Mekong
Mekong er eitt af mestu fljótum í heimi. Það er talið vera í ellefta sæti hvað lengd varðar og 12. ef vatnsmagn er reiknað (ber fram um 475 km³ af vatni á ári). Áætluð lengd er 4880 km, og aðrennslissvæði er um 810,000 km².[1] Upptök eru á tíbetska hálendinu, það rennur suður í gegnum Yunnan-hérað í Kína, Burma, Taíland, Laos, Kambódíu og Víetnam. Gífurlegur munur er á vatnsmagni fljótsins eftir árstíma og gerir það ásamt fossum og gljúfrum mjög erfitt til siglinga á sumum svæðum þó svo að það sé afar mikilvæg samgönguleið á öðrum.
Nöfn
[breyta | breyta frumkóða]Mekong heitir á tíbetsku Dza-chu; (扎曲; skrifað með Pīnyīn: Zā Qū), á kínversku 澜沧江/瀾滄江 Láncāng Jiāng („Umhleypingafljótið“) eða 湄公河 Méigōng hé; á burmísku Mae Khaung; á taílensku og laoesku แม่น้ำโขง Mae Nam Khong (Mae Nam þýðir „Móðir vatnana“), og einnig Maekong; á khmer Mékôngk eða Tonle Thom („Vatnið mikla“); á víetnömsku Sông Lớn („Stóra fljótið“), Sông Cửu Long („Fljót drekanna níu“) og einnig Sông Mê Kông („Langa drekafljótið“).
Evrópska nafnið Mekong er sennilegast dregið af taílensk-laoska nafninu Mékôngk eða kínveska Méigōng.
Farvegur
[breyta | breyta frumkóða]Eins og gefur að skilja eru margir lækir sem telja má sem upphaf Mekong. Samkvæmt kínverskum jarðfræðingum ber að telja Lasagongma uppsprettuna sem upphaf fljótsins, þessi uppspretta er í fjallinu Guozongmucha í 5224 metra hæð.[2] Fjall þetta liggur í kínverska héraðinu Qinghai sem áður var hluti af Tíbet. Úr uppsprettunni rennur áin Zayaqu. Franski jarð og mannfræðingurinn Michel Piessel, sem hafði tekið þátt í mörgum leiðöngrum á þessu svæði, hafði áður ályktað að upphaf fljótsins væri árin Zanaqu sem kemur upp í Rupsa-La dalnum (sem er vestar en Guozongmucha og liggur á 4975 metra hæð).[3] Af þessum ástæðum ber útreikningum á lengd fljótsins ekki saman, er það talið allt frá 4350 til 4909 km.
Um það bil helmingur af lengd fljótsins rennur í gegnum Kína (2198 km, heitir það Dza Chu á tíbetönsku en sá hluti sem rennur í gegnum Kína er kallaður Lancang (澜沧江) (einnig stafað Láncāng Jiāng) á kínversku (sem þýðir um það bil „umhleypingafljótið“). Megnið af leiðinni rennur fljótið í djúpum gljúfrum og það er í einungis um 500 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem það rennur suður úr Kína þó fjöllin umhverfis séu í mörg þúsund metra hæð. Fljótið í heild sinni heitir Meigong á kínversku (湄公河 eða Méigōng Hé).
Fljótið myndar landamæri Burma og Laos næstu 200 km. Þar sem landmærin enda sameinast áin Ruak Mekongfljóti. Þar skilur einnig á milli þess sem nefnt er Efri og Neðri Mekong.
Fljótið myndar síðan landamæri Laos og Taílands í um 80 km áður en það rennur um skeið einungis inni í Laos. Fljótið heitir Maè Nam Khong ("móðir vatnana") (แม่น้ำโขง) bæði á laosku og taílensku. Þar sem það rennur inni í Laos einkennist það af gljúfrum og flúðum. Fyrir sunnan borgina Luang Prabang breiðir það mjög úr sér og er allt að 4 km á breidd og 10 metra djúpt.
