Fara í innihald

Mosi frændi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Mosi frændi er íslensk hljómsveit stofnuð af sex nemendum í MH í október árið 1985 og kom fyrst fram á tónleikum í Norðurkjallara MH í apríl árið eftir. Langkunnasta lag sveitarinnar, „Katla kalda“, naut talsverðra vinsælda sumarið 1988. Sveitin hefur komið saman með hléum og sendi árið 2017 frá sér sína fyrstu breiðskífu.

Stofnun og upphafsár

[breyta | breyta frumkóða]

Haustið 1986 gaf sveitin út þrettán laga snældu sem fékk heitið Suzy Creamcheese for President en hefur oftast verið þekktari sem „Sandý Saurhól“ en það stóð einmitt á framhlið umslagsins. Snældan var tekin upp í Norðurkjallaranum. Önnur hliðin var með frumsömdum lögum en hin með misfrumlegum paródíum af þekktum lögum. Tónleikar í tengslum við útkomu spólunnar vöktu nokkra athygli og blaðaskrif og í framhaldinu var Mosa frænda boðið að setja lög á safnsnældu frá útgáfufyrirtæki Dr. Gunna Erðanúmúsík sem kallaðist Snarl 2.

Mosinn hélt áfram að skipuleggja og halda tónleika sem vöktu mismikla lukku meðal áhorfenda og blaðamanna. Sumir töluðu um „menntaskólahúmor á fyrsta stigi rotnunar“[1], og Ari Eldon sem þá var bassaleikari í pönkhljómsveitinni Sogblettum, lagði til í blaðadómi um tónleika Mosans á Hótel Borg að best væri fyrir alla ef þessi hljómsveit hætti að koma fram.[2] En aðrir blaðamenn voru hrifnari, einna helst Þorsteinn J. Vilhjálmsson sem skrifaði í tónleikaumfjöllun: „Mosi Frændi er með skemmtilegri fyrirbærum í músíklífinu um þessar mundir. Kaldhæðnislegir útúrsnúningar er stefna út af fyrir sig. Sveitin er leitandi og óhrædd við að ráðst á garðinn þar sem hann er hæstur. Virðingarvert.“[3]

Kvöld eitt þegar tekið var að vora var sá sami Þorsteinn Joð að stýra útvarpsþætti sínum á Bylgjunni og fékk hlustendur til þess að semja með sér popptexta sem átti að sameina allt það versta í íslenskri textagerð. Mosi frændi setti sig í samband við Þorstein og bauðst til að semja lag við textann. Lagið, „Katla kalda“ vakti hrifningu ráðamanna á Bylgjunni sem fjármagnaði stúdíóupptöku af laginu. Það hljómaði síðan linnulaust í útvarpi sumarið 1988 og var þaulsætið á vinsældalistum stöðvanna. Um svipað leyti og lagið sló í gegn, skráði Mosi frændi sig í Músíktilraunir (sem hljómsveitin Katla kalda) og komst í úrslit. Þótt Mosinn hefði ekki erindi sem erfiði á úrslitakvöldinu var ákveðið að ráðast í að gefa út smáskífu sem leit dagsins ljós í júlímánuði. Platan kom út í 500 eintaka upplagi sem seldist upp. Lagið á B-hliðinni, „Ástin sigrar (?)“ komst í takmarkaða útvarpsspilun en útvarpsstöðvar á borð við Útrás og Útvarp Rót gerðu því betri skil en Rás 2, Bylgjan og Stjarnan. Þegar hér var komið sögu var þó þreyta komin í samstarfið og um haustið 1988 ákváðu meðlimir Mosa Frænda að láta gott heita. Kveðjutónleikar þeirra voru haldnir 18. nóvember 1988 í Norðurkjallara MH.

Þegar Ármann trommuleikari kvæntist haustið 2004 ákváðu meðlimir sveitarinnar að koma saman og taka nokkur lög í brúðkaupsveislunni. Í framhaldi af því fæddist sú hugmynd að halda endurkomutónleika þótt lítið gerðist í þeim málum í fyrstu. Á vordögum 2009 hófust þó æfingar og lék Mosi Frændi opinberlega í þrígang þetta sumar - fyrst sem leynigestur á pönktónleikum á Sódómu Reykjavík, því næst í beinni útsendingu á Rás 2 og loks á hinum eiginlegu "comeback" tónleikum á Grand Rokk 13. ágúst 2009. Meðal þeirra sem stigu á stokk með Mosa Frænda þetta kvöld voru Felix Bergsson og Páll Óskar Hjálmtýsson. Ári síðar lék Mosi frændi á "reunion" skólasystkina sinna úr MH, sem haldið var í Hugmyndahúsi Háskólanna.

Í tilefni af þrjátíu ára afmæli kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík voru haldnir tónleikar á Gauki á Stöng þar sem fram komu margar helstu jaðarsveitir landsins auk eldri pönkhljómsveita. Nýrri böndin fengu þau fyrirmæli að spila að minnsta kosti eitt lag úr kvikmyndinni og spreytti Mosi frændi sig á Creeps með Q4U, Ó Reykjavík með Vonbrigðum og Af því að pabbi vildi það með Jonee Jonee.

Mosi frændi lifnaði svo enn og aftur við árið 2013 og hélt tónleika á Gamla Gauknum þann 8. maí ásamt Skelk í bringu, Saktmóðigum, Fræbbblunum og Hellvar. Á þeim tónleikum voru frumflutt fjögur ný lög, "Útrásarvíkingurinn snýr aftur", "Ekkert hef ég lært", "Aulinn Atli" og "Nakin nótt" en síðasttalda lagið fékk nafn og texta aðeins nokkrum dögum fyrir tónleikana. Í tilefni af aldarfjórðungsafmæli Kötlu köldu ákvað Mosi frændi nefnilega að auglýsa eftir söngtexta við nýtt lag og var það gert í samvinnu við útvarpsþáttinn "Poppland" á Rás 2. Höfundur textans heitir Jón Benjamín Einarsson og hefur skrifað nokkur leikrit.

