrausti“ á oddivtanum „vegna framgöngu hennar í málefnum sem varða lóðarúthlutanir fyrir trúfélög“. Yfirlýsingin hvarf af vefsíðu félagsins um hálftíma eftir birtingu.[15] Hreiðar Eiríksson hætti við framboð með flokknum í kjölfar mosku-ummælanna. Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði afstöðu oddvitans í Reykjavík ganga þvert á stefnu flokksins.[16] Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra tók undir með Sigrúnu.[17] Guðrún Bryndís Karlsdóttir sagðist í grein hafa hætt við framboð með flokknum á undirbúningsstigi, vegna fyrirætlaðrar áherslu á andstöðu við byggingu moskunnar.[18]

Þá andmælti biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, málstað frambjóðanda Framsóknarflokksins og sagði: „Það er sjálfsagt mál að fólk hafi stað til að koma á og lofa sinn guð. Ég hef enga skoðun hvar moska á að vera í Reykjavík. Mér finnst sjálfsagt að múslimar fái að hafa sinn helgistað.“[19]

Í kjölfar kosninganna kærði Salman Tamimi, fyrrum formaður Félags múslima á Íslandi, ummæli sem þá höfðu birst um hann í spjallþráðum, sem morðhótanir.[20]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Upplýsingar á vefsíðu Félags múslima á Íslandi“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2014. Sótt 5. júní 2014.
 2. http://www.althingi.is/lagas/141b/1970035.html
 3. Bandaríska utanríkisráðuneytið: International Religious Freedom Report 2006
 4. „Þriðja skýrsla ECRI um Ísland, 2007“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. mars 2016. Sótt 5. júní 2014.
 5. Skýrsla ECRI um Ísland, 2012
 6. [https://www.visir.is/g/20191629506d Moskan á Suðurlandsbraut samþykkt]Vísir, sótt 4/3 2023
 7. Fengu áróðurs­bréf gegn múslim­um inn um lúg­una, frétt á mbl.is, 27. júní 2012
 8. „Mýturnar um múslima“, umfjöllun á mbl.is, 17.7.2013
 9. Nýnasistar hvattir til að mótmæla mosku á Íslandi
 10. Afsagaðir svínshausar á moskulóð í Sogamýri, frétt frá Vísi
 11. Lögregla lokið rannsókn, frétt á Vísi
 12. „Ólga innan Framsóknar vegna ummæla oddvita“, frétt frá RÚV
 13. „Oddviti Framsóknar vill afturkalla lóð …“, frétt á Vísi, 23. maí 2014
 14. „„Moskuandstæðingar lýsa yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn", frétt á Vísi, 3. júní 2014“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júní 2014. Sótt 5. júní 2014.
 15. „Vantraust á oddvita fjarlægt af vefsíðu“, frétt frá RÚV, 29. maí 2014
 16. Endurspeglar ekki afstöðu flokksins
 17. „„Gunnar Bragi tekur undir orð Sigrúnar", frétt frá RÚV, 26. maí 2014“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. maí 2014. Sótt 5. júní 2014.
 18. „„Er þetta Framsókn framtíðarinnar?" grein í Kvennablaðinu, 28. maí 2014“. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júní 2014. Sótt 5. júní 2014.
 19. „Biskup Íslands fylgjandi mosku …“, frétt á Vísi, 26. maí 2014
 20. „„Salman kærir morðhótanir", frétt á vef DV, 4. júní 2013“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. júní 2014. Sótt 5. júní 2014.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]