Þar fyrir sunnan myndar fljótið að nýju landamæri Laos og Taílands og á bökkum þess stendur meðal annars Vientiane, höfuðborg Laos. Syðst í Laos rennur það að nýju nokkurn spöl inn í Laos. Þar syðst er Si Phan Don ("fjögur þúsund eyja") svæðið og Khone fossarnir rétt norðan við landmæri Kambódíu. Á þessu svæði má meðal annars sjá hina annars afar sjaldgæfu Irrawaddy höfrunga (Orcaella brevirostris).
Í Kambódíu er fljótið ýmist nefnt Mékôngk eða Tonle Thom ("stóra fljótið"). Sambor -flúðirnar norðan við borgina Kratie í norðaustur Kambódíu er síðast hindrunin fyrir siglingar á fljótinu. Við höfðuborgina Phnom Penh sameinast Mekong við fljótið Tonle Sap. Skammt sunnan við Phnom Penh skiptist fljótið í tvær nokkrun vegin jafn vatnsmiklar kvíslar, suðurfljótið er nefnt Bassac en það nyrðra heldur nafninu Mekong. Báðar kvíslarnar mynda sameiginlega Mekong-óseyrarnar í Víetnam.
Á víetnömsku er fljótið í heild sinni nefnt Mê Kông. Sá hluti sem rennur í gegnum Víetnam heitir oftast Sông Cửu Long ("fljót drekanna níu"), en meginkvíslin sem í Kambodíu er nefnd Mekong heitir hér Tiền Giang ("framáin") og sú sem nefnd er Bassac heitir Hậu Giang ("bakáin"). En fljótið rennur út í Suður-Kínahaf í níu kvíslum og er víetnamska nafnið dregið af því.
Um 90 milljónir manna byggja Mekong-svæðið, það er að segja Yunnan hérað í Kína, Burma, Laos, Taíland, Kambódía og Víetnam.[4] Aðalatvinnuvegur og lifibrauð er hrísgrjónaræktum og hrísgrjónaakrar þekja um 140,000 km² á þessu svæði.[5] Gífurlegur fjöldi hrísgrjónaafbrigða eru ræktuð hér, greind hafa verið um 40 000 á Mekongsvæðinu.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. september 2010. Sótt 8. desember 2007.
- ↑ „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 31. október 2007. Sótt 8. desember 2007.
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. desember 2007. Sótt 8. desember 2007.
- ↑ http://www.un.org/Depts/Cartographic/map/profile/mekong.pdf
- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. ágúst 2007. Sótt 8. desember 2007.
- ↑ http://www.springerlink.com/index/U3730661374W8T02.pdf[óvirkur tengill]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Milton Osborne. 1976. River Road to China: The Mekong River Expedition 1866-1873. George Allen & Unwin.
- Milton Osborne. 2000. The Mekong, Turbulent Past, Uncertain Future Atlantic Monthly Press, New York. ISBN 0-87113-806-9
- Edward A. Gargan. 2002. The River's Tale. First published by Alfred A. Knopf.
- Fredenburg, P. and B. Hill. 2006. Sharing Rice for Peace and Prosperity in the Greater Mekong Subregion. Sid Harta Publishers, Victoria. ISBN 1-921206-08-X. pp271.
Ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- Mekong River Commission
- Bibliography on Water Resources and International Law Geymt 9 febrúar 2011 í Wayback Machine Sjá Mekong River. Peace Palace Library
- Ýmsar heimildir og kort af Mekong-svæðinu Mekong River Geymt 3 september 2007 í Wayback Machine
- Institute of Defense and Strategic Studies, Singapore Geymt 25 maí 2005 í Wayback Machine "China in the Mekong River Basin: The Regional Security Implications of Resource Development on the Lancang Jiang" by Evelyn Goh, Working Paper No. 69
- Myndir frá Mekong í norður Laos Geymt 27 október 2007 í Wayback Machine