Mekong

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort yfir Mekong-svæðið

Mekong er eitt af mestu fljótum í heimi. Það er talið vera í ellefta sæti hvað lengd varðar og 12. ef vatnsmagn er reiknað (ber fram um 475 km³ af vatni á ári). Áætluð lengd er 4880 km, og aðrennslissvæði er um 810,000 km².[1] Upptök eru á tíbetska hálendinu, það rennur suður í gegnum Yunnan-hérað í Kína, Burma, Taíland, Laos, Kambódíu og Víetnam. Gífurlegur munur er á vatnsmagni fljótsins eftir árstíma og gerir það ásamt fossum og gljúfrum mjög erfitt til siglinga á sumum svæðum þó svo að það sé afar mikilvæg samgönguleið á öðrum.

Nöfn[breyta | breyta frumkóða]

Mekong heitir á tíbetsku Dza-chu; (扎曲; skrifað með Pīnyīn: Zā Qū), á kínversku 澜沧江/瀾滄江 Láncāng Jiāng („Umhleypingafljótið“) eða 湄公河 Méigōng hé; á burmísku Mae Khaung; á taílensku og laoesku แม่น้ำโขง Mae Nam Khong (Mae Nam þýðir „Móðir vatnana“), og einnig Maekong; á khmer Mékôngk eða Tonle Thom („Vatnið mikla“); á víetnömsku Sông Lớn („Stóra fljótið“), Sông Cửu Long („Fljót drekanna níu“) og einnig Sông Mê Kông („Langa drekafljótið“).

Evrópska nafnið Mekong er sennilegast dregið af taílensk-laoska nafninu Mékôngk eða kínveska Méigōng.

Farvegur[breyta | breyta frumkóða]

Bátar á Mekong-fljót í norður Laos.
Mekong-fljót í suður Laos.
Árósar Mekong-fljóts séðir utan úr geymi í febrúar 1996 (suðurátt sýr upp)

Eins og gefur að skilja eru margir lækir sem telja má sem upphaf Mekong. Samkvæmt kínverskum jarðfræðingum ber að telja Lasagongma uppsprettuna sem upphaf fljótsins, þessi uppspretta er í fjallinu Guozongmucha í 5224 metra hæð.[2] Fjall þetta liggur í kínverska héraðinu Qinghai sem áður var hluti af Tíbet. Úr uppsprettunni rennur áin Zayaqu. Franski jarð og mannfræðingurinn Michel Piessel, sem hafði tekið þátt í mörgum leiðöngrum á þessu svæði, hafði áður ályktað að upphaf fljótsins væri árin Zanaqu sem kemur upp í Rupsa-La dalnum (sem er vestar en Guozongmucha og liggur á 4975 metra hæð).[3] Af þessum ástæðum ber útreikningum á lengd fljótsins ekki saman, er það talið allt frá 4350 til 4909 km.

Um það bil helmingur af lengd fljótsins rennur í gegnum Kína (2198 km, heitir það Dza Chu á tíbetönsku en sá hluti sem rennur í gegnum Kína er kallaður Lancang (澜沧江) (einnig stafað Láncāng Jiāng) á kínversku (sem þýðir um það bil „umhleypingafljótið“). Megnið af leiðinni rennur fljótið í djúpum gljúfrum og það er í einungis um 500 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem það rennur suður úr Kína þó fjöllin umhverfis séu í mörg þúsund metra hæð. Fljótið í heild sinni heitir Meigong á kínversku (湄公河 eða Méigōng Hé).

Fljótið myndar landamæri Burma og Laos næstu 200 km. Þar sem landmærin enda sameinast áin Ruak Mekongfljóti. Þar skilur einnig á milli þess sem nefnt er Efri og Neðri Mekong.

Ferjustaður á Mekong-fljóti í norður Laos

Fljótið myndar síðan landamæri Laos og Taílands í um 80 km áður en það rennur um skeið einungis inni í Laos. Fljótið heitir Maè Nam Khong ("móðir vatnana") (แม่น้ำโขง) bæði á laosku og taílensku. Þar sem það rennur inni í Laos einkennist það af gljúfrum og flúðum. Fyrir sunnan borgina Luang Prabang breiðir það mjög úr sér og er allt að 4 km á breidd og 10 metra djúpt.

Þar fyrir sunnan myndar fljótið að nýju landamæri Laos og Taílands og á bökkum þess stendur meðal annars Vientiane, höfuðborg Laos. Syðst í Laos rennur það að nýju nokkurn spöl inn í Laos. Þar syðst er Si Phan Don ("fjögur þúsund eyja") svæðið og Khone fossarnir rétt norðan við landmæri Kambódíu. Á þessu svæði má meðal annars sjá hina annars afar sjaldgæfu Irrawaddy höfrunga (Orcaella brevirostris).

Í Kambódíu er fljótið ýmist nefnt Mékôngk eða Tonle Thom ("stóra fljótið"). Sambor -flúðirnar norðan við borgina Kratie í norðaustur Kambódíu er síðast hindrunin fyrir siglingar á fljótinu. Við höfðuborgina Phnom Penh sameinast Mekong við fljótið Tonle Sap. Skammt sunnan við Phnom Penh skiptist fljótið í tvær nokkrun vegin jafn vatnsmiklar kvíslar, suðurfljótið er nefnt Bassac en það nyrðra heldur nafninu Mekong. Báðar kvíslarnar mynda sameiginlega Mekong-óseyrarnar í Víetnam.

Á víetnömsku er fljótið í heild sinni nefnt Mê Kông. Sá hluti sem rennur í gegnum Víetnam heitir oftast Sông Cửu Long ("fljót drekanna níu"), en meginkvíslin sem í Kambodíu er nefnd Mekong heitir hér Tiền Giang ("framáin") og sú sem nefnd er Bassac heitir Hậu Giang ("bakáin"). En fljótið rennur út í Suður-Kínahaf í níu kvíslum og er víetnamska nafnið dregið af því.

Um 90 milljónir manna byggja Mekong-svæðið, það er að segja Yunnan hérað í Kína, Burma, Laos, Taíland, Kambódía og Víetnam.[4] Aðalatvinnuvegur og lifibrauð er hrísgrjónaræktum og hrísgrjónaakrar þekja um 140,000 km² á þessu svæði.[5] Gífurlegur fjöldi hrísgrjónaafbrigða eru ræktuð hér, greind hafa verið um 40 000 á Mekongsvæðinu.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. september 2010. Sótt 8. desember 2007.
  2. „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 31. október 2007. Sótt 8. desember 2007.
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. desember 2007. Sótt 8. desember 2007.
  4. http://www.un.org/Depts/Cartographic/map/profile/mekong.pdf
  5. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. ágúst 2007. Sótt 8. desember 2007.
  6. http://www.springerlink.com/index/U3730661374W8T02.pdf[óvirkur tengill]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Milton Osborne. 1976. River Road to China: The Mekong River Expedition 1866-1873. George Allen & Unwin.
  • Milton Osborne. 2000. The Mekong, Turbulent Past, Uncertain Future Atlantic Monthly Press, New York. ISBN 0-87113-806-9
  • Edward A. Gargan. 2002. The River's Tale. First published by Alfred A. Knopf.
  • Fredenburg, P. and B. Hill. 2006. Sharing Rice for Peace and Prosperity in the Greater Mekong Subregion. Sid Harta Publishers, Victoria. ISBN 1-921206-08-X. pp271.

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]