Milman Parry

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Milman Parry (19023. desember 1935) var bandarískur fornfræðingur.

Hann nam við University of California í Berkeley (til B.A. og M.A. gráðu) og Sorbonne háskóla í París (til doktorsgráðu). Parry var nemandi málvísindamannsins Antoine Meillet við Sorbonne.

Parry umturnaði rannsóknum á Hómer og hómerskviðum. Í doktorsritgerð sinni, sem var gefin út á frönsku á þriðja áratug 20. aldar, sýndi hann fram á að stíll Hómers einkenndist af mikilli notkun fastra orðasambanda, svonefndra formúla, sem ætlað var að merkja eitthvað sérstakt en voru löguð að ólíkum þörfum bragsins.

Í bókum sínum sem komu út í Bandaríkjunum á 4. áratugnum setti Parry fram þá tilgátu að gera yrði grein fyrir séreinkennum stíls Hómers á grundvelli þess að um munnlegan kveðskap væri að ræða (hin svonefnda munnlega formúlu tilgáta). Nemandi Parrys, Albert Lord, þróaði hugmyndina um Hómer sem munnlegt skáld áfram, einkum í ritinu The Singer of Tales (1960).

Milli 1933 og 1935 fór Parry, sem þá var ‚associate professor‘ (eða dósent) við Harvard háskóla, tvær ferðir til Júgóslavíu, þar sem hann rannsakaði og tók upp munnlegan kveðskap Suður-Slava.

Greinasafn Parrys kom út að honum látnum en Adam Parry, sonur hans, ritstýrði því: The Making of Homeric Verse: The Collected Papers on Milman Parry. Adam Parry (ritstj.) (Oxford: Oxford University Press, 1971). Safn Milmans Parry af upptökum og uppskriftum suðurslavnesks kveðskapar er nú geymt í Widener bókasafni Harvard háskóla.

Parry lést af völdum voðaskots árið 1935.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.