Maximilian 1. Mexíkókeisari
| ||||
Maximilian 1.
| ||||
Ríkisár | 11. júlí 1863 – 19. júní 1867 | |||
Skírnarnafn | Ferdinand Maximilan Jósef | |||
Fæddur | 6. júlí 1832 | |||
Schönbrunn-höll, Vín, austurríska keisaradæminu | ||||
Dáinn | 19. júní 1867 (34 ára) | |||
Santiago de Querétaro, Mexíkó | ||||
Gröf | Keisaragrafhýsinu í Vín | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Frans Karl erkihertogi | |||
Móðir | Soffía af Bæjaralandi | |||
Keisaraynja | Karlotta |
Maximilian (Maximiliano á spænsku; fæddur Ferdinand Maximilan Jósef; 6. júlí 1832 – 19. júní 1867) var fyrsti og eini keisari annars mexíkóska keisaradæmisins. Hann var yngri bróðir Frans Jósefs Austurríkiskeisara. Eftir að Maximilian hafði unnið sér inn frama í austurríska sjóhernum þáði hann tilboð frá Napóleon III Frakkakeisara um að gerast keisari Mexíkó með hernaðaraðstoð Frakka. Frakkar (ásamt Bretum og Spánverjum, sem drógu sig til hlés ári síðar eftir friðarsáttmála við lýðveldisstjórn Mexíkó) höfðu gert innrás í Mexíkó veturinn 1861 til að stækka áhrifasvæði Frakkaveldis. Til þess að gera frönsk yfirráð í Ameríku lögmæt bauð Napóleon Maximilian að koma á fót nýrri mexíkóskri konungsætt fyrir sig. Með stuðningi franska hersins og hópi íhaldssamra mexíkóskra konungssinna sem stóðu gegn frjálslyndri stjórn hins nýja forseta Mexíkó, Benito Juárez, ferðaðist Maximilian til Mexíkó. Við komu hans þangað lýsti hann sig keisara Mexíkó þann 10. apríl 1864.[1]
Mexíkóska keisaradæmið hlaut almenna viðurkenningu allra evrópsku stórveldanna, þar á meðal Bretlands, Austurríkis og Prússlands. Bandaríkin viðurkenndu hins vegar einungis Benito Juárez sem lögmætan forseta Mexíkó. Maximilian tókst aldrei alveg að sigra mexíkóska lýðveldið; lýðveldissinnar undir stjórn Juárez forseta héldu áfram skæruhernaði alla valdatíð Maximilians. Þegar bandarísku borgarastyrjöldinni lauk árið 1865 hófu Bandaríkin (sem höfðu þangað til verið of upptekin við eigin borgarastyrjöld til að vernda það sem þeir töldu sem áhrifasvæði sitt gegn innrás Evrópubúa) að styðja herlið Juárez með beinum hætti. Staða Maximilians fór úr öskunni í eldinn árið 1866 þegar Frakkar drógu her sinn burt frá Mexíkó. Keisaradæmið hrundi fljótt án stuðnings þeirra. Maximilian var handsamaður af lýðveldissinnum og tekinn af lífi árið 1867. Eiginkona hans, Karlotta, hafði þá ferðast til Evrópu til að vinna manni sínum stuðning. Eftir aftöku hans fékk hún taugaáfall og var lýst geðveik.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Keisarinn í Mexíkó“. Alþýðublaðið. 26. febrúar 1967. bls. 8–9; 14.