Fara í innihald

Grafhýsið í Halikarnassos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Mausoleum)
16.áldar málmrista eftir hollenska listamanninn Marten Heemskerk.

Grafhýsi Mausolos (forngríska: Μαυσωλεῖον Mausoleion) er við Halikarnassos (Bodrum, í Tyrklandi í dag) og var eitt af sjö undrum veraldar.

Þegar Persar þöndu út konungsdæmi sítt út til Litlu-Asíu, gat konungurinn ekki stjórnað öllu ríkinu sjálfur, svo hann hafði staðbundna landsstjóra um allt veldið, svokallaða „satraps“. Mausolos var einn af þeim og stjórnaði konungsveldinu Karíu í vesturhluta Litlu-Asíu. Það var svo langt frá persnesku höfuðborginni að það var því næst sjálfstætt. Mausolos ríkti þar frá 377353 f.Kr. og hafði Halikarnassos höfuðborg sína. Það er ekkert áhugavert að segja um líf Mausolos. Það er aðeins grafhýsi hans sem hann er þekktur fyrir. Artemisia, systir hans, fékk hugmyndina að því, svo það er mögulegt að smíðin hafi hafist fyrir dauða hans en var þó ekki tilbúið fyrr en kringum 350 f.Kr., þremur árum eftir dauða hans og einu ári eftir dauða Artemisiu.

Saga grafhýssins

[breyta | breyta frumkóða]
Byggingarlóðin í dag.

Hið gífurlega grafhýsi var byggt til að geyma lík Mausolosar en það var skýrt Mausoleion í höfuðið á honum og er orðið ‚mausoleum‘ notað í dag yfir mikil grafhýsi á nokkrum tungumálum. Það innihélt einnig konu hans og systur, Artemisiu, en það var hefð í Karíu fyrir því stjórnendur giftust systrum sínum. Forngrísku arkitektarnir Satýros og Pýþíos voru fengnir til að hanna gröfina og fjórir frægir grískir myndhöggvarar, þ.á m. Skópas, bættu við frísu eða skrautlínu um ytra borðið.

Hofið stóð í einar 16 aldir og var í góðu ástandi þangað til það skemmdist verulega í jarðskjálfta. Árið 1404 var aðeins undirstaða hofsins þekkjanleg. Snemma á 15. öld gerðu Jóhannesarriddararnir af Möltu árás á svæðið og smíðuðu gríðarstóran kastala. Árið 1494 ákváðu þeir að styrkja hann og notuðu þá steinana úr Mausoleion. Um 1522 var næstum hver einasti steinn horfinn úr Mauseoleion.

Enn í dag er hægt að sjá kastalann sem var reistur í Bodrum og er hægt að koma auga á fægðu steinana og marmarablokkirnar úr Mausoleion í veggjum kastalans. Einnnig er hægt að sjá höggmyndir úr grafhýsinu sem stóðust tímans tönn og eru til sýnis á British Museum. Svo er enn til byggingarlóð sjálfs Mausoleions, þar sem aðeins undirstaðan ein er enn til staðar.

Ástæðan fyrir því að Antipater setti Mausoleion á listann er ekki vegna stærðar þess, heldur vegna fegurðar, forms, skreytingar og mikilfengleika. Það var staðsett á hæð og gnæfði yfir Halikarnassos. Grunnurinn var 40 x 30 m. Á honum var skreyttur þreppallur. Ofan á hann kom síðan greftrunarklefinn, umkringur súlum. Ofan á hann kom svo pýramídslaga þak sem var skreytt með styttum. Efst á toppnum prýddi stytta af stríðsvagni sem var togaður af fjórum hestum. Í heild var hann 45 m á hæð. Þetta var heldur óvenjuleg bygging í laginu og átti engan sinn líka. Annað sem var óvenjulegt fyrir hofið var að stytturnar voru af fólki og dýrum en ekki af guðum og gyðjum eins og var siður.