Luang Prabang

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Xieng Tong-musterið
Kvöldmarkaður
Mynd af Luang Prabang, fljótið Mekong í forgrunni

Luang Prabang, sem einnig er stafað Louang Prabang, (á laosku: ຫລວງພະບາງ) er borg í norðurhluta Laos og höfuðstaður í samnefndu héraði. Íbúatala borgarinnar er um 48 000 (2005), í héraðinu um 100 000. Upphaflega hét borgin Xieng Dong Xieng Thong en fékk núvarandi nafn af Búddha-styttu (Phrabang Buddha) sem var flutt frá Vientiane 1512. Í samband við laoska nýárið er mikil hátíð tengd þessari styttu. Borgin var höfuðborg í ríkinu Lan Xang frá byrjun fjórtándu aldar fram um miðja sextándu öld. Lang Xang samsvaraði nokkurn vegin núverandi Laos. Árið 1707 leystist Lan Xang upp og þá varð Luang Prabang höfuðborg í samnefndu konungsdæmi.

Franska nýlendustjórnin gerði konunginn í Luang Prabang að formlegum þjóðhöfðingja en valdalausum í raun þegar þeir náðu Laos undir sig í lok 19. aldar. Vientiane var höfuðborg en Luang Prabang konunglegt aðsetur. Hélst það allt fram að 1975 þegar kommúnistar tóku völdin og afnámu konungsdæmið.

Luang Prabang liggur við Mekong-fljótið, um 420 km fyrir norðan Vientiane. Borgin er miðstöð í trúarlífi búddhista í Laos og þar eru nú 33 klaustur og mikill fjöldi munka og nunna. Mörg klaustur byggð þegar á sexándu öld.

Louang Prabang var tilnefnt 1995 á Heimsminjaskrá UNESCO, og er álitin vera einstök blanda af hefðbundinni byggingarlist og frönskum nýlenduáhrifum. Á síðari árum hefur fjöldi ferðamanna lagt leið sína til borgarinnar.

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

19°53′N 102°08′A / 19.883°N 102.133°A / 19.883; 102.133