Fyrsta stúdíóplata sveitarinnar kom út árið 2017 og töldu sveitarmenn það vera heimsmet, að engin hljómsveit hafi sent frá sér sína fyrstu breiðskífu svo löngu eftir stofnun. Leit að öðru eins skilaði að minnsta kosti ekki árangri. Undirbúningur að gerð plötunnar hófst tveimur árum fyrr og var ákveðið að nokkur lög frá menntaskólaárunum ættu að fara á plötuna auk nýju laganna frá árunum eftir endurkomu. Curver Thoroddsen tók að sér upptökustjórn og var ákveðið að byrja ferlið á því að halda fjáröflunartónleika í Stúdentakjallaranum 21. maí 2016 og taka upp grunna að 12 lögum daginn eftir í yfirgefnu húsnæði leikfélagsins Hugleiks daginn eftir. Vinna við viðbótartökur og hljóðblöndun stóð svo í um ár og kom platan út á rafveitum, geisladisk og glærum vínyl í september 2017.

Hljómplatan fékk nafnið Óbreytt ástand eins og nýjasta lagið á plötunni, en uppröðun laga á plötunni var sem hér segir:

Ekkert hef ég lært (2013), Aulinn Atli (2013), Ó Reykjavík (2012), Óbreytt ástand (2016), Útrásarvíkingurinn snýr aftur (2013), Hanzki kannski (2016), Skítt með það (2015), Hversvegna eru stúlkur aldrei einar, Einar? (1988), Sláturtíð (1988), Creeps (2012) og Prinsessan á Mars (1988).

Önnur stúdíóplata Mosa frænda kom út í janúar 2020 og inniheldur sú plata 12 frumsamin lög, þau elstu samin við lokaundirbúning fyrri plötunnar. Bassi Ólafsson stýrði upptökum í Tónverk Hljóðveri í Hveragerði í lok ágúst 2019. Platan ber heitið Aðalfundurinn og lögin eru: Aðalfundurinn, Milli, Ungfrú Mósambík, Losti í meinum, Biblíusögur á hafsbotni, Hóteldólgur í miðborginni, Alexander Nix, Crossfit vélmenni, Reið, Uppblásið karma, Endastöð þjáninga, Niturdrep. Aðalfundurinn kom út á rafveitum og í 50 tölusettum eintökum á kassettu.

Tvær sex laga þröngskífur komu út í rafrænni útgáfu á árinu 2022, Svarthol og Hvítur dvergur. Hljómsveitin hafði ekki mikið getað fylgt Aðalfundinum eftir með spilamennsku vegna kórónuveirufaraldurs en lagðist þess í stað í lagasmíðar. Vinna við fyrri plötuna hófst vorið 2021 og var haldið í sumarbústað í Grímsnesinu og teknir upp trommugrunnar við nokkur lög en annan hljóðfæraleik tóku mosar upp hver í sínu horni. Söngupptökur fóru fram hjá Bassa Ólafssyni og kom Óttarr Proppé fram sem gestasöngvari í ábreiðu af laginu Plágan eftir Bubba Morthens. Axel Flex Árnason sá síðan um hljóðblöndun og tónjöfnun og kom platan út á vordögum 2022. Vinna var þá þegar hafin við sjálfstætt framhald plötunnar en trommur voru að þessu sinni teknar upp í Laugarnesskóla. Sami háttur var hafður á við upptökur á hljóðfæraleik en nú sá Axel Flex Árnason um söngtökurnar auk þess að hljóðblanda og tónjafna. Síðari platan kom út um haustið 2022. Svarthol inniheldur lögin Flagnað króm í Fossvogi, Plágan, Þú ert á mute, Mál og menning, Dr. Covid og Svarthol, en á Hvítum dvergi eru lögin Taktu þessa slöngu, Bad guy (ábreiða af lagi eftir Billie Eilish), Lilla & Dóra, Sefjun og sársauki, Stál og stemmning og Persónulegt.

  • Aðalbjörn Þórólfsson, bassi
  • Ármann Halldórsson, trommur
  • Björn Gunnlaugsson, gítar
  • Gunnar Hansson, hljómborð
  • Magnús J. Guðmundsson, gítar
  • Sigurður H. Pálsson, söngur
  • 1986 - Suzy Creamcheese for President (hljómsnælda)
  • 1987 - Snarl 2 (safnsnælda með fleirum)
  • 1988 - Ástin sigrar (smáskífa)
  • 2009 - "Greatest (s)hits" (geisladiskur)
  • 2010 - Grámosinn gólar (tónleikadiskur)
  • 2017 - Óbreytt ástand (breiðskífa)
  • 2020 - Aðalfundurinn (breiðskífa)
  • 2021 - Biblíusögur á hafsbotni (smáskífa)
  • 2021 - Hvað segir Feitibjörn? (jólalag)
  • 2022 - Svarthol (þröngskífa)
  • 2022 - Hvítur dvergur (þröngskífa)

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Árni Matthíasson, "Casablancasnarl", "Morgunblaðið", 3. desember 1987, s. 68 (Tímarit.is).
  2. Ari Eldon, „Tómleikar“, Morgunblaðið, 3. mars 1988, s. 54 (Tímarit.is).
  3. Þorsteinn J. Vilhjálmsson, „Paradísarheimt“, DV, 24. október 1987, s. 42 (Tímarit.is).